Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:28:45 (2258)

2003-11-27 16:28:45# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég held að fullkomin ástæða sé til að taka þessi mál upp hér, og þótt í ítarlegra formi væri. Það er spurning hvort ekki eigi að grípa til þess ákvæðis þingskapanna sem heimilar umræður utan dagskrár án tímatakmarkana við tækifæri þegar fjárlagaafgreiðslan er að baki og fara í eina rækilega umræðu um samskipti löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins sem aftur og aftur ber á góma þessi árin, gjarnan í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, þar sem viðfangsefnið er í raun alltaf eitt og hið sama, ítrekaðar tilraunir framkvæmdarvaldsins til að skjóta undan upplýsingum, neita að birta hluti, halda frá Alþingi og fjárln. skoðunum þeirra aðila sem eiga hagsmuna að gæta í sambandi við fjárlagagerðina. Að bera á borð hluti af þessu tagi sem hér hefur verið gert, skrifa bréf af því tagi sem forsrn. gerði þar sem meira að segja stofnunum Alþingis er bannað að tala við Alþingi, er svo yfirgengilegt að ég segi eins og einhver sagði hér: Ég er undrandi á því að menn skuli ekki skammast sín, að menn skuli ekki hafa manndóm í sér til að biðjast afsökunar á þessu. Og að bera fyrir sig þetta vefrit er fyrir neðan allar hellur. Hæstv. fjmrh. talar um það eins og sjálfstæða persónu, það er kannski bara lögaðili, vefritið í fjmrn. Það var talað hér fyrir þess hönd eins og það hefði sjálfstæða skoðun og sagt að það stæði við sitt, vefritið. Hefur það kennitölu? Hvar er það með lögheimili? Hæstv. fjmrh. segir sem sagt að vefritið standi við sitt. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Alltaf hefur hins vegar legið ljóst fyrir að fjárlaganefnd gæti átt frumkvæði að því að kalla á sinn fund stjórnendur einstakra ráðuneyta eða stofnana.``

Á að lúta fram og þakka fyrir það að fjmrn. skuli ætla að leyfa fjárln. að ræða við stofnanir og aðila sem hafa hagsmuna að gæta? Þetta er auðvitað alveg yfirgengilegur málflutningur. Eða hitt sem gefið er í skyn með þessu, að vinnubrögð fjárln. séu óöguð. Hér er haft eftir Ríkisendurskoðun að sú heildarsýn og sá agi sem felist í skipulaginu, þ.e. hinum fínu römmum fjmrn., fari forgörðum eftir að fjárlagafrv. hafi verið lagt fyrir þingið. Það er aldeilis verið að gefa mönnum einkunnir. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ríkisendurskoðun sagði ...)