Fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:14:50 (2237)

2003-11-27 15:14:50# 130. lþ. 36.1 fundur 90. mál: #A fjáröflun til vegagerðar, vörugjald af ökutækjum o.fl.# (hækkun þungaskatts og vörugjalds) frv. 119/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur ekki fyrir. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um eitthvert styrkjafyrirkomulag sem nefnt hefur verið í tengslum við vöruflutninga innan lands. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það, en það liggja fyrir ákveðnar hugmyndir.

Hins vegar held ég nú að menn hafi tekið allt of djúpt í árinni varðandi áhrif hugsanlegs olíugjalds á flutningskostnað innan lands. En það er einmitt eitt af því sem ég vil gjarnan hafa alveg skýr svör við áður en málið kemur til frekari meðferðar hér, vegna þess að þetta er eitt af þessum málum sem við verðum virkilega að vanda okkur við. Við verðum þá að byggja hér upp tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð sem ætlunin er að geti staðist í mörg ár. Þess vegna er mikilvægt að fara ekki af stað með hluti sem ganga síðan ekki upp.

Ég minni á að fyrir nokkrum árum var lögfest á Alþingi tiltekið afbrigði af olíugjaldi, en þau lög voru síðan felld úr gildi án þess að koma nokkurn tímann til framkvæmda. Þau gerðu ráð fyrir sérstökum endurgreiðslum til atvinnurekstrar af gjaldi á olíu, en sú aðferð gekk ekki upp og við viljum helst ekki lenda í því máli með svipuðum hætti næst þegar komið verður með þetta málefni hingað í þingið.