Sjálfstæði Ríkisútvarpsins

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:52:12 (2206)

2003-11-27 10:52:12# 130. lþ. 36.91 fundur 186#B sjálfstæði Ríkisútvarpsins# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég furða mig ekki á því að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., telji þessa umræðu tilefnislausa. Það sem Framsfl. hefur gert í þessu máli í gegnum fulltrúa sinn í útvarpsráði, sem einnig er aðstoðarmaður hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, flokkssystur hæstv. utanrrh., er að sverjast í fóstbræðralag með Sjálfstfl. um að hlýða skipunum sem boðaðar eru á heimasíðu hæstv. dómsmrh. sem hæstv. fjmrh. virðist ekki lesa. Kannski furðar engan sem þekkir sögu þeirra tveggja hæstv. flokksbræðra í gegnum árin og þeirra samkeppni um vegtyllur og stöður.

Málið snýst um þetta: Virtur fréttamaður, varafréttastjóri útvarps, stjórnandi Spegilsins, einn af reyndustu starfsmönnum Ríkisútvarpsins, segir útvarpsstjóra og ráðherra hafa beitt rógi gegn sér og starfsfélögum sínum. Það er það sem við erum að ræða hér, hæstv. forseti, og ég skil vel að formaður Framsfl. og Framsfl. allur skammist sín fyrir hlutdeild sína í þessu máli. Hann á ekki betra skilið en að gera það.

Forseti. Hér á landi starfar hljómsveit sem heitir á enskri tungu Brain Police eða Heilalöggan. Það sem við þurfum að skoða er auðvitað hvort við séum ábyrg, þingheimur og framkvæmdarvaldið, fyrir því að hér leiki og spili önnur Brain Police, önnur Heilalögga þar sem útvarpsstjóri stendur og syngur, útvarpsráð spilar á gítarana en hæstv. dómsmrh. situr aftast og ber bumburnar á heimasíðu sinni.