Örorkubætur og fæðingarstyrkur

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:52:47 (2185)

2003-11-26 15:52:47# 130. lþ. 35.5 fundur 319. mál: #A örorkubætur og fæðingarstyrkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um hvort ráðherra finnist eðlilegt að fæðingarstyrkur skerði örorkubætur og ef svo er, hvernig hann rökstyðji þá afstöðu.

Virðulegi forseti. Spurningin getur annars vegar lotið að því að fæðingarstyrkur telst tekjur í skilningi 10. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og leiði þar af leiðandi til skerðingar á örorkulífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Hins vegar getur spurningin lotið að því að foreldri sem fær örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þar sem um er að ræða ósamrýmanleg réttindi samkvæmt lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Ekki er ljóst af spurningu hv. þm. hvort atriðið er átt við en í fyrra tilvikinu er um að ræða skilgreiningu á því hvað teljist tekjur sem skerði örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 10. gr. almannatryggingalaga er tekið fram hvaða tekjur skuli skerða örorkulífeyri og tekjutryggingu og jafnframt taldar upp undantekningar frá því. Það sem ekki telst tekjur sem leiða til skerðingar á örorkulífeyri eru bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð, húsaleigubætur samkvæmt lögum um húsaleigubætur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við um almannatryggingar. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljast ekki tekjur þegar um er að ræða örorkulífeyri en þær teljast tekjur við útreikning á tekjutryggingu. Samkvæmt þessu teljast greiðslur samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof tekjur sem geta leitt til skerðingar á örorkulífeyri og tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins. Má vera að svo ætti ekki að vera að því er varðar fæðingarstyrkinn þar sem hann er greiddur foreldrum sem eru utan vinnumarkaðar eða í námi. Mun ég taka það til frekari skoðunar.

Herra forseti. Ef spurning hv. þm. lýtur að síðara atriðinu sem ég nefndi í upphafi þá kveður 33. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof á um að lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og greiðslur í fæðingarorlofi séu ósamrýmanleg réttindi. Ákvæðið er í samræmi við þá meginreglu laga um almannatryggingar að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar bóta greiddra frá Tryggingastofnun ríkisins. Nokkrar undantekningar er að finna á þessari meginreglu en þær eru taldar sérstaklega upp í lögunum. Ég tel ekki óeðlilegt að meginregla almannatryggingalaga sé látin gilda í þessu samhengi.