Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:00:44 (2234)

2003-11-27 15:00:44# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun á bensíngjaldi og þungaskatti. Það er auðvitað alveg ljóst, virðulegi forseti, að við erum hér að leggja auknar álögur á almenning í landinu. Það fer ekkert á milli mála að ríkisstjórnin er hér að stefna að því að útfæra stefnu sína sem birtist nú reyndar í allt öðru formi en hún var kynnt í kosningabaráttunni. Þar var talað fyrir skattalækkunum en eina skattalækkunartillagan sem ég hef séð flutta í Alþingi af hæstv. ríkisstjórn er lækkun á sérstökum tekjuskatti úr 5% niður í 4 %, þ.e. skattur sem leggst á einstaklingstekjur sem eru yfir u.þ.b. 350.000 kr. á mánuði.

Aðrar tillögur sem við höfum verið að ræða hér í tengslum við fjárlagagerð stefna til hækkunar. Það er alveg ljóst að með þessari tillögu er verið að auka álögur á hvern bifreiðaeiganda í landinu um á bilinu 20--25 þús. kr. Þetta eru því bara beinar álögur sem koma við það að ákveða að hækka m.a. bensínlítrann. Þetta mun koma út í beinni hækkun á bensínlítranum um 4 kr. Það liggur því fyrir að hér er verið að taka inn tekjur fyrir ríkissjóð í gegnum bensíngjald og með hækkun á flutningsgjöldum, því hækkun á þungaskattinum um 8% mun að sjálfsögðu leiða til einhverrar hækkunar á flutningum og vöruverði og talið að það geti numið um 2%. Þar að auki bendir ASÍ á það í umsögn sinni um þetta mál að þetta muni verða til þess, eins og segir hér, með leyfi forseta, í nál. 1. minni hluta:

,,Að mati ASÍ hefur frumvarpið í för með sér beina hækkun neysluverðsvísitölu upp á 0,12%.``

Við erum því líka að hækka álögur á landsmenn, vegna þess að þetta vegur inn í vísitöluna.

Samanlagt, virðulegi forseti, er hér sennilega um skattahækkanir að á bilinu 1.000--1.100 millj. þegar allt er talið. Þær birtast í þessum tillögum sem álögur upp á 600 millj. í bensíngjaldinu annars vegar og 400 millj. verða teknar inn með hækkun á hækkuðum þungaskatti.

Virðulegur forseti. Bensíngjaldið dreifist jafnt á fólk hvar sem það býr í landinu og að því leyti til er álagið jafnt. Hins vegar kemur það því miður ekki þannig út hvað varðar þungaskattinn. Allar líkur benda til þess að þungaskatturinn leggist af meiri þunga á fólk á landsbyggðinni en fólk á höfuðborgarsvæðinu eða þeim byggðum sem eru næstar Reykjavíkursvæðinu. Þetta liggur í hlutarins eðli vegna vegalengda og því að útfærslan er eins og hún er.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. fjmrh. sem hér er staddur í salnum hvort þær aðgerðir sem rætt hefur verið um í sambandi við þungaskattsútfærsluna, þ.e. að taka upp einhvers konar endurgreiðslu varðandi flutninga, hvar þær tillögur séu staddar. Það var vitnað hér áðan í skýrslu af hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sem unnin var í þessu sambandi. Menn hafa rætt að við breytingu á þungaskattinum og við breytingu sem yrði samfara því að færa þungaskattinn inn í olíuverðið, þyrfti að skoða hvaða áhrif það hefði. Þar hafa menn einmitt nefnt að það þyrfti að huga að því að taka upp einhvers konar endurgreiðslu til þess að jafna álögur á flutninga.

Ég vil í þessari umræðu, þó það mál sé ekki beint til umræðu nú, spyrja hvar þær áætlanir eru staddar, ef hæstv. fjmrh. gæti vikið að því nokkrum orðum eftir að ég hef lokið máli mínu.

Um hitt vil ég segja, virðulegi forseti, að sú skattahækkunarstefna sem birtist í þessu frv. er auðvitað ekki í neinum tengslum við það sem kynnt var í kosningabaráttunni af ríkisstjórnarflokkunum um það að taka til við að lækka skatta en ekki hækka þá eins og hér er verið að leggja til. Þess vegna tel ég að hér sé eiginlega verið að fara algjörlega á svig við það sem fólk taldi að yrði á framkvæmdarstefnu ríkisstjórnarinnar þegar kæmi að skattalagabreytingum og álögum á almenning og ekki verið að fara eftir þeim loforðum eins og þau voru sett fram af ríkisstjórnarflokkunum í kosningabaráttunni.

Mér finnst hins vegar dálítið merkilegt, virðulegur forseti, að lesa nál. meiri hlutans, en undir það skrifa hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson, Birgir Ármannsson og Dagný Jónsdóttir. Í nál. segir efnislega um þetta mál, eftirfarandi.:

,,Nefndin hefur fjallað um málið.`` Síðan kemur fram að hún hafi fengið fólk á fund sinn og allir taldir upp samviskusamlega. Síðan segir: ,,Þá bárust nefndinni umsagnir.`` Og svo er það talið upp samviskusamlega. Svo kemur niðurstaða þessa skattahækkunarmáls og umsögn nefndarinnar er í raun og veru svona, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á þungaskatti og vörugjaldi af eldsneyti. Þessar breytingar eru í samræmi við tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2004. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.``

Þetta er öll umsögn hv. nefndar.

Það er ekki verið að eyða of mörgum orðum í að gera fólkinu í landinu grein fyrir því hvað hér er verið að gera í umsögn hv. meiri hluta. Það er kannski markmið út af fyrir sig að vera ekki að eyða orðum á blað sem skipta sáralitlu máli, eða hvað? Og vera ekkert að hafa um það langa texta. Það kann vel að vera að svona skuli umsagnir um skattahækkunarmál ríkisstjórnarinnar vera í framtíðinni. Það er þá ekki langur lestur og ekki lengi verið að kynna sér það sem þar stendur.

Hins vegar hefur það verið rækilega dregið fram í nefndarálitum 1. og 2. minni hluta um hvað þetta mál fjallar og vitnað til umsagna fjölda margra aðila. Það hefur verið farið yfir það hér af hv. þm. Kristjáni Möller, hv. þm. Jóni Bjarnasyni og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Ég ætla því ekki að rekja það mikið lengra.

Ég ætla hins vegar að lýsa því yfir, virðulegi forseti, eins og ég gerði reyndar við 1. umr. þessa máls, að við í Frjálsl. erum andvíg því hvernig til þessa máls er stofnað og leggjumst gegn því að þessar hækkanir gangi fram. En það er auðvitað alveg ljóst að þó að ekki séu mörg orð í nál. meiri hluta efh.- og viðskn., mun þetta mál ganga fram að vilja ríkisstjórnarinnar.

Ég vil hins vegar minna á það, virðulegur forseti, að þingmenn Frjálsl. hafa flutt hér í Alþingi tillögu um að það megi taka tillit til ferðakostnaðar fólks til og frá vinnu sinni, fólk megi draga þann kostnað frá tekjum sínum áður en skattlagt er. Það er auðvitað í samræmi við það að við teljum að það eigi að skoða þann kostnað sem myndast hjá fólki við að sækja vinnu þegar hann er umfram einhverjar eðlilegar viðmiðanir. Þessi viðmiðun sem við settum í þá tillögu var 10.000 kr. á mánuði, eða 120.000 kr. á ári, umframkostnað væri leyfilegt að draga frá. Ég veit ekki hvar það mál er statt, en það gæti verið til hagsbóta fyrir launþega hvar sem þeir búa á landinu. Útfærslan er þannig að hún mismunar ekki fólki eftir því hvar það býr heldur tekur tillit til þess hve langt fólk þarf að sækja vinnu sína.

En það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að hér er ríkisstjórnin að ná í 1 milljarð rúman af þeim 2 milljörðum sem hún ætlar að taka í auknar álögur samfara fjárlagafrv. Við í Frjálsl. lýsum okkur andvíga þessu máli.