Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 13:40:03 (2213)

2003-11-27 13:40:03# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Allt lék á reiðiskjálfi í þjóðfélaginu í síðustu viku vegna umræddra samninga sem hefðu að öllum líkindum fært tveimur stjórnendum fjármálafyrirtækis hundruð milljóna kr. í hagnað að nokkrum árum liðnum. Þessi samningur snertir mjög viðkvæman streng í íslenskri þjóðarsál og voru viðbrögðin í samræmi við það. Ég tel að umræðan í kjölfar þessa atburðar muni leiða til góðs fyrir íslenskt þjóðfélag. Markaðurinn á ekki að vera tómarúm án alls samhengis við það samfélag sem skóp hann. Fyrirtæki á markaði bera ekki einungis ábyrgð gagnvart fjárfestum heldur einnig gagnvart samfélaginu.

Langflest viljum við markaðshagkerfi þar sem drífandi einstaklingar fá að njóta verka sinna þó að einstaka hjáróma raddir hugsi með söknuði til daga ríkisafskipta í atvinnulífinu. Virtur hagfræðingur sagði eitt sinn: ,,Markaðskerfið er mikilvægasta tækið sem enn hefur fundist til þess að koma fátæku fólki í bjargálnir.``

Breytingar á íslensku atvinnulífi á síðustu árum hafa leitt til stærri og sterkari fyrirtækja, aukinnar samkeppnishæfni og betri lífskjara almennings en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar. Það kemur hins vegar betur og betur í ljós að markaðurinn þrífst ekki nema með skýrum leikreglum og öflugu eftirliti. Markaðurinn þarf aðhald samfélagsins, ekki bara fjárfestanna.

Á síðustu árum höfum við alþingismenn varið miklum tíma í setningu laga um fjármálamarkaðinn. Þær breytingar hafa leitt til betri fjármálamarkaðar. Að mínu mati þurfum við nú að skoða þann grunn sem starfsemi hlutafélaga byggist á, þ.e. lög um hlutafélög og tengsl þeirra við markaðinn.

Alþjóðleg umræða um stjórnkerfi hlutafélaga snýst fyrst og fremst um hvernig eftirliti með stjórnendum er háttað. Eftirlitskerfið á að koma í veg fyrir að stjórnendur láti stjórnast af eigin hagsmunum við ákvarðanatöku í rekstri félagsins. Umræðan hófst í Bandaríkjunum en hefur á síðustu árum orðið æ umfangsmeiri í Evrópu. Hér á landi hafa t.d. Landssamtök lífeyrissjóða, Kauphöllin og Verslunarráð staðið fyrir umræðu um stjórnkerfi hlutafélaga. Ég tel óhjákvæmilegt að löggjafinn taki þetta mál upp. Í viðskrn. er þessi vinna þegar hafin.

Vík ég þá að spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég mun ekki beita mér fyrir því að kaupréttarsamningar verði bannaðir. Það þjónar hagsmunum heildarinnar að stjórnendur hafi hagsmuni af góðu gengi fyrirtækisins. Kaupréttarsamningar eiga þó að vera þannig úr garði gerðir að þeir auki ekki áhættu í rekstri fyrirtækisins. Við fyrstu sýn finnst mér eðlilegt að kaupréttarsamningar verði bornir undir hluthafafund. Að öðru leyti vil ég ekki tjá mig um hvaða reglur eigi að setja um kaupréttarsamninga, enda væri óþarfi að leggja í mikla vinnu ef ég hefði bestu lausnirnar á takteinum án nokkurrar yfirlegu.

Hv. þm. spyr um afskipti Fjármálaeftirlitsins af kaupréttarsamningum. Ég leitaði til Fjármálaeftirlitsins um svar við þessari fyrirspurn. Fjármálaeftirlitið hefur í einstökum tilvikum gert athugasemdir eða óskað úrbóta er varða samninga við starfsmenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja um kaup- og sölurétt í hlutabréfum viðkomandi fyrirtækis. Fjármálaeftirlitið hefur í þessu efni bent á hættuna á því að samningar af þessu tagi gætu veikt áhættustýringu fyrirtækisins. Dæmi um þetta er að starfsmenn eða stjórnendur hafi af því mikla hagsmuni að gengi fyrirtækisins sé hátt á ákveðnum tímabilum en það getur ýtt undir áhættusækni í starfsemi fyrirtækisins sem reynst gæti óhófleg með tilliti til langtímahagsmuna, hluthafa og viðskiptavina. Athugasemdir og óskir um úrbætur hafa m.a. lotið að því að fyrirtækið setti sér skýra og formlega stefnu um þessi mál þar sem sérstaklega væri fjallað um hvernig komið yrði í veg fyrir að slík þátttaka veikti áhættustýringu fyrirtækisins og eftirlit með því yrði tryggt. Í einstökum tilvikum hefur Fjármálaeftirlitið óskað eftir að samningar yrðu teknir að nýju til umfjöllunar með tilliti til þessa.

Þá spyr hv. þm. hvort gildandi reglur tryggi að hugsanlegir nýir samningar við stjórnendur Kaupþings Búnaðarbanka verði gerðir opinberir. Þessu er hægt að svara játandi. Nýjar reglur Kauphallarinnar um upplýsingaskyldu um launakjör stjórnenda kveða skýrt á um það. Mér finnst að það komi sterklega til álita að setja reglur um stjórnarhætti í fyrirtækjum til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl. Sem dæmi má nefna að vegna hneykslismála í Bandaríkjunum settu Verðbréfaeftirlitið og Kauphöllin reglur um að meiri hluti stjórnarmanna í skráðum fyrirtækjum skuli vera óháður. Þó að ekki sé hægt að taka bandarískar reglur og heimfæra þær beint á íslenskar aðstæður er margt í stjórnkerfi íslenskra hlutafélaga umhugsunarefni. Ég tel enga ástæðu til að ætla að skráðum félögum hafi fækkað vegna mikillar upplýsingaskyldu um starfskjör stjórnenda. Sú þróun hófst mun fyrr og má rekja til þess að of mörg lítil og óburðug félög skráðu sig í Kauphöll á miklum uppgangstíma á verðbréfamarkaðnum.

Hæstv. forseti. Stjórnendur Kaupþings Búnaðarbanka lærðu dýrmæta lexíu í síðustu viku og voru menn að meiri að viðurkenna það. Sú mikla umræða sem varð um starfskjör þeirra verður vonandi umhugsunarefni fyrir stjórnendur annarra fyrirtækja. (SJS: Ráðherrann hefur ekki sagt neitt.)