Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:03:34 (2250)

2003-11-27 16:03:34# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi tímalengdina. Það sem verið er að leggja til hér er hefðbundin framlenging á einkaleyfinu. Það hefur gjarnan verið framlengt til 10 eða 15 ára eins og kemur fram í greinargerð með frv. Það má því segja að tímalengdin að þessu sinni sé eins konar formsatriði umfram annað.

Að öðru leyti finnst mér á ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að hann hafi einfaldlega ekki verið að hlusta í umræðunni áðan. Menn mega ekki blanda saman happdrættisstarfsemi og talnagetraunum. Ég hef áhyggjur af því ef ég þarf að koma hér upp fjórum eða fimm sinnum til þess að undirstrika það að nefndin er að senda mjög skýr skilaboð til ráðuneytisins um að lögin verði tekin til endurskoðunar og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að gera. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að slík þróun hafi orðið á ytri aðstæðum happdrættismálanna að þetta einkaleyfi sé orðið tímaskekkja. Það er einungis á grundvelli þess að við höfum upplýsingar um það frá ráðuneytinu að lögin eru til endurskoðunar sem nefndin að þessu sinni segir að leyfið verði að framlengja, m.a. vegna tilmæla Háskóla Íslands. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp úr því svari sem barst við umsagnarbeiðni nefndarinnar, þar sem segir:

,,Af hálfu háskólans er þess mjög eindregið farið á leit að veita megi happdrættinu áframhaldandi einkaleyfi, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.``

Þetta er mjög einfalt. Það þýðir því ekkert fyrir hv. þm. að koma hér upp og segja að þetta sé í andstöðu við hagsmuni háskólans.