Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:02:42 (2219)

2003-11-27 14:02:42# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Viðbrögð eða öllu heldur viðbragðaleysi hæstv. viðskrh. í öllum þessum málum vekur mikla furðu. Í utandagskrárumræðum um ofsagróða bankanna í fyrri viku, í svari við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar hér í gærkvöldi og í þessari umræðu í dag sýnir hæstv. viðskrh. engin viðbrögð, hefur bersýnilega ekkert lært, er ónæm á umhverfi sitt og atburði í þjóðfélaginu. Ég held að ótrúlegustu ummælin af öllum hafi fallið í gærkvöldi þegar hæstv. ráðherra var að svara fyrir sölu ríkisbankanna og sagði, með leyfi forseta:

,,Ég hef sagt það hér úr þessum ræðustóli og segi það enn að þetta voru góð viðskipti, þetta var vel heppnað bæði hvað varðar hlutafélagavæðingu bankanna og eins hvað varðar einkavæðingu.``

Þetta kalla ég veruleikafirrt ummæli miklu frekar en það sem topparnir í bankanum gerðu, a.m.k. ekki síður.

Það sem hér hefur verið að gerast, frú forseti, er ekki einangrað fyrirbæri. Það sama grasserar víða í þjóðfélaginu. Nákvæmlega þetta hefur verið fylgifiskur nýfrjálshyggjunnar, markaðs- og einkavæðingarinnar, alls staðar þar sem hún er höfð að leiðarljósi. Ég kalla þetta græðgisvæðingu samfélagsins, að löggilda græðgina sem drifkraft og hvöt sem engar athugasemdir eru gerðar við. Menn uppskera það samfélag sem þeir hafa sáð til. Ríkisstjórnin sjálf hefur plægt jarðveginn. Framsókn, og áður kratarnir, er húðarjálkurinn sem dregur plóginn en íhaldið sjálft sveiflar svipunni og stýrir ferð. Það má segja að hér sannist hið fornkveðna, að byltingin éti börnin sín. Kannski er þó nær að segja að frjálshyggjan éti feður sína og byrji á höfðingjunum, formönnum stjórnarflokkanna. Það má þó hæstv. forsrh. Davíð Oddsson eiga að hann hefur sýnt viss iðrunarmerki og hann hefur hvatt aðra til að hafa Júdasariðrun sálmaskáldsins að leiðarljósi á næstu dögum. Það er meira en sagt verður um hæstv. viðskrh. En hæstv. ráðherrar hefðu alveg eins getað vitnað í Lúkasarguðspjall þar sem segir af innreið frelsarans í Jerúsalem, með leyfi forseta:

,,Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir!`` Og síðar: ,,Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.``