Talnagetraunir

Fimmtudaginn 27. nóvember 2003, kl. 17:04:50 (2269)

2003-11-27 17:04:50# 130. lþ. 37.3 fundur 141. mál: #A talnagetraunir# (framlenging rekstrarleyfis) frv. 126/2003, VF
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 130. lþ.

[17:04]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Ég fagna því frv. sem hér er til umræðu, um framlengingu á samningi um talnagetraunir. Málið er mér mjög skylt. Ég er formaður Ungmennasambands Kjalarnesþings, UMSK, sem er eitt af fjölmennustu íþróttabandalögum í landinu.

Talnagetraunir, eða lottó og getraunir eins og það kallast í daglegu tali, hafa verið í umsjá Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Öryrkjabandalagsins síðan 1986 og skilað ágætum arði. Sá arður rennur síðan til góðra verka, bæði fyrir öryrkja og alla íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna. Þetta fjármagn er ásamt sjálfboðaliðastarfi það sem leggur grunninn að fjölbreyttu íþróttastarfi í dag og það, virðulegi forseti, þarf öllum að vera ljóst varðandi umræðu um þetta mál.

Í þessu sambandi er rétt að líta aðeins á umfang íþróttahreyfingarinnar. Þeir sem eiga aðild að UMFÍ eiga jafnframt aðild að ÍSÍ þannig að ég tala hér um ÍSÍ. Íþrótta- og Ólympíusambandið eru landssamtök með rúmlega 148.000 félagsmenn í 409 íþróttafélögum. Þessi íþróttafélög skiptast síðan mörg hver í deildir þannig að einingarnar eru um 700 talsins.

Veltuaukning hjá íþróttahreyfingunni á milli áranna 2001 og 2002 er um 1,1 milljarður og árið 2002 var hreyfingin að velta samtals 5,8 milljörðum kr. Af þessu má sjá að um er að ræða mjög fjölmenna hreyfingu með fjárfreka veltu, hreyfingu sem þjónar bæði ríki og sveitarfélögum.

Íþróttahreyfingin snýst að stærstum hluta um íþróttaiðkun barna og unglinga og störf hennar eru margviðurkennd sem ein besta fáanlega forvörnin gegn vímuefnaneyslu og heilsubresti.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom að í upphafi ræðu minnar þá fagna ég þessu frv. Það er þeim sem að því standa til mikils sóma og léttir undir með Öryrkjabandalaginu og þeim tæplega 150.000 félagsmönnum sem mynda íþróttahreyfinguna.