Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:38:40 (2275)

2003-11-28 10:38:40# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:38]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er alltaf mjög viðkvæmt mál og erfitt þegar fólk missir vinnuna. Það sem skiptir mestu máli í því sambandi er að menn reyni ávallt að nýta öll þau tækifæri sem bjóðast, byggja upp atvinnulíf, leita eftir nýjum tækifærum til atvinnuuppbyggingar og vera ávallt á varðbergi í því sambandi.

Það er alveg ljóst að á undanförnum árum og um alllangt skeið hefur verið samdráttur á Keflavíkurflugvelli. Stjórnvöld hafa lagt á það mikla áherslu að halda þeim varnarviðbúnaði sem þar er og sá ásetningur ríkisstjórnar Íslands hefur ekki farið fram hjá neinum. Það er hins vegar alveg ljóst að það er hægt að viðhalda varnarviðbúnaði þótt einhver samdráttur verði og sparnaður sé í rekstri. Við verðum að hafa fullan skilning á því að til þess að viðhalda þeim varnarviðbúnaði sem er á Íslandi þurfum við að sýna því skilning að bandarísk stjórnvöld þurfa að spara eins og margir aðrir til þess að viðhalda nauðsynlegum varnarviðbúnaði hér á Íslandi.

Því miður kemur þetta við fólk sem þar vinnur og vegna þess að mikið hefur verið gert úr því hvenær ráðuneytið vissi um tiltekna hluti, eins og það sé eitthvert aðalatriði í þessu máli, get ég vel upplýst að hinn 14. október var ráðuneytinu tilkynnt um það að fjárveitingar til flotastöðvarinnar yrðu skornar verulega niður fjárlagaárið 1. október 2003 til 30. september 2004. Á þeim tíma kom fram að deildir flotastöðvarinnar voru að leita leiða til að hagræða og skera niður kostnað. Jafnframt var tilkynnt að til uppsagna gæti komið en alls ekki ljóst hvenær til þeirra yrði gripið. Utanrrn. var síðan tilkynnt um uppsagnirnar 22. október.

Þessar uppsagnir eins og hefur komið skýrt fram eru ekki í neinu samhengi við þær viðræður sem hafa átt sér stað út af varnarsamningnum, heldur einungis tilkomnar vegna niðurskurðar á fjárveitingum til reksturs flotastöðvarinnar. Um er að ræða niðurskurð hjá bækistöðvum flotans um allan heim og ekki einungis á Keflavíkurflugvelli.

Þá er spurt: Er eitthvað meira fram undan? Við höfum engar upplýsingar um það og við höfum enga ástæðu til þess að ætla að svo verði. Utanrrn. hafa ekki borist neinar tilkynningar um það og engar hugmyndir um verulegan samdrátt á næstu þremur árum hafa verið kynntar stjórnvöldum. Það liggur hins vegar fyrir að það eru viðræður fram undan um varnarmátt á Íslandi og rekstur stöðvarinnar almennt og þær viðræður hafa ekki enn þá hafist.

Auðvitað er þetta alvarlegt ástand og menn verða að líta til þeirra möguleika sem eru á Suðurnesjum. Það hefur verið ákveðið að tvöfalda Reykjanesbrautina og leggja Suðurstrandarveg. Með því er verið að gera allt þetta svæði að einu atvinnusvæði. Það er líka mjög mikil uppbygging á Keflavíkurflugvelli. Störfum hefur fjölgað verulega í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það hefur verið tilkynnt um verulega aukningu hjá Flugleiðum og svo mætti lengi telja. Á næstunni eru að hefjast byggingarframkvæmdir við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þ.e. við norðurbygginguna, upp á fleiri hundruð milljónir, sennilega 600--700 millj. kr., til að stækka hana enda er mjög mikil aukning á Keflavíkurflugvelli í tengslum við flugið. Miklir möguleikar eru á þessu sviði. Vonandi verður af stálpípuverksmiðju þannig að það er margt í deiglunni.

Að lokum vil ég nefna það að félmrn. hefur ákveðið að hefja sérstaka athugun á atvinnumálum ungs fólks, bæði langtímaatvinnuleysi og tímabundnu atvinnuleysi og hefur ákveðið að sú vinna hefjist á Suðurnesjum.