Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:12:16 (2235)

2003-11-27 15:12:16# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði mig um tvennt: Í fyrsta lagi hvar frumvarp um olíugjald svokallað væri á vegi statt og í öðru lagi hvað liði hugmyndum um að styrkja vöruflutninga innan lands.

Olíugjaldsfrumvarpið er mál sem ríkisstjórnin hefur hugsað sér að koma með hér inn í þingið og ég mun þá flytja. Það kemur fram á yfirliti yfir þau þingmál sem ríkisstjórnin hyggst flytja. Málið er hins vegar ekki alveg tilbúið. Það er til umfjöllunar í stjórnarflokkunum og enn þá er nokkrum spurningum ósvarað sem ég vil gjarnan hafa skýr svör við áður en frumvarpið kemur til umfjöllunar í þinginu. Þess vegna er þetta ekki alveg tilbúið.

Það er ljóst að núverandi kerfi er óviðunandi til frambúðar, þannig að ef ekki verður tekið upp olíugjald í hátt við það sem gert er í því frv. sem er núna til meðferðar og hefur áður verið lagt fyrir þingið, þarf að gera aðrar róttækar breytingar á núverandi kerfi.

Hvað varðar spurninguna um styrki, flutningastyrki, þá er ekkert nýtt af því máli að frétta frá því að iðnrh., byggðamálaráðherra, greindi frá því hér að þær hugmyndir væru uppi á borði. Þær komu fram m.a. í skýrslunni um þróun flutningskostnaðar sem hefur borið á góma í þessum umræðum, en það liggur engin ákvörðun fyrir um þetta mál sem hefur verið að undanförnu til umfjöllunar á vettvangi Byggðastofnunar.