Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 10:59:13 (2209)

2003-11-27 10:59:13# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, Frsm. 1. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. en undir þetta álit rita ásamt mér hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Fyrsti minni hluti nefndarinnar leggst alfarið á móti samþykkt frv. sem snýst um að hækka skatta á landsmenn um 1.200 millj. kr. Allir vita að það gengur þvert á loforð og yfirlýsingar stjórnarflokkanna í liðinni kosningabaráttu þar sem lofað var skattalækkunum á landsmenn en ekki skattahækkunum.

[11:00]

Þessu frv. er ætlað að hækka annars vegar bensíngjald og hins vegar þungaskatt um samtals 1.000 millj. kr., 600 millj. kr. með hækkuðu bensíngjaldi og 400 millj. kr. með hækkuðum þungaskatti. Síðan leggst virðisaukaskattur ofan á þannig að skattheimtan eykst um tæplega 1.200 millj. kr.

Efh.- og viðskn. fékk fjölmarga gesti á sinn fund og fjölmargar umsagnir um þetta mál. Ljóst er að mjög margir þeirra sem tjáðu sig um málið og sendu umsagnir leggjast mjög hart gegn því. Hjá gestum sem mættu á fund nefndarinnar kom fram að þessi hækkun mundi leiða til um 4 kr. hækkunar á bensínlítra og að hækkun þungaskatts mundi leiða til um 2% hækkunar flutningsgjalda, auk hækkunar á gjaldskrá leigubifreiða og vörubifreiða svo dæmi sé tekið. Hér kom fram að niðurstaðan gæti orðið 20--25 þús. kr. útgjaldaauki að meðaltali fyrir hvern bíleiganda.

Virðulegi forseti. Í blaði FÍB birtist nýlega grein um boðaðar skattahækkanir. Þar kemur m.a. fram að ef þessar hugmyndir um skattahækkanir ná fram að ganga muni skattheimta ríkissjóðs á næsta ári af bílum og rekstrarvörum þeim tengdum ná sögulegum hæðum og komast í alls 32 milljarða kr. Það er rúmlega 100% þyngri skattbyrði en bifreiðaeigendur bjuggu við árið 1991, á fyrsta starfsári fyrsta ráðuneytis Davíðs Oddssonar, segir í blaði FÍB.

ASÍ gagnrýnir þetta frv. mjög og segir að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni hafa beina hækkun á neysluverðsvísitölu upp á 0,12% í för með sér. Auk þess muni þetta leiða til hækkunar á flutningskostnaði og þar með vöruverði, sem er ekki síst alvarlegt fyrir landsbyggðina. Í umfjöllun sinni bendir ASÍ á að hækkun neysluverðsvísitölu muni einnig hafa það í för með sér að skuldir heimilanna muni hækka um tæpan milljarð króna. Það kemur fram í umsögn ASÍ að þeir telja að staða einstakra skuldara muni versna verulega, eins og ég nefndi. Í umsögn ASÍ er tekið dæmi af skuldara sem skuldar 8 millj. kr. í 40 ára húsbréfum. Fyrir hann mun hækkunin leiða til þess að heildarskuldir viðkomandi verða um 100 þús. kr. hærri á lánstímanum en ella hefði orðið.

Eins og ég nefndi, virðulegi forseti, er einnig um mjög íþyngjandi landsbyggðarskatt að ræða. Hækkun þungaskatts er enn ein skattahækkunin sem leggst af meiri þunga á landsbyggðarfólk en aðra. Áætlað er að þessi hækkun muni leiða til allt að 2% hækkunar á flutningsgjöldum sem allir vita að eru allt of há. Ég man ekki betur en að rætt hafi verið um það í síðustu kosningabaráttu, m.a. af ráðherrum í þessari ríkisstjórn, að lækka þyrfti flutningsgjöldin og þar með vöruverð á landsbyggðinni sem þegar er allt of hátt. Þá var ekki rætt um að hækka þau eins og hér er gert. Ég hef ekki orðið vör við, virðulegi forseti, að það bóli á einhverjum aðgerðum hjá þessari ríkisstjórn sem miða að því að lækka flutningsgjöldin og þar með vöruverð á landsbyggðinni. Ég tel að hækkun þungaskatts um 8% sé fremur atlaga núverandi ríkisstjórnar að íbúum landsbyggðarinnar og fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni.

Það kom fram í meðferð efh.- og viðskn. á þessu máli að hækkanir hafa orðið verulegar á undanförnum árum. Þungaskattur af vöruflutningum á lengri leiðum hefur hækkað um 44% frá september 1998 til febrúar 2001 en um 82% ef miðað er við febrúar 1999, eins og gert er í athugasemdum með frv. Ég fullyrði þess vegna, virðulegi forseti, að þungaskattur og eldsneytisgjald eru mjög íþyngjandi landsbyggðarskattar. Það er köld kveðja sem ríkisstjórnin sendir landsbyggðarfólki með afgreiðslu á þessu frv.

Það er ástæða til, virðulegi forseti, að vitna til þess sem kemur fram í umsögn Landvara um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þótt opinberir aðilar virðist ekki telja að þeir hafi aukið tekjur sínar af þungaskatti nema óverulega á síðustu árum hefur lögum og reglum um þungaskatt verið breytt sex sinnum á árunum 1998--2001, þar af hefur verið um hreina skattkerfisbreytingu að ræða í fjögur skipti, þannig að álagningargrunninum sjálfum er umbreytt, sem leitt hefur af sér stigvaxandi skattheimtu á þyngstu ökutækin, tækin sem notuð eru í vöruflutningum á langleiðum.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Vöruflutningar á landi hafa aldrei áður verið þjóðinni eins mikilvægir og þeir eru um þessar mundir. Fólk og fyrirtæki um allt land treysta algerlega á gæði og áreiðanleika í vöruflutningum. Atvinnulífið byggir mikilvægustu þætti í starfsemi sinni á tilvist öflugrar og fjölbreyttrar flutningaþjónustu. Vaxandi arðsemi í atvinnulífi víða um land, bætt búsetuskilyrði og efling byggðanna til framtíðar á sér öðru fremur rætur í því öfluga vöruþjónustukerfi, sem flutningamenn hafa byggt upp á síðustu árum. Mikil röskun á rekstrarumhverfi í atvinnugreininni, eins og átt hefur sér stað á liðnum árum, getur stórskaðað þann ávinning sem hagkerfið hefur notið í þessu sambandi á síðustu árum.``

Í fylgiskjali með nál. eru birtar umsagnir frá mörgum aðilum sem lýsa yfir miklum áhyggjum af hækkun þungaskatts og áhrifum hennar á vöruflutninga til og frá landsbyggðinni. Menn telja að hún leiði til hækkunar vöruverðs og skekki enn frekar samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil nefna, virðulegi forseti, að í umsögn og máli fulltrúa Strætós bs. kom fram að skattlagning ríkisins á Strætó bs. hafi verið um 230 millj. kr. árið 2002. Nemur sú upphæð um þriðjungi fargjaldatekna byggðasamlagsins það ár. Heildarkostnaður Strætós bs. er um 2 milljarðar króna á ári og tekjurnar um 40% af þessari upphæð. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu greiða því um 1.200 millj. kr. með þessari starfsemi, þar af um 230 millj. kr. í ríkissjóð.

Þessi hækkun á þungaskatti mun enn auka skattheimtu ríkissjóðs á almenningssamgöngur og er óhætt að segja, hæstv. forseti, að þetta er andstætt öllum áformum um eflingu almenningssamgangna eins og stundum er rætt um.

Það liggur einnig fyrir að kostnaður við almenningssamgöngur í þéttbýli fer sífellt vaxandi, ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig víða á landsbyggðinni þar sem almenningssamgöngur hafa verið teknar upp í auknum mæli. Hér erum við að ræða um nauðsynlega samfélagslega þjónustu sem ekki er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Við í Samf. höfum haft verulegar áhyggjur af þessari skattlagningu á almenningssamgöngur. Ég minni á að á 126. löggjafarþingi, þegar þessar álögur voru hækkaðar, fluttum við sérstaka brtt. um að afnema þungaskatt af almenningsvögnum. Við teljum það afar mikilvægt, bæði út frá umhverfissjónarmiðum og ekki síður út frá því að aukinn rekstrarkostnaður mun örugglega hafa áhrif á hækkun gjaldskrár almenningsvagna svo að dæmi sé tekið. Áhrifin geta auðvitað líka náð til skólaaksturs á vegum sveitarfélaga.

Herra forseti. Jafnframt er ástæða til að nefna að við fluttum á þessu sama þingi, 126. þingi, auk þess að leggja til að afnema þungaskatt á almenningsvögnum, tillögu um að heimilt yrði að endurgreiða tvo þriðju hluta virðisaukaskatts af kaupum á almenningsvögnum. Rökin fyrir því voru m.a. þau að það gæti hugsanlega dregið úr notkun á einkabílum. Í því sambandi má benda á að umferðarþunginn er orðinn mjög mikill á höfuðborgarsvæðinu. Slíkar leiðir, lækkun á virðisaukaskatti, eins og við lögðum til, vegna kaupa á almenningsvögnum og síðan afnám þungaskatts af þeim, mundu örugglega hafa áhrif í þá átt að lækka fargjöld almenningsvagna.

Við veltum fyrir okkur sams konar brtt. og við fluttum á árinu 1996. Sú staða er nú uppi að ríkisstjórnin hefur fallist á, að því er ég best veit, að leggja niður þungaskattskerfið í núverandi mynd. Auðvitað er spurning hvort nokkuð betra taki við og sumir spá stórhækkun kostnaðar af flutningsstarfsemi með upptöku olíugjalds. Málið er því í ákveðinni biðstöðu sem stendur.

Fyrir þinginu liggur brtt. við 2. umr. frá Álfheiði Ingadóttur sem gengur út á það sama og tillaga okkar þingmanna Samf. frá árinu 1996. Við munum að sjálfsögðu styðja þá brtt.

Virðulegi forseti. Í nál. okkar er minnt á þá erfiðleika sem eru í rekstri hópbifreiða, m.a. skólabíla sem ég nefndi áður og sveitarfélög þurfa mörg hver að reka. Hækkun þungaskatts mun örugglega auka á erfiðleika þeirra aðila og hugsanlega draga úr þjónustu þeirra.

Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Samtökin vilja vekja sérstaka athygli á stöðu hópbifreiða á Íslandi sem hafa búið í mörg ár við stórfelldan taprekstur og mjög takmarkaða endurnýjun. Eigi að vera rekstrargrundvöllur fyrir hópbifreiðar verður að lækka skatta og gjöld af þessari atvinnustarfsemi frekar en að hækka álögur. Það samkeppnisumhverfi sem greinin býr við gerir fyrirtækjunum ókleift að varpa þessum hækkunum út í verðlagið en nú þegar eru hópbifreiðar í mjög mikilli samkeppni við einkabílinn og bílaleigubíla á skemmri leiðum og flug á lengri leiðum.``

Í umsögn Bifreiðastjórafélagsins Frama er þessum hækkunum mótmælt. Þeir segja að boðuð hækkun muni leiða til hækkunar á rekstrarkostnaði leigubifreiða. Þeir benda á að þessi hækkun muni fara út í verðlagið og að lokum lenda á viðskiptavinum leigubifreiðastjóra og hækkun á ökugjaldinu muni draga úr eftirspurn á þjónustu leigubifreiðastjóra og þar með draga úr atvinnu leigubifreiðastjóra og rýra kjör stéttarinnar.

Í umsögn Landssambands vörubifreiðastjóra kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

,,Varðandi þungaskattinn er ljóst að atvinnugreinin getur ekki tekið á sig þessa hækkun, því mun hún leiða til hækkunar á flutningskostnaði.``

Enn og aftur staðfesta þessar umsagnir, virðulegi forseti, að samþykkt frv. muni leiða til hækkunar á flutningskostnaði og þar með íþyngja landsbyggðinni, m.a. með hærra vöruverði.

Síðar segir í sömu umsögn, með leyfi forseta:

,,Okkar viðskiptavinir eru helst íbúar og fyrirtæki í hinum dreifðari byggðum landsins, ríki og sveitarfélög og þeir aðilar sem standa fyrir framkvæmdum eins og t.d. húsbyggingum.``

[11:15]

Einnig er ástæða til, virðulegi forseti, að vitna í umsögn frá Samtökum iðnaðarins en þeir hafa látið breytingar á þessum skatti sig miklu varða eins og fram kemur í umsögn þeirra. Þeir segja að núverandi kílómetragjald þungaskatts sé þegar allt of hátt og þeir leggjast gegn þessari boðuðu 8% hækkun. Þeir segja, virðulegi forseti, að tekjur ríkissjóðs af kílómetragjaldi þungaskatts séu nátengdar umsvifum atvinnulífsins og gjaldið sé nær alfarið greitt af bifreiðum í atvinnurekstri og vöxtur þess í beinu samhengi við vöxt og viðgang atvinnulífsins. Þeir segja í umsögn sinni að þeir leggi til að hætt verði við fyrirhugaða hækkun.

Í umsögn frá Samtökum ferðaþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

,,Eina röksemdin fyrir þeirri hækkun sem lögð er til í frumvarpinu er að gjaldskrá þungaskatts hafi ekki hækkað síðan 1. júlí 1999 og síðan hafi vísitala neysluverðs hækkað um 20,3%. Því sé orðið tímabært að hækka gjaldtökuna.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Það gleymist hins vegar að fjalla um það í frumvarpinu hverjar tekjur ríkissjóðs hafa verið af þessu gjaldi. Tekjur ríkissjóðs af þungaskatti árið 1999 voru 4.050 milljónir kr. en samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2004 er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti verði kr. 5.573 milljónir. Þetta er hækkun upp á tæp 37,6%.``

Þeir benda á að sérstaka athygli veki að ,,tekjur ríkissjóðs af þungaskatti árið 1999 voru 550 milljónum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi þess árs.``

Í umsögn Sambands sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra kemur fram, með leyfi forseta, að það komi stjórn SSNV mjög á óvart að lagt sé fram frumvarp nú til að hækka þungaskatt og vörugjald af ökutækjum og eldsneyti þar sem það er stefna ríkisstjórnarinnar að lækka skatta.

Hér segir, með leyfi forseta:

,,Þungaskattur og eldsneytisgjald eru íþyngjandi landsbyggðarskattar og er nú annað þarfara en að auka þá skattlagningu. Stjórn SSNV hefur áður bent á það sem leið til að beita skattkerfinu til jöfnunar lífskjara að lækka þungaskatt af vöruflutningum.``

Síðan kemur fram að stjórn SSNV leggst gegn frumvarpinu.

Í umsögn Akureyrarbæjar kemur fram að bæjarráðið bendir á að hækkun sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé í mótsögn við yfirlýstar fyrirætlanir stjórnvalda um lækkun flutningskostnaðar.

Ég vil í lokin vekja athygli á því sem fram kemur í bréfi Félags íslenskra bifreiðaeigenda til nefndarinnar, með leyfi forseta, og er ástæða til að nefna það af því að meginröksemdin fyrir þessari hækkun núna er að ekki hafi orðið hækkun í langan tíma á umræddu gjaldi og því sé ástæða til að færa þetta til samræmis við verðlag. Hér kemur fram, með leyfi forseta:

,,Nýleg töluleg samanburðargögn frá fjármálaráðuneytinu (efnahagsskrifstofu) um tekjur ríkissjóðs af bifreiðum og umferð sem væntanlega eru sett fram til upplýsingar taka ekki tillit til veigamikilla tekjuliða ríkissjóðs af bifreiðanotkun. Í tölugögnin vantar tekjur ríkissjóðs vegna skatttekna af hjólbörðum, varahlutum og viðgerðum bifreiða. Tekjur ríkisins vegna þessara liða á árinu 2001 voru 496 millj. kr. vegna hjólbarða og 2.098 millj. kr. vegna varahluta og viðgerða. Ef við tökum þessar tekjur óbreyttar fyrir komandi ár 2004 þá verða áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna bifreiðanotkunar 32.342 millj. kr. en ekki 29.748 millj. kr.`` --- eins og fram kemur hjá fjmrn.

Þetta eru því orðnar gífurlega tekjur sem ríkissjóður hefur af bifreiðaeign. Ég hygg að það megi lengi leita að samanburði í löndunum sem við berum okkur saman við að svona háum fjárhæðum sem ríkisvaldið tekur af bifreiðum og umferðinni í ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir áliti 1. minni hluta efh.- og viðskn. Eins og fram kemur í nál. lýsum við okkur alfarið gegn áformum ríkisstjórnarinnar sem í fyrsta lagi eru í algjörri mótsögn við þá yfirlýsingu sem stjórnarflokkarnir gáfu í kosningabaráttunni um að þeir ætluðu að lækka skatta en ekki hækka þá eins og hér er verið að gera. Í öðru lagi mun þetta íþyngja verulega bifreiðaeigendum og áætlað er að veruleg útgjaldaaukning verði hjá heimilunum vegna heimilisbílsins auk þess sem þetta mun íþyngja rekstri í allri flutningastarfsemi. Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, mun þetta íþyngja landsbyggðinni verulega og leiða til hækkunar á vöruverði.