Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 14:58:15 (2233)

2003-11-27 14:58:15# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[14:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom að varðandi skýrslu samgrh. og ákvörðun ríkisstjórnarinnar í fyrravor um að fela Byggðastofnun að gera tillögur um hvernig skyldi koma til móts við lækkun flutningskostnaðar. Ég er ekki hlynntur einhverjum sértækum aðgerðum sem varanlegum lausnum. Sértækar aðgerðir geta aðeins komið inn í afmörkuð tilvik sem tengjast einhverri afmarkaðri stöðu. En til lengri tíma litið eiga aðgerðirnar að vera algildar og hafa varanlega stöðu. Þess vegna hefði ég viljað sjá ríkisstjórnina leggja áherslu á slíkar aðgerðir. En úr því að ríkisstjórnin lofaði aðgerðum af einhverjum toga og fól Byggðastofnun að leggja þær til þá vil ég fara að sjá þær tillögur. Það er ekki nóg að tala bara eins og ríkisstjórnin gerir nú gjarnan í bestu málum en gerir síðan ekkert. (GHall: En samstarf sveitarfélaganna?)

Ég tek undir með hv. þm. um mikilvægi þess að kanna möguleika og samkeppnisstöðu strandflutninga. Hvorki samtakaleysi sveitarfélaga né röng stefna ríkisstjórnarinnar má þar vera hindrun. Svo er talað um að beita Flutningsjöfnunarsjóði með röngum hætti. Flutningsjöfnunarsjóður átti að jafna verð á flutningi meðfram ströndum landsins. En nú er talað um að beita honum til þess að flutningsjafna sjóflutningum sem aldrei fara fram því þeir eru komnir upp á land. Svona kerfi er komið í rugl eins og við þekkjum. Því er mjög mikilvægt að endurskoða þennan flutningsmáta og aðkomu ríkisins líka að því að stuðla að sem hagkvæmustum flutningsmáta, þannig að þetta virki, þar á meðal strandsiglingar.