Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:33:40 (2260)

2003-11-27 16:33:40# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja vænst þess að hv. forustumenn í fjárln. Alþingis stæðu hér upp og lýstu yfir óánægju sinni með þessa afskiptasemi framkvæmdarvaldsins og fjmrn. af vinnubrögðum í þinginu. Það eru engar smáeinkunnir sem hér er verið að gefa eins og hefur verið rakið í þessari umræðu. Fjmrn., þetta vefrit og fjmrh. sem er væntanlega ábyrgðarmaður þeirrar útgáfu, gefur starfsháttum á Alþingi núlleinkunn. Mér þykja þessi viðbrögð við réttmætum ábendingum Ríkisendurskoðunar bera keim af algjörum valdhroka af hálfu framkvæmdarvaldsins. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna í hluta af þessari frétt vefritsins ef frétt mætti kalla, með leyfi forseta:

,,Í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á fjárlagaferlinu og birti í apríl 2001 segir að rammaskipulagið hafi almennt gefist vel og eflt mjög stefnumótunarhlutverk ríkisstjórnarinnar. Hins vegar nái ,,... skipulagið ekki til afgreiðslu Alþingis á fjárlögunum. Sú heildarsýn og agi sem felst í skipulaginu fer því forgörðum eftir að fjárlagafrumvarp hefur verið lagt fyrir þing.````

Það er bara núlleinkunn. Um leið og þingið, löggjafarsamkundan, kemur nálægt fjárlagaferlinu fer það forgörðum. Og það segir meira í vefritinu, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þessa vekur athygli að Ríkisendurskoðun, sem er undirstofnun Alþingis (en forsætisnefnd Alþingis kemur fram í fjárlagaferlinu fyrir hönd Alþingis og stofnana þess og á samkvæmt fjárreiðulögum að senda forsætisráðherra fjárlagatillögur sínar) skuli nú lýsa yfir því að stofnunin telji sér heimilt að ræða beint við fjárlaganefnd um fjárveitingar til embættis síns og álíti sig ekki þurfa að lúta sama verklagi og aðrar stofnanir við rammafjárlagagerð.``

Hugsið ykkur annað eins, að leyfa sér að koma svona fram við Alþingi Íslendinga og ríkisendurskoðanda. Mér er orða vant.