Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:44:54 (2202)

2003-11-27 10:44:54# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:44]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Virðulegi forseti. Hæstv. starfandi menntmrh. Geir H. Haarde segir að hér sé farið upp af litlu tilefni. Er það virkilega svo, virðulegi forseti, að það sé lítið tilefni þegar starfsmönnum Ríkisútvarpsins líður með þeim hætti sem viðkomandi starfsmaður greinir frá í þessu viðtali? Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, að þetta viðtal er ekki að koma upp í einhverju fljótræði eða bræði þessa tiltekna þáttarstjórnanda, heldur kemur það væntanlega til í kjölfar þeirra skipulagsbreytinga sem verið er að gera í útvarpsráði. Breytinga sem gerðar eru í kjölfarið á bréfi sem útvarpsstjóri sendi út um að það væri vinstri slagsíða á þessum umrædda þætti, Speglinum. Og af því að hæstv. fjmrh. talaði mikið um það að verið væri að væna ríkisstjórnina um eitt og annað í þessum efnum, þá er það bara svo, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmrh. hefur tjáð sig ansi fjálglega á sinni heimasíðu og víðar, m.a. talað um að það sé vinstri slagsíða á þessum ... (Fjmrh.: Hefur hann ekki málfrelsi?) Hann hefur að sjálfsögðu málfrelsi en þá verður hann líka að standa fyrir orðum sínum og ríkisstjórnin að standa fyrir því sem hún er að gera á þeim vettvangi sem við erum að ræða um hér. Og það er ekkert óeðlilegt í kjölfarið á slíkum skrifum að við tengjum málið beinlínis ríkisstjórninni.

Ég talaði ekki um varðhunda ríkisstjórnarinnar inni í útvarpsráði, ég nefndi aldrei þau orð hér. En auðvitað eru bein tengsl á milli þess sem hæstv. ráðherrar segja annars vegar og hins vegar þess þegar beinlínis í kjölfarið á slíkum ummælum koma skipulagsbreytingar á borð við þær sem nú eru að eiga sér stað í útvarpsráði. Og hæstv. ríkisstjórn getur ekkert vikið sér undan því að taka ábyrgð á því sem þar er að gerast.