Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:23:21 (2255)

2003-11-27 16:23:21# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Við fjárlagaumræðu í fyrradag, og í gær líka því að hún stóð fram yfir miðnætti, var rætt talsvert um samskipti þings og framkvæmdarvalds og bréfaskipti millum forsrn. og Alþingis. Hér var rifjað upp og lesið svar ríkisendurskoðanda um þessi efni þar sem hann vísaði réttilega til gildandi laga þar um, fjárreiðulaganna. Nú bregður svo við að fjmrn. svarar fyrir sig í vefpósti sínum og það er tekið upp á heimasíðu Morgunblaðsins. Svar fjmrn. einkennist af mikilli þykkju, ríkisendurskoðanda er nánast sagt til syndanna og því haldið fram að hann fari villur vegar. Það er auðvitað alveg nýtt af nálinni að fjmrn. leyfi sér að tala með slíkum tón og hér um ræðir við Ríkisendurskoðun sem er undirstofnun Alþingis og ber að fylgjast með og gaumgæfa að framkvæmdarvaldið standi rétt að ákvörðunum þingsins. Mér þykir nú eggið farið að kenna hænunni í þessum efnum og ég bið hæstv. fjmrh. áður en við höldum áfram þingstörfum að gera grein fyrir því hvernig honum og embættismönnum hans dettur í hug að standa í stappi við ríkisendurskoðanda um atriði sem eru algjörlega kýrskýr í gildandi löggjöf, löggjöf sem Alþingi setti 1997 ef ég man rétt þar sem tekin voru af öll tvímæli um stöðu þings gagnvart framkvæmdarvaldi þegar kæmi að gerð fjárlaga. Mér þykir í hæsta máta undarlegt að fjmrn. og framkvæmdarvaldið skyldu ekki frekar velja þá leiðina að fara í felur, hafa sem hægast um sig, í stað þess að efna til stríðs við Ríkisendurskoðun og um leið Alþingi Íslendinga.