Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:10:45 (2254)

2003-11-27 16:10:45# 130. lþ. 36.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Enn þarf ég að endurtaka mig um þann fyrirvara sem við fulltrúar Samf. setjum um tímalengdina. Ég trúi því varla að þessi endurskoðun á happdrættislöggjöfinni muni taka 15 ár, nema hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson telji það. Þess vegna tel ég algjörlega óþarft og beinlínis ósanngjarnt gagnvart leyfishafanum að binda þetta leyfi í lög til 15 ára, vitandi vel að við erum að endurskoða þessa löggjöf.

Ég vil líka taka undir þau ummæli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að auðvitað eigum við að vera löngu búin að kryfja þessi mál í ljósi þess álits sem samkeppnisráð skilaði af sér árið 2000 og frekari upplýsinga sem hafa komið í kjölfar þess. Að sjálfsögðu áttum við að gera það.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson furðaði sig á því að ég skyldi blanda menntamálum inn í þessa umræðu. En það vill svo til að hagnaður Happdrættis Háskóla Íslands fer til menntamála og þá til háskólastigsins og ég tók það sérstaklega fyrir. En hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór að blanda öðrum skólastigum inn í þessa umræðu sem snerta ekkert Happdrætti Háskóla Íslands. Eftir stendur að við erum hálfdrættingar í opinberum fjárframlögum til háskólastigsins ef borið er saman við aðrar Norðurlandaþjóðir. Um það snýst þessi punktur sem ég kom inn á í mínu máli.