Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:06:54 (2252)

2003-11-27 16:06:54# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, Frsm. BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé nú ofmælt að við séum að gera Háskóla Íslands einhvern grikk með því að gefa í skyn að þeir hafi einkaleyfi í 15 ár og þeir fari að treysta á það 15 ár fram í tímann. Ég held að Háskóli Íslands, ef þeir hafa áhuga á því að kynna sér þetta mál, geri sér fyllilega grein fyrir því hver staðan í þessum efnum er og að lögin séu að fara í heildarendurskoðun. Það verður því að sjálfsögðu lykilatriði í þeirri endurskoðun að taka til skoðunar með hvaða hætti sú breyting sem þar kæmi til álita hefur áhrif á getu Háskóla Íslands til þess að reisa nýbyggingar og ráðast í þau tækjakaup sem nauðsynleg eru og hafa verið grundvölluð á afkomu Happdrætti Háskóla Íslands hingað til.

Að öðru leyti vil ég taka fram þar sem það hefur ítrekað komið fram í umræðunni að fjölmörg happdrætti hafi leyfi til þess að greiða út vinninga sína í peningum. Það er rangt enn og aftur. Það eru engin happdrætti að greiða út vinninga með peningum eins og málum er háttað í dag. Það er annars konar starfsemi. Hins vegar kom það fram á fundum nefndarinnar að það tíðkaðist að happdrætti sem hafa ekki leyfi til þess að greiða út vinninga með peningum, væru engu að síður að gera það. Það er þá væntanlega alveg jafnalvarlegt mál eins og hitt.