Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 10:59:40 (2283)

2003-11-28 10:59:40# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það alvarlega ástand í atvinnumálum sem blasir við á Suðurnesjunum út af uppsögnum og samdrætti hjá varnarliðinu er fullkomlega á ábyrgð stjórnvalda vegna aðgerðaleysis. Það verður að grípa til sérstakra aðgerða til að efla atvinnulíf Suðurnesjanna og bregðast við þessari þróun, eins og fram kom í máli málshefjanda, hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Það var að sama skapi dapurlegt að hlýða á hæstv. utanrrh. um að ekki ætti að grípa til sértækra aðgerða til að bregðast við þeim uppsögnum og samdrætti sem við blasir í atvinnulífi Suðurnesja.

Þá vekur svar hæstv. iðnrh. við fyrirspurn Brynju Magnúsdóttur, varaþingmanns Samf., um endurskoðun byggðaáætlunar vegna stöðu mála, sérstaka athygli. Í svarinu kemur fram að ekki á að endurskoða byggðaáætlunina og er það með ólíkindum í ljósi stöðunnar og er ekkert annað en bylmingshögg fyrir byggðarlagið í þeirri stöðu sem nú er uppi.

Alvarlegast af öllu er hins vegar sú spurning hvort blekkingum hafi verið beitt í aðdraganda kosninganna sl. vor til að koma í veg fyrir að aðgerðaleysið á Suðurnesjum í atvinnumálum yrði stjórnarflokkunum fótakefli í kosningunum. Það verður að skýra það fortakslaust út þannig að það sé engum vafa undirorpið hvort um blekkingar hafi verið að ræða. Vissu forustumenn stjórnarflokkanna virkilega ekki sl. vor hvað vofði yfir Suðurnesjunum og hverjar fyrirætlanir Bandaríkjamanna væru?

Annað sem skiptir miklu máli í þessu öllu saman er hvaða fyrirætlanir eru uppi um nýtingu á því íbúðarhúsnæði sem liggur eftir varnarliðið ef um frekari fækkun verður að ræða. Þar er um að ræða íbúðarhúsnæði fyrir þúsundir manna og áhrif þess á fasteignamarkaðinn á Suðurnesjunum eru augljós ef þær kæmu fyrirvaralítið inn á markaðinn. Fasteignaverð mundi hrynja. Því væri fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. utanrrh. til þess hvernig best væri að nýta þetta húsnæði til hagsbóta fyrir byggðina.