Örorkubætur og fæðingarstyrkur

Miðvikudaginn 26. nóvember 2003, kl. 15:57:08 (2187)

2003-11-26 15:57:08# 130. lþ. 35.5 fundur 319. mál: #A örorkubætur og fæðingarstyrkur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og fagna því að hann ætlar að skoða þetta mál sérstaklega. Samkvæmt lögum er fæðingarstyrkurinn tekjur. En það sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort hann telji það eðlilegt vegna þess að þetta eru greiðslur vegna breyttra aðstæðna tímabundið, alveg eins og ákveðnir bótaflokkar innan almannatrygginganna til öryrkjans, t.d. það að hann býr einn og það er dýrara o.s.frv.

Eitt af því sem við höfum oft rætt á þingi er heimilisuppbótin sem féll niður ef öryrki eignaðist barn. Eftir að hafa tekið þetta mál mörgum sinnum upp á þingi endaði með því að við breyttum þessu. Þessu var breytt í lögunum. Það var alveg fullkomlega eðlilegt. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum líka að skoða með það fyrir augum að breyta þessum reglum vegna þess að ég tel ekki eðlilegt þegar greiðslur eru svona lágar að fæðingarstyrkurinn, sem er innan við 40 þús. kr. og greiddur öryrkjanum bara tímabundið þegar barn fæðist, sé látinn skerða lágar örorkugreiðslur öryrkjans.

Vegna athugasemdar hv. 3. þm. Reykv. s. þá vorum við ekki að tala um örorkustyrk heldur vorum við að tala um örorkulífeyri sem er annað mál. Ég veit náttúrlega hver afstaða hans er í þessu máli en ég verð að segja að þetta er mjög nöturlegt gagnvart öryrkjum, sérstaklega í ljósi þess að menn eru tilbúnir til og greiða mjög háar greiðslur þeim sem fara í fæðingarorlof og eru á háum launum. Þar eru mjög háar greiðslur. En þarna er verið að skerða mjög lága framfærslu með þessum litla styrk þannig að ég bara fagna því að hæstv. ráðherra ætli að skoða þetta mál og treysti því að hann breyti þessu óréttláta skerðingarákvæði.