Ofurlaun stjórnenda fyrirtækja

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:15:44 (2223)

2003-11-27 14:15:44# 130. lþ. 36.95 fundur 190#B ofurlaun stjórnenda fyrirtækja# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Mér finnst nú hálfgert að allur vindur sé úr hæstv. viðskrh. Hún lýsir því að vísu yfir að hún vilji setja einhvers konar takmörk á kaupréttarsamninga og hún vilji skoða það að slíka samninga þurfi að bera undir hlutafélagafund. En hún talar alls ekki skýrt um það sem ég hefði viljað heyra, að það eigi að banna að hægt sé að gera slíka kaupréttarsamninga á undirverði eða án tryggingar. Ég fagna að vísu að hæstv. ráðherra tekur undir það sem ég spurði hana um, að það verði settar reglur um stjórnarhætti í fyrirtækjum til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl, m.a. að skylt verði að hluti stjórna fjármálafyrirtækja verði skipaður óvilhöllum aðilum. En ég spurði hæstv. ráðherra og því svaraði hún ekki: Er það ekki brot á 104. gr. hlutafélagalaga að lána stjórnarformanni og forstjóra fyrir hlutafjárkaupunum? Það stendur skýrt í hlutafjárlögunum að hlutafélagi er hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingar.

Ég spyr líka: Mun Fjármálaeftirlitið kanna hvort hér hafi verið um innherjasvik eða markaðsmisnotkun að ræða? Ég spyr ráðherra líka: Gengur það ekki gegn hlutafjárlögunum að gera kaupréttarsamninga til fimm ára við stjórnarformann sem kosinn er á hluthafafundi til aðeins eins árs í senn? Loks spyr ég ráðherra: Hvenær má vænta þess að breytingar á lögum og reglum liggi fyrir? Þær þurfa að liggja það fljótt fyrir að ekki sé hægt að gera nýja samninga við stjórnendur Kaupþings sem ekki taki mið af nýjum lögum og reglum, virðulegi forseti. Þess vegna spyr ég í lokin um það.

Við þingmenn Samfylkingarinnar erum tilbúnir til þess að sitja hér fram á aðfangadag til þess að hægt sé að setja slík lög og reglur þannig að nýir samningar sem gerðir yrðu við þessa stjórnendur tækju mið af nýjum lögum og reglum sem væru þá lög og reglur í samræmi við veruleikann í íslensku samfélagi. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ekki aðfangadag.)