Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:19:50 (2239)

2003-11-27 15:19:50# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, GHall
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta mál kemur hér til umræðu. Ekki er langt síðan, eða nánar tiltekið á 123. löggjafarþingi 1998--1999, að ég lagði fram ásamt fleiri þingmönnum frv. til breytinga á lögum um Happdrætti DAS og SÍBS sem gekk út á það að einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands yrði afnumið og staða þessara happdrætta yrði jöfnuð.

Áður en ég kem að þessu máli, herra forseti, vildi ég aðeins víkja að þeim umræðum sem fram hafa farið um Happdrætti Háskólans og einkaleyfi þess hér á árum áður. Oft hefur verið fjallað um þetta á þingi og í háskólanum sjálfum. Þá hafa háskólaprófessorar tjáð sig um þetta mál og vil ég vitna til greinar í Morgunblaðinu 25. nóvember 1993. Guðmundur Magnússon, þáverandi prófessor, segir svo í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Ég tel að einkaleyfisgjaldið hafi verið sárabót fyrir ríkissjóð að afsala sér happdrættinu. Það hefur einnig verið til bóta fyrir háskólann að ríkissjóður hefur veitt fjárhæð samsvarandi gjaldinu til uppbyggingar Rannsóknarstofnunum atvinnuveganna ...``

Vísindasjóður hefur því fengið það fjármagn til þess að vinna að verkefnum beint og óbeint tengdum háskólanum sem hafa auðvitað með einum eða öðrum hætti verið til að efla þá starfsemi. Einkaleyfisgjaldið hefur því ekki runnið í ríkissjóð heldur til áframhaldandi starfa, í vísindasjóð, í því skyni að efla, eins og vísindi efla alla dáð, vísindastarfsemi háskólans.

Síðan heldur Guðmundur Magnússon áfram í grein sinni, með leyfi forseta:

,,Við þær á háskólinn gott samstarf`` --- þ.e. vísindastofnanirnar --- ,,og þær efla rannsóknir í landinu. Með tilkomu Lottós 1986, greiðslu getraunavinninga í peningum og söfnunarkassa Rauða kross Íslands og samstarfsaðila hans er einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands orðið markleysa.``

Það er orðið markleysa. Þetta hefur háskólaprófessor að segja um einkaleyfi Happdrættis Háskólans 1993. Háskólinn greiðir fullt gjald fyrir einkaleyfi sem er orðið lítils virði.

Auðvitað ættu annaðhvort allir aðilar á markaðnum eins og nú er komið málum að greiða gjald í ríkissjóð eða enginn, allir eða enginn. Það er kjarni málsins.

Eins og fram kemur í minnkandi tekjum Happdrættis Háskóla Íslands býr það nú við mikla samkeppni. Við henni verður að bregðast eins og hvert annað fyrirtæki í samkeppni þarf að gera. Þess vegna þarf að brydda upp á nýjungum.

Herra forseti. Ég vék í upphafi máls míns að þeim frumvörpum sem ég flutti um Happdrætti Háskólans, Happdrætti SÍBS og Happdrætti DAS á 123. löggjafarþingi. Þá fór þetta mál til umfjöllunar í nefnd á þinginu. Það er merkilegt að bera saman nefndarálit allshn. nú og þá. Í nefndaráliti allshn. á 123. löggjafarþingi segir svo m.a., með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur skilning á vanda umræddra happdrætta og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í frumvörpunum, en þar sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur nú einkarétt á peningahappdrætti samkvæmt lögum nr. 13/1973, með síðari breytingum, telur nefndin ekki unnt að leggja til að þau verði samþykkt. Nefndin telur eðlilegt að happdrættismarkaðurinn í heild verði tekinn til skoðunar`` --- ég vek sérstaka athygli á þessu --- ,,og að sett verði ein heildarlög um happdrætti og leggur til að málunum verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Í framhaldi af þessu leitaði stjórn Happdrættis DAS til Samkeppnisstofnunar og þar kom fram athyglisverð niðurstaða. Ætla ég nú að lesa hana, með leyfi forseta. Niðurstaðan er frá 9. maí árið 2000:

,,Aðgangur að happdrættismarkaðnum er ekki frjáls. Vilji löggjafarvaldsins á hverjum tíma ræður því hverjir fá að reka happdrætti og hvernig tekjum er skipt í vinninga, leyfisgjöld og ágóða. Leyfi er veitt fyrir rekstri happdrættanna með tilliti til þeirra markmiða löggjafarvaldsins að afla fjár til almannaheilla án opinbers rekstrar. Happdrættin, sem starfa samkvæmt núgildandi sérlögum, ættu að mati samkeppnisráðs að njóta jafnræðis hvað varðar skilmála fyrir rekstrinum þannig að virk samkeppni geti þróast á milli þeirra. Vinningshafar vöruhappdrættanna þurfa að hafa fyrirhöfn og væntanlega kostnað af því að koma vinningum sínum í peninga. Það er því óhagkvæmt fyrir neytendur og getur gert vinninga verðminni í hendi vinningshafa heldur en efni standa til. Einkaleyfi HHÍ til þess að greiða vinninga út í peningum gefur happdrættinu samkeppnislegt forskot gagnvart vöruhappdrættunum og torveldar frjálsa samkeppni á markaðnum. Einkaleyfið fer því gegn markmiðum samkeppnislaga.``

Einkaleyfið fer gegn samkeppnislögum. Það fer gegn markmiðum samkeppnislaga. Svo mörg voru þau orð.

Hins vegar er athyglisvert, herra forseti, að lesa merka ræðu frá 17. júní 2001. Þá flutti hæstv. þáv. menntmrh. ræðu í Alþingishúsinu í tilefni 90 ára afmælis Happdrættis Háskóla Íslands. Þar segir menntmrh. svo, með leyfi forseta. Ég vitna til hluta ræðunnar:

,,Í tæp 30 ár var skólinn til húsa hér í Alþingishúsinu, líkaði vistin illa og þótti ríkja mikið skilningsleysi meðal alþingismanna á því að veita fé til háskólabyggingar. Sú rimma var leyst með því að heimila skólanum að reka happdrætti til að standa straum af byggingarkostnaði og flutti hann í eigið húsnæði árið 1940. Happdrættið er skólanum enn mikil lyftistöng og þörfinni fyrir nýtt húsnæði verður seint fullnægt. Ætti ríkisvaldið að koma til móts við óskir skólans í byggingarmálum með því að dreifa einkaleyfisgjaldi vegna happdrættisins á alla, sem stunda sambærilega starfsemi, og greiða auk þess hæfilegan viðhaldskostnað af byggingum skólans. Með þeim hætti tryggði Alþingi og ríkisstjórn best á 90 ára afmælinu og til langframa að húsnæðismál Háskóla Íslands væru í samræmi við eðlilegan vöxt hans og kröfur.``

Þetta sagði hæstv. menntmrh. í tilefni 90 ára afmælis Háskóla Íslands 17. júní 2001.

Getur verið að þáverandi háskólaprófessor og háskólaráð hafi ekki komið þeim boðskap til hæstv. menntmrh. sem samkeppnisráð hafði skilað áliti sínu um, þ.e. um samkeppnislögin, og með vísan til þess sem ég sagði hér áðan, þ.e. að einkaleyfið færi gegn markmiðum samkeppnislaganna. Það lá fyrir 9. maí árið 2000. Hér flytur hæstv. menntmrh. ræðu í júní 2001 og allt háskólaliðið þegir þunnu hljóði. Það vissi þó af þessum úrskurði samkeppnisráðs og gat auðvitað hjálpað hæstv. ráðherra að ganga til verks í þessu máli.

Það er dálítið merkilegt líka að þáverandi forstjóri eða forstöðumaður Samkeppnisstofnunar er núverandi forstjóri Happdrættis Háskóla Íslands. Eru kannski einhver tengsl þarna á milli? Getur það verið? Getur verið að þau vinnubrögð sem hér eru nú enn ástunduð orsakist ekki af neinu öðru en tímaskorti, því að menn hafi ekki gefið sér tíma til þess að skoða þessi mál? Hvernig má það vera í skjóli einokunar Happdrættis Háskóla Íslands á peningahappdrætti að undir þeirri reglu skuli stofnuð öll þau happdrætti sem borga út í peningum, t.d. Lottó og erlend happdrætti, Víkingalottó sem borgar út í peningum? Þetta gerist þegar Happdrætti Háskóla Íslands hefur einkaleyfi á því að borga út peninga. Nei, ágætu nefndarmenn allshn., ég er ansi hræddur um að menn hafi nú eitthvað misstigið sig í þessu nefndaráliti. Ef nefndarálitin eru borin saman frá hæstv. allshn. nú og allshn. sem fjallaði um málið á 123. löggjafarþingi vegna óska um breytingu á lögum um Happdrætti DAS og háskólans þá kemur í ljós að þau eru svo keimlík að við liggur að ákveðin hugsun kvikni: Hvar var til textans leitað í þessu nefndaráliti?

[15:30]

Mér þykir mjög dapurt að þetta nál. skuli koma frá allshn. í ljósi þess sem við lifum við í dag og flokkurinn minn hefði verið í forustu fyrir, þ.e. frjálsræði í verslun og viðskiptum. Þá kemur þetta dæmalausa nál. um að nú skuli enn veita einkarétt til Happdrættis Háskóla Íslands næstu 15 árin. Það var þó ein undantekning, virðulegi forseti, í frv. hæstv. dómsmrh., fyrrverandi menntmrh. Textinn var eitthvað í þá veru að það gæti verið að breyta þyrfti þessum lögum vegna athugasemda frá Brussel, það gæti verið og þá skyldi að því hugað.

Ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi farið eftir því þegar samkeppnisráð hefur gefið út álit sitt. Það hefur verið venjan fram að þessu. Hér liggur fyrir álit samkeppnisráðs en þykir ekki vert að skoða þá niðurstöðu öðruvísi en með þessum orðum frá allshn.:

,,Nefndin telur að leysa verði úr því sem fyrst hvort þær athugasemdir sem gerðar voru við einkarétt Háskóla Íslands á rekstri peningahappdrættis eru réttmætar og eiga við rök að styðjast.``

Nefndin vill athuga hvort niðurstaða samkeppnisráðs sé réttmæt. Það vill þannig til að ekki eru allir löglærðir sem á Alþingi sitja. Þess vegna hafa lögmenn úti í bæ nóg að gera. En ég hélt að lögmenn sem kæmu að þessu máli í nefndarstarfi allshn. litu til þess sem samkeppnisráð hefur sagt, að þetta stangist á við markmið samkeppnislaga.

Það er eðlilegt að þetta komi til umræðu og verði ekki látið ganga áfram um orðalaust. Ég hlýt að spyrja: Hvernig má það vera að þetta orðalag er notað í nál.? Það er nánast sagt að niðurstaða samkeppnisráðs sé markleysa þrátt fyrir að samkeppnisráð segi að einkaleyfi fari gegn markmiðum samkeppnislaga.

Það var athyglisvert að lesa samþykktir frá stúdentaráði og frá háskólanum þar sem einkaleyfisgjaldinu var mótmælt. Ég þykist tala fyrir munn allra þeirra sem reka happdrætti þegar ég segi að menn eru tilbúnir til að taka á sig að greiða þá upphæð sem í einkaleyfi háskólans felst, hlutfallslega þá miðað við veltu.

Ég spyr aftur: Finnst ykkur eðlilegt, hv. nefndarmenn allshn., að í skjóli einkaleyfislaga um Happdrætti Háskóla Íslands skuli blossa upp happdrætti á íslenskum markaði sem borga út í peningum á sama tíma og Happdrætti DAS og SÍBS er gert skylt að greiða vinninga í búpeningi, dráttarvélum, bátum eða flugvélum? Er þetta það sem íslenskt réttarfar telur eðlilegt og rétt, að gera erlendum aðilum eins og Víkingalottói hærra undir höfði en þeim sem vinna að velferðarmálum á Íslandi og hafa veitt til slíkra mála, eins og Happdrætti DAS, 2 milljarða kr. til byggingar heimila fyrir aldraða, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, lagt 400 millj. kr. í sjóði úti á landi til að byggja heimili fyrir aldraða? Nei, ég held að menn séu bara ekki í núinu, eins og sagt er á nútímamáli.

Það er ekki eðlilegt að mismuna þessum tveimur happdrættum, að ógleymdu Happdrætti SÍBS sem hefur unnið sérstakt og einstakt starf á Reykjalundi. Þar hafa menn verið endurþjálfaðir til þess að fara út í atvinnulífið á ný eftir slys og fengið til þess stuðning SÍBS og fjármögnun þess hefur verið með happdrættinu.

Herra forseti. Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. Það þarf ekki í sjálfu sér. Málið er svo augljóst með afstöðu samkeppnisráðs til þeirrar ósanngirni og þess óréttlætis sem viðgengist hefur í áraraðir. Með einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands hefur tveimur happdrættum verið gert skylt að borga út í vörum á sama tíma og erlendum happdrættum, Víkingalottói, Lottói og spilakössum er leyft að borga út í beinhörðum peningum. Það er eitthvað að löggjöfinni hér, herra forseti.