Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:39:16 (2199)

2003-11-27 10:39:16# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég var ein þeirra þingmanna sem í umræðunni á þingi um daginn ræddu um túnið heima, eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um í upphafi máls síns. Við þurfum auðvitað að gá að því að varðhundar ríkisstjórnarinnar í útvarpsráði búi ekki til ríkisstjórnarútvarp úr Ríkisútvarpinu. Er þessi samþykkt útvarpsráðs til marks um að slíkt sé nú í gangi? Eru hér í gangi þvingunaraðgerðir til þess að gera fréttaflutning einsleitan, gera fréttaflutning þannig úr garði að hann eigi bara að þjóna ákveðnum eða tilteknum pólitískum sjónarmiðum? Ef svo er, þá er hér um afskaplega hættulegt mál að ræða sem alþingismenn þurfa að sjálfsögðu að koma að.

Ég spyr sjálfa mig: Hvað liggur að baki þeirri samþykkt sem útvarpsráð hefur gert? Hafa starfsreglur Ríkisútvarpsins um fréttaflutning verið brotnar? Það liggur ekki fyrir. Eða hvað þýðir þetta orðalag ,,að fréttir skuli bornar fram samkvæmt starfsreglum Ríkisútvarpsins um fréttaflutning``? Felur þetta í sér að menn hafi verið að brjóta þessar reglur? Ég fullyrði, virðulegur forseti, sem gamall starfsmaður Ríkisútvarpsins til margra ára, að starfsmenn Ríkisútvarpsins vaka og sofa yfir því að gæta hlutleysis hvern einasta dag. Og ekki nóg með það, þeir gæta að sínu lýðræðislega hlutverki, lýðræðislegu hlutverki miðilsins. Og hvert er það hlutverk lögum samkvæmt? Að sjá til þess að fjölbreytt fréttaflóra ríki í þessum miðli. Og ég fullyrði það við hvern sem heyra vill að starfsmenn Ríkisútvarpsins hafa staðið sig vel í þessum málum. Þeir hafa staðið vörð um lýðræðislegt hlutverk Ríkisútvarpsins svo sómi er að. En það er ekki sómi að þeirri yfirlýsingu eða bókun sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa lagt fram í útvarpsráði og fengið þar samþykkta.