Grein í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:40:38 (2263)

2003-11-27 16:40:38# 130. lþ. 37.91 fundur 191#B athugasemd í vefriti fjármálaráðuneytis um rammafjárlög og Ríkisendurskoðun# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Einar Már Sigurðarson:

Frú forseti. Því miður fór hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson ekki alveg með rétt mál. Það er nefnilega ekki rétt hjá hv. þingmanni að bréfaskriftir fjmrn. hafi ekki truflað störf fjárln. Því miður held ég að hv. þingmaður hafi ekki verið viðstaddur í fyrradag þegar ég fór yfir þetta mál og færði rök fyrir því að þetta hefði einmitt truflað störf fjárln. vegna þess að fjárln. vissi ekki af þessum bréfaskiptum þegar verklagið var skipulagt. Hv. þm. Magnús Stefánsson, formaður fjárln., staðfesti í viðtalsþætti sem við vorum í í gærmorgun að þetta hefði truflað verklag nefndarinnar vegna þess að við vissum ekki af þessu. Við vissum ekki, eins og hv. þm. var að gefa í skyn, að stofnanir gætu ekki lengur beðið um viðtöl við fjárln. eins og verið hefur undanfarin ár vegna þess að stofnanir tóku að sjálfsögðu alvarlega þær tilskipanir sem þær fengu. Þess vegna höfum við verið nú á síðustu metrunum að kalla stofnanir til okkar. Við þurftum að kalla stofnanir til okkar rétt áður en 2. umr. fór fram og síðast í morgun funduðum við með stofnunum vegna þess að þær höfðu ekki komið af sjálfsdáðum og við töldum fulla ástæðu til að hitta þær. Ég held að hv. þm. gæti staðfest það ef hann fengi að taka aftur til máls að þessi viðtöl hafa að sjálfsögðu skýrt mjög stöðu ýmissa stofnana vítt og breitt um landið. Það er því miður ekki rétt að þetta hafi ekki truflað störf nefndarinnar þrátt fyrir að það hafi verið fullur vilji, bæði meiri hluta og minni hluta í nefndinni, til að trufla ekki störf þingsins. En það verð ég að segja, frú forseti, að nú er fjmrn. enn að gera tilraun til þess væntanlega að trufla ferlið í þinginu vegna þess að það er alveg ljóst að ef enn heldur fram sem horfir er greinilega verið að kalla á stríð milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hvað þetta áhrærir. Nú er gengið svo langt að fjmrn. reynir að skikka stofnun sem heyrir beint undir Alþingi og telur að eitthvað hafi verið óvarlega sagt í býsna vel skrifuðu bréfi ríkisendurskoðanda til Alþingis þar sem hann endursendir þetta bréf. Eins og ég sagði í gær hefði verið betra að Alþingi sjálft hefði endursent bréfið með þeim orðum til forsrn.