Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:53:02 (2280)

2003-11-28 10:53:02# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Sá samdráttur sem er fram undan í starfsemi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli mun fyrst og fremst bitna á atvinnuástandinu á Suðurnesjum og þess vegna er mjög brýnt að huga að því með hvaða hætti sé unnt að stuðla að atvinnuuppbyggingu á þessu þriðja stærsta þéttbýlissvæði landsins. Þessi samdráttur er bein afleiðing þess að Bandaríkjaher er að skera niður starfsemi sína í herstöðvum um allan heim. Sá niðurskurður er mjög umfangsmikill og á annars vegar rætur að rekja til stöðu ríkisfjármála í Bandaríkjunum og hins vegar til mikils kostnaðar Bandaríkjahers vegna stríðsins í Írak og Afganistan.

Það er hins vegar fráleitt og ósmekklegt, herra forseti, og ekki sæmandi að tengja þennan niðurskurð við stöðu í viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um framkvæmd varnarsamnings þjóðanna eins og hv. þm. Jón Gunnarsson hefur gert. Ekkert slíkt orsakasamhengi er hér á ferð og ég staðhæfi að þeir sem láta það í veðri vaka eru annaðhvort að tala gegn betri vitund eða hafa ekki unnið heimavinnuna sína.

Herra forseti. Sem betur fer er margt á döfinni í atvinnumálum á Suðurnesjum. Á næstu mánuðum skýrist hvort reist verður stálpípuverksmiðja sem getur veitt 200 manns atvinnu og það eru einnig mikil umsvif fyrirsjáanleg á Suðurnesjum vegna nýrrar orkuöflunar Hitaveitu Suðurnesja og tvöföldunar Reykjanesbrautar en þær framkvæmdir munu hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnuástandið á svæðinu. Einnig er ljóst að áform Flugleiða um fjölgun áfangastaða og rekstur nýrra flugvéla munu hafa í för með sér mikla fjölgun starfa á þessu svæði.

Herra forseti. Það ríður á að stjórnmálamenn haldi ró sinni og forðist upphlaup og stóryrði sem eru til þess eins fallin að valda tortryggni og óöryggi og ég tel að þeir stjórnmálamenn sem vilja stuðla að atvinnuuppbyggingu eigi að taka höndum saman og nýta þau atvinnutækifæri sem eru til staðar og leita nýrra tækifæra í þágu samfélagsins á Suðurnesjum.