Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 11:06:42 (2286)

2003-11-28 11:06:42# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., Frsm. meiri hluta SP
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta utanrmn. sem er að finna á þskj. 366. Þetta er um mál nr. 249, till. til þál. um staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn frá 4. apríl 1949 um aðild lýðveldisins Búlgaríu, lýðveldisins Eistlands, lýðveldisins Lettlands, lýðveldisins Litháens, Rúmeníu, lýðveldisins Slóvakíu og lýðveldisins Slóveníu sem gerðir voru í Brussel 26. mars sl.

Eftir stækkun bandalagsins fjölgar aðildarríkjunum úr 19 í 26. Samkvæmt ákvæðum samninganna öðlast þeir fyrst gildi þegar öll aðildarríki NATO hafa staðfest þá og tilkynnt vörsluaðila viðbótarsamninganna um staðfestinguna en Bandaríkin eru vörsluaðili NATO-samningsins.

Nefndin fékk á sinn fund Sturlu Sigurjónsson, skrifstofustjóra í utanrrn., til að fara yfir málið. Þá sendi utanrrn. nefndinni nánari upplýsingar um pólitískar og hernaðarlegar kröfur sem gerðar verða til nýrra aðildarríkja bandalagsins.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum sem ég hef eiga einungis sex ríki eftir að fullgilda samningana en auk Íslands eru það Belgía, Frakkland, Holland, Spánn og Portúgal. Eftir að öll ríkin hafa tilkynnt vörsluaðila um fullgildinguna verður umsóknarríkjunum boðið að gerast aðilar að NATO. Ég tel mikilvægt fyrir Ísland að við getum tilkynnt vörsluaðilum fullgildinguna sem fyrst. Flest ríkin fullgiltu samningana í vor eða snemma sumars. Það er aldrei gott til afspurnar að vera síðastur.

Íslensk stjórnvöld hafa ávallt stutt stækkun Atlantshafsbandalagsins og sú stækkun sem nú er að koma til framkvæmda er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Stækkun NATO er fyrst og fremst til að tryggja stöðugleika og öryggi í Evrópu. Ísland hefur ávallt stutt sérstaklega við bakið á Eystrasaltsríkjunum og nú hafa þau brotist til sjálfstæðis og langþráð markmið þeirra er að verða að veruleika, aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þau eru einnig væntanlegir aðilar að Evrópusambandinu og verða þar með EES-ríki en í samtölum milli formanna utanrmn. þessara ríkja og Norðurlandanna hefur m.a. komið fram að þau leggja höfuðáherslu á aðild að Atlantshafsbandalaginu og aðild að Evrópusambandinu kemur þá næst á eftir.

Hæstv. forseti. Þetta undirstrikar mikilvægi NATO sem bandalags sjálfstæðra ríkja sem vilja tryggja frið og öryggi í heiminum. Atburðirnir þann 11. september 2001 hafa einnig sýnt hversu mikilvægt það er að sem flest ríki starfi saman að öryggis- og varnarmálum. Nánara samstarf NATO og Rússlands innan NATO/Rússlands-ráðsins skiptir verulegu máli og sýnir að hægt er að ná verulegum árangri innan alþjóðastofnana.

Nýju aðildarríkin verða að uppfylla ákveðnar kröfur til að geta orðið aðilar og hefur verið unnið eftir sérstakri aðgerðaáætlun. Rík áhersla hefur verið lögð á pólitískar, efnahagslegar og hernaðarlegar umbætur. Þannig hefur undirbúningur þeirra að NATO-aðild ýtt undir pólitískar og efnahagslegar framfarir heima fyrir. Pólitísk markmið eru fyrst og fremst barátta gegn glæpum og spillingu. Ríkin þurfa m.a. að tryggja að stofnanir þeirra hafi burði til að framfylgja réttarreglum sem settar hafa verið til að taka á glæpastarfsemi og spillingu.

Í efnahagslegu tilliti þurfa ríkin að halda áfram að auka frjálsræði og stöðugleika í efnahagsmálum en þau þurfa vissulega einnig að leggja fram til eigin varna. Í því sambandi er þó lögð áhersla á að efling varnarviðbúnaðar kippi ekki fótunum undan efnahagslegum umbótum. Ríkin sjálf verða að meta hvaða bolmagn þau hafa til að auka framlög til hermála.

Um hernaðarleg markmið þurfa ríkin fyrst og fremst að tryggja að engin lagaleg vandkvæði séu á þátttöku í hugsanlegum hernaðaraðgerðum á vegum bandalagsins. Þá þurfa ríkin að endurskipuleggja og aðlaga heri sína í samræmi við markmið og kröfur NATO. Höfuðáhersla er á að samskipti, fjarskipti, þjálfun og samhæfing sé þannig að herafli og búnaður aðildarríkjanna nýtist bandalaginu.

Um fjárhagsleg markmið er það að segja að flest ríkin hafa sjálf ákveðið að verja 1,7--2% af þjóðarframleiðslu til hermála árlega en það er í samræmi við útgjöld annarra aðildarríkja.

Hæstv. forseti. Aðlögun nýju aðildarríkjanna er langtímaverkefni, það er ljóst. En við bjóðum þau velkomin til samstarfs innan NATO og óskum þeim jafnframt til hamingju með þann árangur sem þau hafa náð heima fyrir og á alþjóðavettvangi. Mikil samstaða var um málið í nefndinni en einn nefndarmanna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, skilar séráliti.

Meiri hluti utanrmn. leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nál. skrifa hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, formaður, Jónína Bjartmarz, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson.