Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:51:44 (2230)

2003-11-27 14:51:44# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað með athygli á ræðurnar sem hafa verið fluttar núna í morgun og eftir hádegið. Margt hefur vakið athygli mína er dreifbýlisþingmenn hafa talað og kallað eftir stuðningi annarra þingmanna úr hinni dreifðu byggð en látið sem þingmenn Reykjavíkur væru nánast ekki til nema stundum þó kallað til þeirra ef á þeim þarf að halda vegna sérstakra málaflokka ef sótt er um fjármagn eða annað til kjördæma utan Reykjavíkur. Mér þykir miður að slíkur málflutningur skuli vera viðhafður á Alþingi.

En út af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þá veit ég að fulltrúar fyrirtækis á Austurlandi hafa sagt í viðtölum við okkur nokkra þingmenn að um 5% af framleiðslukostnaði leggist á vörur vegna flutninga á höfuðborgarsvæðið. Hv. þm. kom inn á það líka að hann biði mjög eftir því að Byggðastofnun kæmi með tillögur til lækkunar á flutningskostnaði til og frá landsbyggðinni.

Ég vek enn einu sinni athygli á skýrslu nefndar um flutningskostnað sem samgrn. vann að og var skilað í janúar 2003. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

,,Almennt er álitið að nota beri strandflutningana þegar því verður við komið en framleiðandinn`` --- sem var á Vestfjörðum --- ,,nefnir um leið að strandflutningaskipin séu vondur kostur.`` --- Hann segir svo: ,,Tíðni og ferðatími skipti þar miklu máli. Fyrir 40 feta gám er þó bíllinn 70% dýrari.``

Hvernig má vera að þingmenn hinna dreifðu byggðar hafi ekki gefið þessari skýrslu nokkurn gaum? Hvernig má vera að flytjendur til og frá landsbyggðarinnar líti ekki á það að 70% dýrara er að flytja 40 feta gám landveg heldur en sjóleiðina? Hvar eru menn staddir í þessu máli?