Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 11:14:30 (2287)

2003-11-28 11:14:30# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[11:14]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hluta utanrmn. Hann skipar sá sem hér talar. Ég er þeirrar skoðunar, hef lengi verið og hef frekar styrkst í henni heldur en hitt, að það hafi verið mikil söguleg mistök í kjölfar hinna miklu og stóru stjórnmálaatburða í Evrópu á 9. áratugnum sem náði hámarki um 1990 að nota þá ekki það sögulega tækifæri sem skapaðist til að sameina alla Evrópu í öryggismálum.

[11:15]

Sú skoðun var mjög almenn að í kjölfar þess að Varsjárbandalagið liðaðist sundur lægi beinast við að leggja niður Atlantshafsbandalagið, tilgangi þess væri þar með augljóslega lokið og vinna ætti að því að sameina öll Evrópuríki, ekki bara sum þeirra, í öryggismálum, t.d. með því að styrkja stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu, og skapast hefðu --- sem sannanlega var --- einstæðar aðstæður til þess að sameina alla Evrópu á nýjan leik. Vonir manna um friðvænlegri heim flugu hátt á þessum tíma og voru auðvitað ekki bara bundnar Evrópu heldur heiminum öllum og menn trúðu því margir að nú væri lag til þess að setja kraft í gerð hinna stóru friðar- og afvopnunarsamninga sem víða hafði verið unnið að, ljúka t.d. samningnum um jarðsprengjur sem hefur sem betur fer að nokkru leyti tekist, framlengja samninginn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, bjarga samningnum sem heftir vígvæðingu geimsins, ABM-samningnum, og þar fram eftir götunum.

En því miður tóku málin aðra stefnu. Bandaríkjamenn ákváðu að blása lífi í NATO á nýjan leik og hafa unnið gegn því að Evrópuþjóðir sameinuðust um öryggismál sín, hafa augljóslega talið sér henta að laga frekar NATO að sínum vilja við nýjar aðstæður. Þeir sögðu upp samningnum um bann við vígbúnaði geimsins, ABM-samningnum, sem þeir höfðu reyndar þegar gert atlögur að. Svo snemma sem í viðræðum Reagans og Gorbatsjovs í Reykjavík bar það mál á góma. Og þannig hefur það gerst, herra forseti, að við sitjum uppi með gamla hernaðarbandalagið NATO með óbreytta hugmyndafræði að baki hvað það varðar að áskilja sér rétt til að beita kjarnorkuvopnum en breytt að því leyti sem Bandaríkjamönnum hentaði að NATO áskilur sér rétt til þess að láta til sín taka utan landsvæða aðildarríkjanna og hefur reyndar gert það samanber ábyrgð NATO á átökunum í Júgóslavíu.

Fyrstu áformin um stækkun NATO sem urðu síðan að veruleika með inntöku þriggja ríkja, Póllands, Tékklands og Ungverjalands, gáfu strax tóninn í þessum efnum. Þau ríki voru valin úr sem þróuðust voru í mið- eða austanverðri Evrópu sem í raun og veru höfðu, ef þannig er talað, minnsta þörf fyrir stuðning til að koma öryggismálum sínum í skikkanlegt form og þó kannski miklu frekar til að byggja upp innviði samfélaganna þannig að þau kæmust áfram á þróunarbraut.

Það er í mínum huga enginn vafi að þarna glataðist sögulegt tækifæri og það hefur því miður farið svo að þær svæðis- og alþjóðastofnanir sem menn bundu vonir við að fengju aukið hlutverk og yrðu styrktar í tengslum við þessar miklu breytingar í hinu pólitíska landslagi hafa veikst. Og stofnunin um öryggi og samvinnu í Evrópu er engan veginn sú sem henni var af frumkvöðlunum ætlað að vera. Hún gegnir að vísu veigamiklu hlutverki og skiptir miklu máli í sambandi við það að styðja lýðræðisþróun, fylgjast með kosningum og tryggja mannréttindi en hefur ekki fengið það hlutverk hvað varðar sjálfa öryggisgæsluna --- það er spurning hvort ég get gert eitthvað fyrir menn í hliðarsal, forseti. Má ekki færa þeim kaffi, kannski? --- sem henni var ætlað.

Auðvitað hafa miklar umræður orðið um öryggismál og spurningar sem tengjast því með hvaða hætti væri hægt að vinna að því verkefni að tryggja frið og stöðugleika í heiminum eins og alltaf er. Öyggishugtakið hefur breyst, það hefur dýpkað og breikkað og menn gera sér betur grein fyrir því en áður að kaldastríðshugmyndafræðin sem skilgreindi öryggi fyrst og fremst sem spurningu um hernaðarstyrk, möguleika til þess að heyja styrjaldir, er auðvitað ónothæf vegna þess að þær ógnir sem að fólki steðja í dag eru af öðrum toga ekki síður og það er kannski meira verkefni að tryggja frið og stöðugleika, koma í veg fyrir innanríkisátök, borgarastyrjaldir, deilur milli þjóðarbrota og átök af trúarlegum ástæðum. Öryggi manna stafar einnig ógn af umhverfismálum sem eru í ólestri og öðru í þeim dúr. Engu að síður miðar sorglega lítið og í raun og veru ekkert í því að alþjóðasamfélagið beiti auknum kröftum í fyrirbyggjandi og uppbyggilegar aðgerðir til að tryggja frið og stöðugleika. Útgjöld til hermála eru meiri en nokkru sinni í sögunni. Heildarútgjöld heimsins til hermála eru um þessar mundir, einmitt þessa mánuðina, að fara yfir 1.000 milljarða bandaríkjadali. Ég veit ekki hvort menn ná þessari tölu en staðreyndin er engu að síður sú að heildarútgjöld heimsins til hermála, vígbúnaðarmála, eru að fara yfir 1.000 milljarða bandaríkjadala markið þessa mánuðina eða þessi missirin. Það miðar sáralítið og sums staðar ekki neitt í því að auka frekar framlög til uppbyggingar, til þess að útrýma fátækt, til þess að styrkja lýðræði og koma á betra ástandi á þeim svæðum heimsins sem eru uppspretta átaka og ógna öryggi.

Það er helst á norrænum vettvangi sem hugsunin um friðsamlegar og fyrirbyggjandi aðgerðir í þessu skyni hefur fengið hljómgrunn. Þar hefur verið talsvert með það unnið að menn ætli að reyna að færa fjármuni til, draga úr vígbúnaði og auka þess í stað friðsamlega, borgaralega og fyrirbyggjandi uppbyggingu sem augljóslega er vænlegasta og kannski má segja eina leiðin til þess að menn geti borið einhverjar vonir í brjósti um friðvænlegri framtíð. Það er umhugsunarefni að trú manna á stálið og vígvæðinguna virðist ekkert minnka hversu glatt sem ófriðarbálið logar vítt og breitt um heimsbyggðina, heldur er bara gefið í og Bandaríkjamenn auka útgjöld til hermála og krefjast þess að samstarfsþjóðir þeirra geri það einnig. Rétt tæpa 400 milljarða dollara fór Rumsfeld fram á við fjárlagagerðina í Bandaríkjunum nú á dögunum til varnarmálaráðuneytisins og eru þó ekki taldar með aukafjárveitingarnar vegna Íraksstríðsins. Þær voru, ef ég man rétt, upp á eitthvað rúmlega 70 milljarða dollara. Svona óheyrilegar eru þessar tölur og hergagnaiðnaðurinn í heiminum veltir meiru en nokkru sinni fyrr.

Að mínu mati er einn meginágalli stækkunar NATO sá að gerðar eru kröfur um að hin nýju aðildarríki verji miklum fjárhæðum til fjárfestinga í margs konar búnaði og til að endurnýja herafla sinn. Ég óskaði eftir upplýsingum frá utanrmn. um þetta mál og fékk þaðan bréf, þetta blað. Formaður utanrmn. vitnaði hróðug til þess áðan, hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, 5. þm. Reykv. s. Nú ætla ég ekkert að hafa hörð orð um þetta bréf. Það er ákaflega kurteisislegt og í því er hin opinbera fjölmiðlavæna útgáfa Atlantshafsbandalagsins um hvað þetta snúist. Í raun og veru er þetta alls ekkert um hernað samkvæmt þessu bréfi, þessari opinberu útgáfu. Það er eiginlega mannréttinda- og lýðræðisást sem drífur menn áfram. Þetta er sem sagt um pólitísk og efnahagsleg markmið að vísu. Það á að styðja lýðræðið og fleira í þeim dúr, koma í veg fyrir spillingu. Allt er það göfugt. Efnahagsleg markmið eru þarna og að auka frjálsræði. Já, það er einhver smánýfrjálshyggja með í þessu.

Svo kemur að hernaðarlegu markmiðunum, þau séu aðallega lagalegs eðlis, tryggja að það séu engin lagaleg vandkvæði á því að viðkomandi ríki taki þátt í sameiginlegum hernaðaraðgerðum, geti væntanlega, á mannamáli talað, uppfyllt 5. gr. NATO-stofnsáttmálans um hina gagnkvæmu varnarábyrgð. Jú, að vísu að fram fari endurskipulagning og aðlögun á herafla þeirra í samræmi við liðsaflamarkmið og öryggisstefnu bandalagsins, segir þarna. Hvað varðar fjárhagslegu markmiðin eigi þau alls ekki að ganga of nærri sér í þessum útgjöldum. Síðan lýkur bréfinu á klausu sem má kannski lesa upp, með leyfi forseta, og kann að vera að nokkru leyti sprottin af umræðum sem urðu í utanrmn. sem undirritaður stóð fyrir um þetta mál. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Að lokum ber að geta þess að Atlantshafsbandalagið hefur frá upphafi lagt áherslu á þá stefnu að aðlögun nýju aðildarríkjanna sjö muni taka langan tíma líkt og átt hefur sér stað við aðild Póllands, Ungverjalands og tékkneska lýðveldisins. Vegna þessa hefur bandalagið ekki hvatt einstakar nýjar aðildarþjóðir til kaupa á dýrum hergögnum á borð við orrustuflugvélar heldur lagt áherslu á nauðsyn þess að ríkin endurskipulegðu þennan herafla sem fyrir er þannig að hann nýtist bandalaginu í framtíðinni. Einstök ný aðildarríki hafa hins vegar tekið þá ákvörðun að fara út í kaup á dýrum hergögnum og hefur sú ákvarðanataka farið fram án sérstaks samráðs við hermálayfirvöld bandalagsins enda um sjálfstæð ríki að ræða.``

Svo hljómar sá texti, herra forseti. Þetta er sjálfsagt hin opinbera og viðurkennda fjölmiðlaútgáfa af þessum veruleika, þessu sem þarna er að gerast með stækkun Atlantshafsbandalagsins. En hvað er á ferðinni í raun og veru á bak við tjöldin? Hverjir eru mestu áhugamennirnir um stækkun NATO, fyrir kannski utan þessi Austur-Evrópuríki sem af augljósum ástæðum, sögu sinnar vegna, vilja ganga í allt sem vestrænt er og helst í gær? Þau hafa fram undir þetta trúað því og hangið á því hálmstrái að það yrði þeim að liði til að takast á við þær skelfilegu aðstæður sem menn þar búa við. Og ekki geri ég lítið úr því t.d. að stækkun Evrópusambandsins getur vissulega orðið þessum ríkjum að liði ef, og þó sérstaklega ef, þannig hefði verið um hnútana búið að þau hefðu fengið sanngjarna og hagstæða skilmála í þeirri inngöngu. Það var öðru að heilsa þegar upp var staðið og nöturleg staðreynd t.d. að Pólverjar skyldu verða nettógreiðendur inn í Evrópusambandið en ekki þiggjendur.

Og hvað með NATO? Jú, þeir binda vonir við það, margir þarna fyrir austan, t.d. í Rúmeníu. En hverjir eru mestu áhugamennirnir um stækkun NATO? Ég dreg ekkert úr því að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson er ugglaust mikill áhugamaður um það. En ég fullyrði að sá áhugi bliknar (Utanrrh.: Allt rétt.) þegar borið er saman við áhuga bandaríska hergagnaiðnaðarins á því að stækka NATO. Þeir hafa frá fyrstu stundu rekið það mál áfram og þá er rétt að hafa í huga, forseti, að ef við lítum á hagtölur 100 stærstu hagkerfa heimsins í þessu sambandi eru 49 þjóðríki og 51 fyrirtæki. Meira en helmingur af 100 stærstu efnahagseiningunum í heiminum er fyrirtæki. Og í þeim hópi eru allir stærstu hergagnaframleiðendur heimsins.

[11:30]

Þróunin á undanförnum 10--15 árum hefur rutt má segja nýju alþjóðlegu hagkerfi braut þar sem risavaxin fyrirtæki eru mjög ráðandi. Þau hafa yfir meiri auði að ráða en velflest ríki heims og hafa gríðarleg áhrif á bak við tjöldin. Bill Gates, forstjóri Microsoft, stærði sig af því að hann gæti bókað fyrir menn viðtöl við ráðherra, og þar með talinn forseta Bandaríkjanna, í tengslum við ráðstefnu nokkra sem haldin var í Seattle og ég hef grun um að hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hafi sótt. Ætli hæstv. utanrrh. hafi ekki sótt fund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (Utanrrh.: Jú, ég sat kvöldverð hjá honum.) --- og kvöldverð, já. Hann hefur kannski ekki þurft á aðstoð Bills Gates að halda til að komast í þann kvöldverð en þannig er málum háttað í Bandaríkjunum að ef menn virkilega vilja ná eyrum áhrifamanna í stjórnmálum er oft vænlegasta leiðin að fara í gegnum forstjóra stórfyrirtækjanna, Bill Gates og félaga, og kannski enn betra ef þeir þekkja einhvern af stórforstjórum hergagnafyrirtækjanna.

Það er nefnilega þannig, herra forseti, hvað sem þessu göfuga minnisblaði frá utanrrn. íslenska líður til utanrmn. Alþingis, að núverandi uppbygging og útþensla Atlantshafsbandalagsins er að verulegu leyti drifin áfram af stöndugum bankastofnunum á borð við City Corp., Chemical Manifacture Trust og Bank America. Þessir risar á fjármálasviðinu eiga allir mikilla hagsmuna að gæta, í Bandaríkjunum að sjálfsögðu, í Evrópu, í Rússlandi og þriðja heiminum. Risafyrirtæki eins og Ford, General Motors og fjarskiptafyrirtækið Nextel Communications vonast til þess að auka hagnað sinn gríðarlega í tengslum við aukna vígvæðingu og endurnýjun vígbúnaðar innan NATO. Þetta er einfaldlega staðreynd. Þetta er ekkert felumál í umræðum vestan hafs. Ég hvet menn til þess að leita sér efnis, t.d. hjá stórblaðinu Washington Post. Það er nóg af greinum og fréttaskýringum og efni um þetta mál þar sem rætt er um það fyrir opnum tjöldum hvað bandaríski hergagnaiðnaðurinn gerir ráð fyrir að hagnast mikið, sérstaklega vegna stækkunar NATO. En hér kemur minnisblað uppi á Íslandi sem lítur á þetta eins og teboð. Það er ekki þannig.

Auðvitað binda menn vonir við að þessir markaðir opnist fyrir fleira en hergögn og það eru auðvitað ekki síst bandarísk og vesturevrópsk fyrirtæki sem ætla sér þar að skara eld að eigin köku.

Hergagnaiðnaðurinn bandaríski þrýsti mjög á Bandaríkjaþing að samþykkja hina fyrri stækkun NATO. Þeir lágu við í Washington með lobbíista til að koma því í gegn. Það var, eins og kannski einhverjir muna, veruleg andstaða við það framan af í bandarískum stjórnmálum að fara út í þessa stækkun NATO. Í báðum flokkunum á Bandaríkjaþingi voru miklar efasemdir um að þetta væri rétt stefna en þeir sem unnu ötullega að því að koma þessu á voru bandarísku hergagnaframleiðendurnir.

Maður heitir Bruce Jackson og hann hefur lengi verið einn valdamesti maðurinn í yfirstjórn fyrirtækisins Lockheed Martin, stærsta hergagnaframleiðanda heims. En Bruce þessi Jackson er fjölhæfur maður. Ég veit ekki hvort hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hefur heyrt hann nefndan. Það er miður ef svo er ekki því hann ætti að kannast við hann. Bruce Jackson var nefnilega forseti stjórnskipaðrar nefndar Bandaríkjamanna um stækkun NATO. Bruce Jackson var arkitektinn af hálfu Bandaríkjamanna að þessu en hann var um leið stjórnarformaður eða varaformaður stjórnar Lockheed Martin, stærsta hergagnaframleiðanda í heimi. (Gripið fram í: Mikilhæfur maður.) Mikilhæfur maður, segir hæstv. utanrrh. brosandi.

Og það er von að þeir hjá Lockheed Martin leggi svolítið á sig. Norman Augustine, forstjóri fyrirtækisins Lockheed Martin, er að sögn Bruce þessa Jacksons --- ég man ekki hvort þetta viðtal við Bruce vin okkar birtist í Washington Post eða einhverju öðru blaði --- ástríðufullur stuðningsmaður stækkunar NATO. Forstjóri þessa fyrirtækis er það sem kallað er í bandarísku pressunni ,,ástríðufullur stuðningsmaður stækkunar NATO``. Hvers vegna skyldi það nú vera?

Veit hæstv. utanrrh. að á árunum 1997 og 1998, þegar þetta var nú allt að gerast, hin fyrri stækkun NATO, gáfu fjögur stærstu hergagnafyrirtækin í Bandaríkjunum, þ.e. Lockheed Martin, Bowing, Northrup Grumman og Raytheon, um fjórar millj. dollara til stjórnmálaflokka og kjörinna leiðtoga í Bandaríkjunum í kosningasjóði, bæði demókrata og repúblikana? Þeir hafa greinilega talið að þeir hefðu einhverra hagsmuna að gæta í þessu dæmi og, eins og ég sagði, þeir lágu við með lobbíistana í Washington til að sannfæra þingmenn beggja deilda um að stækkun NATO væri rétt.

Hvers vegna ætli Bandaríkjamenn hafi ákveðið að það væri skynsamlegt að setja NATO á vetur? Ég held að það hafi m.a. verið vegna þess að þeir sáu að það væri vænleg leið til að koma í veg fyrir að Evrópuríkin sameinuðust um of hvað varðar lausnir í eigin öryggismálum, það þjónaði ekki heildarhagsmunum Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn, þ.e. haukarnir og hergagnaiðnaðurinn, sáu að með stækkun NATO mundi Bandaríkjamönnum opnast auðveldari aðgangur að ríkjunum í Suður- og Austur-Evrópu en ella væri, og það var markmiðið. Þess vegna mátti Rússland ekki koma með inn í þá mynd sem þarna var, og það var einmitt gott að mati Bandaríkjamanna að stækkun NATO væri knúin fram í þó nokkurri andstöðu við Rússa, ekki of mikilli en þó nokkurri andstöðu.

Nú veit ég að það var búið til bandalag um frið, Partner\-ship for Peace, til að sýnast. Alexander Haig, sá gamli refur, sem ég geri ráð fyrir að hæstv. utanrrh. kannist við, talaði alveg skýrt um þetta enda var hann þá hættur sem forstjóri NATO og hafði málfrelsi. Hann sagði: Rússar mega aldrei fara með í NATO. Þá er tilgangurinn með NATO horfinn. Þá höfum við ekkert með NATO að gera. Við höfum ekkert með NATO að gera á Kyrrahafssvæðinu, í Asíu þegar fjær dregur, það er bara til trafala.

En NATO þjónar enn þá hlutverki í Evrópu ef það er rétt útfært. Og menn þurfa auðvitað að eiga óvin til þess að geta keypt sér vopn og réttlætt það fyrir skattgreiðendum að verja óhemjufjárfúlgum í vígbúnað. Þetta vandamál er vel þekkt og Rússland getur verið ágætt í því sambandi.

Colin Powell ræddi þetta vandamál einu sinni upp úr 1990 á Bandaríkjaþingi og sagði að þetta væri eiginlega að verða ekki nógu gott því að hann væri að verða uppiskroppa með illmenni. Ég er að verða uppiskroppa með illmenni, sagði Colin Powell 1991. Ég er með það á ensku sem hann sagði ef menn vilja frekar fá það á frummálinu: ,,I am running out of demons.`` En það fundust sem betur fer illmenni, óvinir, sem hægt var að selja bandarísku þjóðinni að þyrfti nauðsynlega að vígvæðast gegn. Vandamálið leystist. Saddam Hussein, talíbanar og fleiri slíkir vondir menn hafa sem sagt komið í leitirnar.

Þetta er nú, herra forseti, það sem í raun og veru er að gerast hvað sem líður kurteisislegu minnisblaði frá utanrrn. íslenska til Alþingis og hvað sem líður fallegum ræðum hér hjá formanni utanrmn.

Pólverjar hafa sjálfsagt ekki verið neyddir til að panta 50 háþróuðustu orrustuþotur heimsins en gerðu það samt, eða 48 voru þær kannski. Af einhverjum undarlegum ástæðum eru þeir að baksa við þetta fyrir milljarða á milljarða dollara ofan, og er það bara einhver misskilningur í þeim að þeir þurfi þess? Það mætti ætla af minnisblaðinu og ræðu formanns utanrmn. að þetta sé allt saman vitleysa og misskilningur, þeir þurfi ekkert að standa í þessu. Hvernig stendur þá á því að þetta er svona heiftarlega umdeilt mál í Póllandi, eða búið að vera það, sem og útgjöldin í Tékklandi til þess að uppfylla þær kröfur sem þeir hafa haldið að þeir ættu að gera sem nýir aðilar að Atlantshafsbandalaginu? Ég veit að það eru áhugamenn hér í salnum um þessi flugvélakaup Pólverja. Það er best að rifja aðeins upp þá sögu.

Það er þannig að Pólverjar, sem á sama tíma voru að undirbúa aðild sína að Evrópusambandinu, töldu að þeir yrðu að gera þetta á vestræna vísu og þetta yrði að vera útboð. Já, það eru víst notuð útboð í svona löguðu í þróuðum ríkjum --- líka hér uppi á Íslandi þegar menn selja banka, þá heitir það útboð. Svo hafa sumir efasemdir um að mikill hugur hafi fylgt máli, og það hafa menn líka í Póllandi í ljósi þess hvernig sá leikur fór. Þeir buðu sem sagt út 48, held ég að þær hafi verið, orrustuþotur af háþróuðustu gerð. Þær urðu að uppfylla mjög ströng skilyrði sem slíkar þotur gera, og þær eru ekki margar sem hafa það í færum sínum í dag eftir að Rússar heltust úr lestinni með MIG-þoturnar sínar sem tæpast standast samanburð við það besta sem hergagnaiðnaðurinn á Vesturlöndum býður upp á í dag. Það eru kannski fyrst og fremst þrír framleiðendur sem ráða við að afhenda slíka gripi enda voru það aðeins þrír sem skiluðu inn tilboðum í útboðinu stóra, milljarða dollara útboði Pólverjanna. Það voru að sjálfsögðu Bandaríkjamenn með sínar F-16, það var evrópski flugvélaiðnaðurinn, fransk-breski iðnaðurinn, með tilboð frá verksmiðjunum í Toulouse vætnanlega og það voru Svíar með SAS Gripen vélarnar sínar. Svo merkilega vildi til að Svíarnir buðu best, þ.e. þeir buðu lægsta verðið og þeir buðu mesta stuðninginn með pakkanum. En auðvitað er það ekki þannig að menn borgi bara út í hönd og séu ekki á höttum eftir neinu í staðinn, og Pólverjar voru auðvitað með það í sínu útboði að tekið yrði tillit til allra tengdra þátta, svo sem eins og þess hvaða kjör og hvaða stuðningur fylgdi með í kaupunum. Það var ekkert leyndarmál, og það sáu allir sem báru þessi tilboð saman, að sænska tilboðið var hagstæðast. Það var besta verðið og það var mesti stuðningurinn. Franska tilboðið var næsthagstæðast og það bandaríska óhagstæðast, það var dýrast.

En af einhverjum undarlegum ástæðum, kannski líka fyrir misskilning, keyptu Pólverjar bandarísku vélarnar, dýrustu vélarnar. Það stóð auðvitað aldrei annað til, það vita allir, af því að þetta var allt saman sýndarmennska. Þetta var bara pólitík og hagsmunir. Og það tekur nú í fyrir hið fátæka Pólland, þar sem meðallaun verkamanna eru 7 þús. kr. á mánuði, að kaupa 48 orrustuþotur af háþróuðustu gerð sem kosta ..., ég man nú ekki nákvæmlega í augnablikinu hversu marga milljarða íslenskra króna en örugglega einhvers staðar af stærðargráðunni 10--20. Svona gekk þetta nú í Póllandi.

Í Tékklandi eru útgjöldin vegna endurnýjunar heraflans svo mikil og þung að það hefur valdið þar heiftarlegum deilum. Þegar flóðin miklu skullu þar á, sem einhverjir Íslendingar urðu vitni að í Prag, ákváðu Tékkar að fresta útgjöldum vegna þessa vígbúnaðar. Þeir gerðu sér grein fyrir að þeir réðu ekki við þau. Og þýðir að bera það á borð hér að þetta sé bara einhver misskilningur hjá þessum þjóðum, þær þurfi ekkert að standa í þessu? Nei, ég segi nú bara við formann utanrmn. og höfunda bréfsins: Kunnið þið annan betri? Kunnið þið annan betri brandara handa Steingrími J. Sigfússyni en þann að reyna að bera þetta á borð? Það er auðvitað barnalegt að halda slíku fram.

Það liggur algerlega fyrir um hvað þetta snýst, herra forseti. Þetta er harðskrúfaður bisness sem hergagnaiðnaðurinn vestræni og fyrst og fremst sá bandaríski ætlar sér mikla hluti út á.

Síðan hafa auðvitað komið til stríð sem eru góð fyrir þennan iðnað. Það þarf að fylla á vopnageymslurnar og smíða ný skeyti í stað þeirra sem búið er að láta rigna yfir Afganistan og Írak enda er núna unnið á vöktum í Bandaríkjunum, að sagt er, í ýmsum hergagnaverksmiðjum og þar er uppi gullöld og gleðitíð. Útgjöld til hermála eru meiri en nokkru sinni fyrr í sögunni, Rumsfeld sennilega að sigla inn á fimmta hundrað milljarða dollara. Þá verður nú lítið úr útgjöldunum til utanrrn. íslenska, þykir þó mörgum þar nóg um. Það er lítið borið saman við Rumsfeld sem er með þessa fjármuni handa á milli og þykir auðvitað ekki nóg.

[11:45]

Herra forseti. Ég held að það sé einnig ástæða til að fara aðeins yfir það að þessi stækkun NATO er auðvitað í samhengi við það gerbreytta ástand sem orðið er í alþjóðastjórnmálum og öryggismálum í öllum heiminum en þó kannski ekki síst í heimshluta okkar, og er sumpart gleðilegt. Að sjálfsögðu voru það ákaflega stórir og gleðilegir atburðir þegar hið óhuggulega járntjald og hinar ósýnilegu átakalínur stórveldanna í Norðurhöfum hrundu, hurfu um 1990 og um leið opnaðist fyrir samstarf og samvinnu á pólitískum grundvelli milli þessara landa sem hefur komist á með margvíslegum hætti. Það er t.d. áhugavert að rifja það upp að ástandið var þannig í okkar heimshluta að á öllum kaldastríðstímanum, frá því upp úr lokum seinni heimsstyrjaldar og fram um 1990, var engin alþjóðleg samvinna sem tók til norðursvæða hnattarins. Norðurheimskautssvæðin voru frosin föst í þessari spennu milli tveggja vígvæddra stórvelda sem stóðu grá fyrir járnum hvort frammi fyrir öðru. Ég held ég muni það rétt að það sé aðeins einn alþjóðasamningur, að það sé aðeins ein undantekning til sem sannar þessa reglu og tekur til heimskautasvæðanna, alþjóðasamningur sem komst á og náðist með aðild bæði Sovétríkjanna og Bandaríkjanna á þessum tíma. Það er samningur frá líklega 1971 um verndun ísbjarnarins. Um hann gætu verið áhugamenn hér í salnum. Það er nú skaði að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er ekki við því að hann er mikill ísbjarnaspekúlant. (Gripið fram í.) En það eru örugglega fleiri áhugamenn um ísbirni hér. (Gripið fram í.)

Þetta er auðvitað ánægjulegt. En þetta er, að mér er sagt, eina dæmið um að menn gætu unnið saman að slíkum verkefnum. Þannig var ástandið. Auðvitað losnaði þetta út klakaböndum upp úr 1990 og það var gleðilegt. Menn hafa stofnað Barentsráð og menn hafa stofnað heimskautaráð og gott er það allt saman.

En því miður höfðu þeir betri hlutinn sem ákváðu að viðhalda helmingnum af þessu fyrirkomulagi, NATO. Kaldastríðshaukarnir og hergagnaiðnaðurinn höfðu sitt fram, plötuðu menn upp úr skónum og komu í veg fyrir að hægt væri að endurskapa þessa mynd þannig að hún tæki til álfunnar allrar en ekki bara útvalinna aðila og væri á forsendum sem þjónaði hagsmunum allra en ekki bara sumra. Auðvitað er alveg ljóst að Vestur-Evrópuríkin, sérstaklega Frakkar og Þjóðverjar, vita vel hvernig þessi mál eru í pottinn búin. En þeir eru fangar þessa ástands og fá ekki við neitt ráðið. Þar er auðvitað líka innbyrðis togstreita, t.d. um uppbyggingu evrópska heraflans og fleira í þeim dúr sem ég ætla ekki að fara nánar út í.

Hver er þá staðan núna, herra forseti, og hvernig kemur svo þessi nýja stækkun inn í þetta og hvaða væntingar eru uppi í tengslum við hana? Jú, þetta þjónar að mörgu leyti Bandaríkjamönnum mjög vel vegna þess að þeir eru að nema land í sunnan- og austanverðri álfunni. Bandaríkjamenn eru að koma sér fyrir í þessum löndum og þeir hafa tekið sérstöku ástfóstri við eitt land, Rúmeníu. Það er jafnvel talað um hið nýja ástarsamband Bandaríkjamanna og Rúmeníu.

Nú var það þannig að alveg fram til 11. september 2001 töldu menn tæplega raunhæft að Búlgaría og Rúmenía yrðu með í þessari næstu áformuðu stækkun NATO. Hún snerist meira um Eystrasaltsríkin og Slóvakíu kannski og nokkur önnur lönd. En þetta breyttist hratt á mánuðunum eftir 11. september. Það gerði það m.a. vegna þess að Rúmenar voru ákaflega snöggir til og vottuðu Bandaríkjamönnum hina ýtrustu hollustu í leiðangrinum mikla. Þeir ætluðu svo sannarlega að vera með Bush en ekki á móti honum, en hann greip til þess gamla ráðs að segja: ,,Either you are with us or against us``, annaðhvort ertu bara með mér og hlýðir því sem ég segi eða þú ert óvinur minn og þá skaltu hafa verra af. Rúmenar ætluðu ekki að gera þessi mistök þannig að þeir gengu í sæng með Bandaríkjamönnum að fullu og öllu. Og það tókust með þeim ástir sem leiddu til þess að það lá í loftinu strax í aðdraganda NATO-fundarins í Prag fyrir um ári síðan að Rúmenum yrði boðin aðild, boðin þátttaka í þessari næstu stækkun.

Washington Post, sem ég hef vitnað hér svolítið í, fjallaði m.a. um stöðu mála í Rúmeníu af þessu tilefni í nóvembermánuði 2002. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í Rúmeníu er spillingin landlæg rétt eins og fátæktin. Ráðamenn telja hins vegar að algjör umpólun sé í vændum nú þegar aðild að NATO er innan seilingar. Rúmenar glíma við fátækt, spillingu, óvirkt stjórnmálakerfi, hægfara efnahagsumbætur. Listinn er nánast óendanlegur. En nú hafa Rúmenar komið auga á lækningu við öllum meinum samfélagsins, NATO.``

Eftir að Rúmenar lýstu yfir skilyrðislausum stuðningi við Bandaríkjamenn, eftir að Rúmenar sendu herlið til Afganistan af veikum mætti að vísu og eftir að Rúmenar --- sem kannski er mest um vert --- leyfðu Bandaríkjamönnum að koma upp herstöðvum, nýta sér hernaðaraðstöðu, í landinu og fara um rúmenska lofthelgi þá féll allt í ljúfa löð. Og nú er það að gerast að Bandaríkjamenn eru auðvitað að flytja áherslur sínar til. Þeir áforma að fækka hermönnum í Þýskalandi um 60 þúsund. Þeir hafa þá alla vega nógu marga þar enn þá til þess að geta fækkað þeim svo mikið. Og Ísland kemur auðvitað inn í þessa mynd. Það var hér til umræðu áðan. Það er hluti af þessari gjörbreyttu heimsmynd þar sem Bandaríkjamenn sjá enga þörf og engan tilgang með miklum hernaðarútgjöldum og viðveru hér norður á og vestur á Íslandi, langt, langt frá þeim svæðum sem þeir hafa skilgreint sem vettvang sinn á næstu árum og áratugum.

Hvar er það? Það er í Suðaustur-Evrópu. Það er í Kákasus. Það er í Miðausturlöndum. Það er þar sem olían er. Þangað eru Bandaríkjamenn að flytja herstyrk sinn. Þar er þeirra áhersla. Ég held að hæstv. utanrrh. verði að átta sig á því að þetta eru hinar stóru ástæður þess að Bandaríkjamenn nenntu ekki að standa í því að reka herstöð í Keflavík fyrir fjármuni sem þeir telja miklu meiri þörf fyrir annars staðar af heimspólitískum eða hagsmunaástæðum sínum.

Af því að ég nefni Suðurnesin þá var hæstv. ráðherra að hreyta ónotum hér í menn í lokasvari sínu í utandagskrárumræðu áðan um þetta mál sem varðaði atvinnuástandið á Suðurnesjum vegna samdráttar í bandaríska heraflanum þar. Mér skilst að hæstv. ráðherra hafi sagt að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Samfylkingarinnar töluðum af alvöruleysi eða kæruleysi eða ábyrgðarleysi um atvinnuleysi fólks. Ég mótmæli þeim orðum. Ég ætla ekki að svara fyrir Samfylkinguna. Hún verður að baksa við það sjálf. En ég mótmæli því fyrir mína hönd. Ég tók einmitt skýrt fram í mínu stutta máli hér --- ég talaði í tvær mínútur --- að ég væri að koma af fundi á Suðurnesjum þar sem menn hefðu miklar áhyggjur af ástandinu og ég deildi þeim áhyggjum með mönnum. Af hvaða ástæðum sem menn eru að missa atvinnuna þá eru menn að missa atvinnuna og það er jafntilfinnanlegt fyrir þann sem í hlut á. Ég ætla því að biðja hæstv. utanrrh. að vera ekki með lummur af þessu tagi í minn garð. Menn geta haft sínar hugsjónir og verið á móti hernaðarbrölti en haft samúð með atvinnulausu fólki eftir sem áður þannig að það sé bara algerlega á hreinu, herra forseti.

Þegar við lítum til þeirrar heimsmyndar sem hér hefur verið að skapast, þessa nýja landakorts þar sem átakalínur eða átakafletir liggja þúsundum kílómetra í burtu frá því sem var fyrir tíu til fimmtán árum þá verðum við að viðurkenna að við erum að tala um allt, allt aðrar aðstæður, gjörbreyttar. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og láta eins og ekkert sé. Það er hin eiginlega íhaldssemi dagsins í dag. Það er alveg stórkostleg íhaldssemi, svo ekki sé nú sagt afturhaldssemi, að láta eins og það sé bara hægt að ríghalda í óbreytt ástand þegar þessar miklu breytingar hafa skekið heimsmyndina. Hvort sem við erum nú sátt við það allt eða ekki þá er alveg ljóst að Bandaríkjamenn verða ekkert stöðvaðir, alla vega ekki af Íslendingum og ekki með einu og einu sendibréfi til Washington hvað varðar þeirra vinnu við að endurskipuleggja alla sína framgöngu og áherslur í þessum efnum.

Ég held að eitt af því allra brýnasta, herra forseti, ef menn ætla að ná tökum á friðarmálum í heiminum sé auðvitað að segja vígbúnaðarhyggjunni, segja hergagnaiðnaðinum og hagsmunum hans stríð á hendur ef svo má að orði komast. Það er hægara sagt en gert því að þar eru gríðarlegir hagsmunir á ferð. Það er alveg ljóst að stóru hergagnafyrirtækin eru að mörgu leyti mótorinn, eru gufuvélin sem dregur bandaríska hagkerfið áfram, sem er sumpart miklu ríkisstýrðara og ríkisstyrktara heldur en nokkurt grunar. Framlög bandaríska ríkisins, fyrst og fremst í gegnum varnarmálaráðuneytið, til fyrirtækisins Lockheed Martin ein og sér eru --- nei, það er nú líklega ef við tökum þrjú stærstu hergagnafyrirtækin í Bandaríkjunum, Lockheed Martin, Boeing og Raytheon þá fá þau 30 milljarða dollara á ári í pantanir og rannsóknarstyrki frá bandarískum stjórnvöldum. 30 milljarðar dollara var þessi upphæð í fyrra. Það er meira en bandaríska alríkisstjórnin ver í félagslega aðstoð. Það er hærri fjárhæð en nemur öllum útgjöldum bandarísku alríkisstjórnarinnar til félagslegrar aðstoðar í Bandaríkjunum, þar sem eru þó tugir milljóna manna meira og minna án heilsugæslu og húsnæðis, þar sem líklega um 20--30 milljónir manna lifa undir fátæktarmörkum.

Á þessu verður auðvitað að taka og þessu verður að koma í einhver bönd. Það er eins og hver annar barnaskapur að hjala hér um þetta eins og í ensku teboði væri, að þetta sé bara allt saman einhver vina- og lýðræðisklúbbur. Þarna ráða ískaldir hagsmunir ferðinni.

Menn hafa bundið vonir við það að með því að ná hreyfingu á alþjóðasamning um vopnaviðskipti væri a.m.k. hægt að hemja þessa ófreskju eitthvað, því að Bandaríkjamenn eru þarna náttúrlega langstórtækastir með líklega upp undir 40% markaðshlutdeild í vopnaviðskiptum heimsins. Næstir á eftir þeim, Rússar, Frakkar og aðrir slíkir, eru kannski með innan við 10% hver. Kínverjar hafa dregið mjög úr sínum útflutningi á vopnum á síðustu árum. Stærsti kaupandinn er Tævan að vísu. Spurning er hvort það eigi að teljast til Kína.

Tækist að koma á samningi sem takmarkaði eða bannaði vopnasölu til átakasvæða, til svæða sem væru skilgreind sem líkleg eða möguleg svæði þar sem óstöðugleiki eða hættur gætu stafað af þá væri það skref í rétta átt. Slíkur samningur mundi væntanlega líka geyma kvöð um upplýsingar um vopnaviðskipti þannig að það yrði eitthvað hægt að komast að þeim eins og þau eru í dag. Þau eru miklum leyndarhjúpi hulin, eins og menn vita, ekki bara ólögleg vopnasala og beinlínis smygl á vopnum heldur líka þau sem eiga að heita lögleg og eru á milli stjórnvalda, eru á milli ríkisstjórna. Það dúkkuðu hérna upp nokkrar vélbyssur í Keflavík um daginn. Þær voru á leiðinni yfir hafið með tékkneskri flugvél, var það ekki? Það var eitthvað lítið skráð í farmskýrslur um það, var það ekki? Þær fundust bara af því að verið var að leita að sprengju. Nú hafa þetta sjálfsagt átt að heita ,,lögleg`` vopnaviðskipti. En svona er þetta nú. Hvernig halda menn þá að sé farið með hin dýrari vopnin og háþróaðri eða þegar málin eru viðkvæmari en þetta?

[12:00]

Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu að vísu sem ekki hefur umtalsverðan hergagnaiðnað eins og kunnugt er, hafa sett sér nokkuð strangar reglur um þetta og selja ekki vopn til átakasvæða. En vandamálið þar er kannski að vopnin hafa tilhneigingu til þess að fara um umskipunarhöfn, þau skreppa kannski til Bandaríkjanna og halda síðan þaðan áfram til Ísraels. Svíar, Norðmenn og Danir a.m.k. heimila ekki vopnasölu til Ísraels en sitja uppi með það engu að síður að hlutar í stærri, samsettum vopnum, sem notuð eru hjá ísraelska hernum þegar þeir eru að berja á Palestínumönnum eru ættuð af þessum slóðum og hafa þá gjarnan haft millilendingu í Bandaríkjunum. Menn hafa sem sagt bundið vonir við það, herra forseti, að með því að ná fram stórum, alþjóðlegum samningi, sem margir vilja að verði næsti stóri samningurinn af þessum toga á eftir jarðsprengjusamningnum, takist að koma einhverjum böndum á þessa ófreskju hergagnaiðnaðarins, sem drífur þetta meira og minna áfram, ekki lýðræðisást, ekki væntumþykja við Rúmena, þó að hún kunni að vera mikil og ósvikin.

Það væri nær, herra forseti, að heimsbyggðin væri að fjalla um þá hluti núna heldur en þetta sem hér er á dagskrá, því miður. Það er ekki jákvætt innlegg í þá endurskipulagningu öryggismála í heiminum sem þarf að eiga sér stað, bæði svæðisbundin og á hnattræna vísu, þar á meðal endurskipulagningu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, sem er vissulega mjög brýn. En stækkun NATO með þessum aðferðum er ekki jákvætt innlegg í það mál, þvert á móti. Endurskipulagningu öryggisráðsins þyrfti einmitt að tengjast því að hernaðarbandalög yrðu lögð niður. Það gerist auðvitað ekki í einu vetfangi. Það þyrfti að tengjast því að öryggisráðið fengi sínar eigin sveitir. Öryggisráðið mun aldrei ná þeirri þyngd sem framkvæmdastofnun öryggisgæslu í heiminum, sem það þarf, fyrr en það fær sínar eigin fjölþjóðlegu sveitir, hefur fjárhagslegt sjálfstæði og eigin sveitir til að senda til gæslu, helst áður en átök hafa brotist út á svæðum þar sem staðan er viðkvæm. Þær sveitir þurfa að sjálfsögðu að vera fjölþjóðlegar, fjölmenningarlegar, þannig að inn á þessi svæði fari fulltrúar allra menningarheima, -hópa og kynþátta. Eitt af vandamálunum í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu er auðvitað hin mikla spenna milli hinna ólíku trúarhópa og þjóðernisbrota eða þjóða sem þar eru. Sá vandi hefur brunnið á mönnum þegar þangað hafa verið sendar sveitir að það gætir ætíð tilhneigingar til að líta fyrst á það hvaðan þær koma. Eru þær vestur-evrópskar eða eru þær slavneskar? Eru þær kristnar eða eru þær múhameðstrúar? Eru þær með okkur eða á móti okkur? Þessari upplifun er helst hægt að útrýma með því að sveitirnar séu fjölþjóðlegar, fjölmenningarlegar, fjöltrúarbragðalegar, af öllum kynþáttum. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema menn komi slíkum sveitum á fót í nafni alþjóðastofnana eða svæðisstofnana eins og ÖSE og öryggisráðsins.

Slíkar breytingar í heiminum ásamt alþjóðasamningi um vopnaviðskipti og þeirri reglu sem mjög margir tengja við slíkar hugmyndir, að að einhverjum aðlögunartíma liðnum verði alheimsreglan sú að ríki hafi ekki heimild til að halda her á yfirráðasvæði annarra þjóða, erlendar herstöðvar verði bannaðar. Þetta er kannski mjög útópískt í eyrum manna en það er nú bara þannig að þessa hugsun hugsa þúsundir manna um allan heim, stofnanir sem eru að reyna að kortleggja stöðuna og spá í spilin varðandi framtíðina í öryggismálum. Menn láta það sem betur fer eftir sér að leggja plön og velta vöngum yfir mögulegum lausnum sem losa menn út úr því öngstræti sem málin eru í í dag með öllum sínum styrjaldarbálum. Þá sjá menn gjarnan fyrir sér að þetta muni gerast svona.

Það kæmi auðvitað fyrst og fremst við eina þjóð, Bandaríkin. Bandaríkjamenn eru núna með herstöðvar í 130 löndum og þeim fjölgar ört þessi missirin. Þær eru að bætast við í Kákasuslýðveldunum, í Suðaustur-Evrópu og í Miðausturlöndum víða. Hvað ætli verði margar skildar eftir í Írak, þegar eða ef Bandaríkjamenn fara þaðan einhvern tíma? Ég hef nú ekki hatt til að lofa að éta en mikið skyldi ég gera það með glöðu geði ef svo ólíklega vildi til að Bandaríkjamenn færu með allt sitt hafurtask og herinn þar með frá Írak í fyrirsjáanlegri framtíð. Ég hef ekki mikla trú á því. Ætli það verði ekki tekið frá land undir allnokkrar herstöðvar þó ekki væri nema til að passa upp á hagsmuni olíufyrirtækjanna frá Texas? Því hef ég trú á.

Herra forseti. Mér fannst ástæða til að fara hér í svolitlar almennar umræður um stöðu þessara mála eins og þær koma mér fyrir sjónir, m.a. og sérstaklega í tengslum við það að niðurstaða okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er sú að við styðjum ekki stækkun NATO. Við erum eindregið þeirrar skoðunar að það sé ekki heillaspor að framlengja lífdaga þessa hernaðarbandalags, það sé feilnóta í þeim sinfóníum sem þyrfti að slá í heiminum ef vonir eiga að vera um að einhvern tíma í fyrirsjáanlegri framtíð blási til betri tíðar í sambandi við frið, stöðugleika og öryggi í heiminum. Það gerir það ekki í dag, því miður. Við erum því miður að miklu meira leyti að fara í öfuga átt í þeim efnum þó að við getum að vísu glaðst yfir því að hér í okkar nánasta heimshluta hafi hlutirnir breyst til bóta. En það þýðir ekki að sú skipan sem er að komast á í heimsmálunum sem slíkum sé gæfuleg. Hún er það ekki. Heiftin og andúðin og hatrið á Bandaríkjamönnum er að verða að sjálfstæðu áhyggjuefni um allan heim. ,,Vinsældir Bandaríkjamanna`` hafa hrunið í tengslum við framgöngu þeirra sl. missiri. Það hefur kannski ekki verið gerð á því könnun hér á Íslandi en nánast í flestöllum Evrópulöndum og Vestur-Evrópulöndum hefur þetta verið mælt og meiri hluti hugsandi fólks á meginlandi Evrópu er þeirrar skoðunar að Bandaríkjamenn séu mesta ógnin við heimsfriðinn, meiri hluti Þjóðverja, meiri hluti Frakka. Þetta hefur gjörbreyst á nokkrum missirum í ljósi þess yfirgangs sem unipolar-heimsmyndin með yfirgangi Bandaríkjamanna hefur skapað.

Auðvitað grátum við ekki ógnarjafnvægi kaldastríðstímans. Það var skelfilegt. En við neyðumst til að velta því fyrir okkur hvort jafnvel það hafi verið skárra en sú heimsmynd sem við blasir í dag, að eitt yfirgangssinnað heimsveldi ráði lögum og lofum og geri það sem því sýnist, ýti alþjóðastofnunum og þjóðaréttinum til hliðar þegar þeim hentar og fari um heiminn með báli og brandi, skeki vopnin framan í þjóðir og setji þeim skilmála, annars verði ráðist á þá. Menn vita orðið af reynslunni að þá þýðir ekkert að bera fyrir sig alþjóðalög, það þýðir ekkert að bera það fyrir sig að slíkt sé óheimilt nema með samþykki öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er ekkert gefið fyrir það. Þetta er ekki gæfulegt, langt því frá, og allra síst fyrir smáþjóðir sem aldrei munu hafa hernaðarlegt bolmagn til þess að fá rönd við reist og eiga auðvitað ekkert að reyna það.

Það eru ekki síst smærri þjóðirnar sem eiga að vinna ötullega að því að brjóta upp þessa skipan og koma á lýðræðislega uppbyggðri öryggisgæslu, svæðisbundinni og hnattrænni. Það er eina framtíðarlausnin, að byggja á grundvallarreglum réttarríkisins og lýðræðislegum ákvörðunum. Það er eina skipan mála sem við getum nokkurn tíma sætt okkur við. Ef við beygjum okkur undir hnefaréttinn og vöðvaaflið erum við að kalla yfir okkur frumskóg, frumskógarlögmál í öryggislegu tilliti í heiminum. Það getum við ekki og það megum við ekki.

NATO með sinni kaldastríðsarfleifð og áskilnaði um að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði í átökum er auðvitað hluti af því, herra forseti, og upp á slíkt mun ég aldrei skrifa.