Uppsagnir hjá varnarliðinu

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 11:04:09 (2285)

2003-11-28 11:04:09# 130. lþ. 38.94 fundur 198#B uppsagnir hjá varnarliðinu# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í umræðunni hefur mikið verið talað um ábyrgð stjórnvalda, þetta væri allt ábyrgð stjórnvalda. Það hefur verið talað um blekkingar, það hefur verið talað um aðgerðaleysi, það hefur verið talað um værukærð, það hefur verið talað um afskiptaleysi. Hvaða flokkar eru að halda þessu fram? Annars vegar Samf. sem þurfti að auglýsa það sérstaklega í síðustu kosningum að þau vildu ekki að herinn færi. Af hverju þurftu þau að auglýsa það sérstaklega? (Gripið fram í: Vegna þess ...) Vegna þess að þau voru nýbúin að skipta um stefnu. Og síðan Vinstri grænir (GÁS: ... málefni ...) sem halda því fram að herinn eigi að fara strax og halda fundi með verkalýðsleiðtogum sínum og síðan er talað um blekkingar, afskiptaleysi, ekki eina einustu hugmynd um hvað á að gera. Þau nota orðin ,,annað`` og ,,sértækar aðgerðir``. Sértækar aðgerðir, annað. (Gripið fram í: ... ögn málefnalegra?) Málefnalegt. Þegar ég er ásakaður um blekkingar og aðgerðaleysi, hv. þingmaður, er ástæða til að svara því og það geri ég vegna þess að mér finnst þessi málflutningur ekki vera sæmandi, hvorki fyrir Samf. né Vinstri græna. Þetta er alvarlegt mál. Atvinnuleysi er ávallt alvarlegt mál og það á ekki að hafa það í flimtingum. Það á að taka það alvarlega og ekki tala um það með þeim hætti sem þessir flokkar hafa gert.

Það er ýmislegt gott að gerast á þessu svæði. Ég minni á flugvöllinn. Ég minni á uppbyggingu flugstöðvarinnar. Það hefur ekki alltaf verið samstaða um þau mál hér á hv. Alþingi. Ég minni á viðræðurnar við Bandaríkjamenn sem skipta miklu máli og ég vænti þess að Alþingi standi saman um það að við reynum að fá niðurstöðu í það sem fyrst. Þar er ekki hægt að ásaka stjórnvöld um værukærð. Það er heldur ekki hægt að ásaka utanrrn. fyrir að ekki hafi verið fullt samráð við verkalýðshreyfinguna á Suðurnesjum. Við höfum beitt okkur fyrir því að fá varnarliðið til þess að fara að lögum sem það gerði ekki og það var ekki síst utanrrn. sem gerði það.