Happdrætti Háskóla Íslands

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 16:49:57 (2266)

2003-11-27 16:49:57# 130. lþ. 37.2 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[16:49]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er um að endurnýja einkarétt Happdrættis Háskóla Íslands til rekstrar peningahappdrættis um heil 15 ár, en Háskóli Íslands hefur haft einkarétt til að reka slíkt happdrætti frá árinu 1934 gegn greiðslu 20% einkaleyfisgjalds til ríkissjóðs. Happdrættið hefur fjármagnað meginhluta byggingarframkvæmda og tækjakaup Háskóla Íslands.

Eins og fram kemur í nál. var ég fjarverandi þegar það var samþykkt og er best að taka það skýrt fram að ég er alfarið andvígur því og sérstaklega að framlengja einkaleyfið um heil 15 ár. En eins og fram hefur komið í umræðunni eru þessi mál til skoðunar og í raun furðulegt að lengja þetta um svo langan tíma.

Við þingmenn Frjálsl. höfum fullan skilning á mikilvægi happdrættisins fyrir starfsemi Háskóla Íslands og viljum ekki á nokkurn hátt varpa rýrð á þá starfsemi. Hins vegar er rétt að benda á að framlengt einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til að reka peningahappdrætti beinist einkum gegn tveimur vöruhappdrættum sem starfa hér, þ.e. Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS. En önnur happdrætti sem velta tíföldum upphæðum á við þau fá að greiða út vinninga í peningum.

SÍBS er ekki síður að vinna að þjóðþrifamálum en Háskóli Íslands. Þess vegna er ekki eðlilegt að SÍBS sitji ekki við sama borð og háskólinn varðandi þessa starfsemi. SÍBS hóf starfsemi á Reykjalundi fyrir um 60 árum og þar er nú langfullkomnasta endurhæfingarstöð landsins. Hátt í þriðja þúsund manns leituðu þangað á síðasta ári og horfur eru á að þeir verði enn fleiri í ár. Þar hafa verið langir biðlistar og þörfin er meiri en tekst að uppfylla.

Ákveðið var af hálfu SÍBS á síðasta áratug að ráðast í byggingu nýs glæsilegs þjálfunarhúss sem tekið var í notkun í byrjun síðasta árs. Rökin fyrir fjárhagslegu sjálfstæði Reykjalundar og starfseminni þar hafa verið að happdrætti SÍBS fjármagni byggingar og því þurfi ekki að leggja Reykjalundi lið, enda hefur það verið svo. Happdrættið á hins vegar nú undir högg að sækja vegna ósanngjarnrar samkeppni við peningahappdrætti og einkaréttarleyfi Háskóla Íslands.

Sama gildir um DAS. Þar er einnig um þjóðþrifastarfsemi að ræða ekki síður en starfsemi Háskóla Íslands og því er óskiljanlegt að þessum tveimur happdrættum sé mismunað með þvílíkum hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Og það getum við í Frjálsl. ekki stutt.