Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:56:26 (2232)

2003-11-27 14:56:26# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom réttilega inn á það að við erum jú þingmenn alls landsins enda viðurkenni ég það. Ég átti nú ekki við ræðu hans heldur annarra þingmanna sem töluðu í morgun svo skýrt og skorinort um að það væru sérhagsmunir þeirra að gæta dreifðu byggðarinnar en líta ekki til Reykjavíkur. Það er miður.

Í þessari skýrslu frá samgn. um flutningskostnað kemur þetta skýrt fram. Skipafélög hafa líka sagt að ef ákveðinn fjöldi gáma væri í tilteknum höfnum, sem ekki eru útflutningshafnir í dag, þá væri skipafélagið tilbúið til að koma þangað og sækja gámana. Þeir yrðu að vera tveir eða þrír eða þar um bil í hverri höfn til þess að þetta skipafélag kæmi og sækti þessa 40 feta gáma. Það mundi spara stórfé.

Við vitum að frystigámarnir með fisknum eru fluttir út frá Reykjavík einu sinni í viku. Það tekur strandferðaskip viku að fara hringinn í kringum landið til að safna þessum gámum saman þannig að það er ekki fyrirstaðan.

Getur verið, hv. þm. Jón Bjarnason, að fyrirstaðan sé sú að samstarfið milli sveitarfélaganna úti á landi sé með þeim hætti að eitt sveitarfélagið þoli ekki að sjávarafurðum sé ekið til hafnar næsta sveitarfélags vegna þess að þá hafi þeir skipagjöld og hafnargjöld? Getur verið að þar liggi fiskurinn undir steini, þ.e. að ósamstaða og samstarfsleysi milli sveitarfélaganna úti á landi sé þess valdandi að sjóflutningarnir eru nánast að leggjast af?