Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 15:47:52 (2245)

2003-11-27 15:47:52# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mikilvægt sé að við reynum að skilja milli happdrættis og talnagetrauna í þessari umræðu til þess að flækja hana ekki. Það vill svo til að til eru annars vegar lög um happdrætti og hins vegar um talnagetraunir, og Víkingalottó og Lottó og aðrir slíkir leikir falla ekki undir þau lög sem hér eru til umræðu. Við erum einungis að fjalla um Happdrætti Háskóla Íslands og við skulum gera það.

Ég get hins vegar alveg tekið undir ýmislegt af því sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson kom hér að í sinni ræðu varðandi einkaleyfið. Ég er enginn sérstakur talsmaður þess að Happdrætti Háskóla Íslands hafi einkaleyfi til frambúðar eða að það greiði endilega einkaleyfisgjald. En ég tel hins vegar að nauðsynlegt sé að taka þessi mál öll til heildarendurskoðunar eins og við leggjum til og höfum upplýsingar úr dómsmrn. um að verið sé að gera. Og við treystum því að sú vinna gangi hratt og vel fyrir sig, vegna þess að við viljum náttúrlega ekki kasta fyrir róða þeim hagsmunum sem hér eru í húfi þegar vegast á annars vegar hagsmunir vöruhappdrættanna, og ég skil þá mjög vel, og hins vegar mikilsverðir hagsmunir Háskóla Íslands.

Ég held að með því að fara þá leið sem við leggjum til í nál. okkar, að hraðað verði heildarendurskoðun happdrættislöggjafarinnar sem mest má verða --- það er kveðið fast að orði --- þá séum við annars vegar að gæta þeirra hagsmuna sem Háskóli Íslands hefur af þessu happdrætti og hins vegar að koma til móts við sjónarmið vöruhappdrættanna sem hv. þm. talar hér fyrir.