Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:19:01 (2292)

2003-11-28 12:19:01# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Samf. styður þá till. til þál. sem hér er til síðari umræðu.

Ég rifja það upp að ekki alls fyrir löngu leitaði ég svara hjá hæstv. forsrh., sem gegndi þá störfum utanrrh. í fjarveru hæstv. utanrrh., og innti eftir því hvort von væri á þeirri till. til þál. sem hér er til lokaafgreiðslu. Ég lýsti þá þeim vilja mínum að það væri mikilvægt að Alþingi Íslendinga léti ekki dragast að staðfesta þá sjö viðbótarsamninga til stækkunar á NATO sem hér um ræðir, þ.e. að tryggja aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Það er fagnaðarefni að við skulum hér vera að ganga frá þeim málum. Fjölmörg NATO-ríki, og velflest raunar, hafa nú þegar gert það, önnur eru í lokaferli í þeim efnum.

Það er ósköp einfalt mál að minni hyggju sem hér er á ferðinni. Við jafnaðarmenn einfaldlega virðum sjálfsforræði þjóða og virðum þann vilja sem er algerlega skýr af hálfu þeirra ríkja sem hér um ræðir og raunar miklu fleiri sem hafa í vaxandi mæli óskað eftir að komast undir þessa regnhlíf sem Atlantshafsbandalagið er. Því finnst mér satt að segja dálítið undarlegt þegar talsmaður Vinstri grænna kemur hér og gerir að minni hyggju lítið úr því að vinaþjóðir okkar, til að mynda í Eystrasaltslöndunum, hafa um það tekið ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu að sækjast eftir aðild að NATO. Mér finnst skjóta skökku við að þá skuli forsvarsmenn Vinstri grænna hér heima á Íslandi leggjast eindregið gegn þessum þjóðarvilja þar eystra. Við vitum auðvitað öll hvað að baki lá, m.a. af hálfu þessara þjóða í Eystrasaltslöndunum, það var auðvitað að losa sig undan ægivaldi Rússanna. Ég hefði viljað trúa því að þessi flokkur væri áfram um það að ríki heimsins, ríki Evrópu, fengju einhverju um það ráðið sjálf hvar þau hefðu sína vist. Mér kemur það afskaplega á óvart að hann tali fyrir því hér uppi á Íslandi að leggjast gegn því að þessar nýfrjálsu þjóðir fái tækifæri og ráðrúm til þess að ráða örlögum sínum sjálfar. En það er auðvitað önnur saga.

Við jafnaðarmenn viljum virða þennan rétt. Það er augljóst mál að við lifum nú í breyttum heimi. Kalda stríðið er að baki og þjóðir Stór-Evrópu hafa áttað sig á mikilvægi þess að þær eigi heima allar undir hinni sömu regnhlíf þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Það er ekki eingöngu um að ræða þessar sjö þjóðir sem við erum nú að staðfesta að verði aðilar að Atlantshafsbandalaginu, þær eru auðvitað miklu fleiri. Menn þekkja það að Makedónía, Króatía, Albanía og jafnvel Serbía hafa lýst yfir áhuga á viðræðum um möguleika á aðild. Georgía, sem hefur verið mikið í fréttum, hefur einnig ámálgað það.

Ég lýsti því í umræðu um utanríkismál á dögunum og fór aðeins yfir það hvernig þróun mála hefði verið á vettvangi þingmannasambands NATO-ríkja þar sem 46 þjóðir sitja nú fundinn. Þar er um að ræða NATO-þjóðirnar, hinar nýju NATO-þjóðir, og síðan óbeina aðila að þessum samtökum og áheyrnarfulltrúa. Það eru 46 þjóðir Evrópu og heimsins sem sitja þessa fundi þannig að það er augljóst mál að það er vilji þessara þjóða að taka þátt í þessu samstarfi, þessum viðræðum, á jafnréttisgrundvelli og mér þykir skjóta skökku við ef hjáróma röddum héðan af Íslandi finnst eitthvað athugavert við þær.

Á þessum vettvangi þingmannasambandsins er að finna þjóðir á borð við Moldavíu, Aserbaídsjan og Armeníu. Þetta er m.a. vettvangur þar sem þessar stríðandi þjóðir Asera og Armeníumanna koma saman og eiga orðastað hver við aðra, að ógleymdu auðvitað Rússlandi og Úkraínu. Mér þykir þessi þróun öll á hinn rétta veg og vil styðja við hana. Ég fagna því alveg sérstaklega ef margar þessara nýfrjálsu þjóða, sem bjuggu á árum áður við ok kommúnismans, vilja losa þau vistarbönd og taka með lýðræðislegum hætti ákvörðun um að skipa sér í raðir vestrænna ríkja, og þá undir regnhlíf NATO-ríkja.

Ég hef svo sem ekki margt um þetta mál að segja, virðulegi forseti. Við ræddum allítarlega í utanríkisumræðu um daginn um stöðu og hlutverk NATO. Um það má margt segja. Ýmsum spurningum er þar ósvarað, því er ekkert að leyna. NATO hefur verið í örri þróun og þar hafa orðið miklar breytingar sem eru ekki endanlega til lykta leiddar. Ég velti upp ýmsum spurningum í því sambandi, til að mynda sambandi Evrópuríkja innan NATO og ríkja Vesturheims, Bandaríkjanna og Kanada, hvernig þau mál mundu öll þróast. Það er ýmislegt óljóst í þeim efnum og aðkoma og innkoma Evópuhraðliðsins er auðvitað stórt spurningarmerki í því hvernig verkaskiptingu muni verða háttað í þeim efnum. Það eru eins og ég segi margar spurningar uppi en kannski fáum enn þá svarað. Það skiptir miklu hver þróun þeirra mála verður fyrir okkur Íslendinga sem erum mitt í miðju, milli Vesturheims og Evrópuríkja, og hvernig við lendum í þeirri þróun mála er ófyrirséð enn þá og við þurfum að fylgjast þar mjög grannt með.

Í því samhengi og í beinu framhaldi hafa menn rætt það fram og til baka hvar og hvenær NATO eigi að bregðast við ófriði og erfiðleikum utan svæðis og í hvaða tilfellum það eigi að vera Evrópuliðið, Evrópusambandið, í hvaða tilfellum eru það Sameinuðu þjóðirnar, í hvaða tilfellum er það undir merkjum NATO? Þetta er allt enn þá í ákveðnu þróunarferli og við verðum að fylgjast grannt með, eins og ég sagði, hvernig þau mál ganga fram.

Allt að einu er þessi tillaga afskaplega skýr. Við einfaldlega styðjum það að efla NATO í glænýju hlutverki. Í glænýju hlutverki, segi ég, því að ég rifjaði það upp líka hér við umræðu um utanríkismál að NATO hefur í vaxandi mæli, ekki síst á vettvangi þingmannasambandsins, gaumgæft ýmsa aðra þætti en hin hefðbundnu varnar- og öryggismál, og líka skoðað mannréttindamál og þróun þeirra, svo sem eins og stöðu mannréttinda og lýðræðis innan NATO-ríkja og innan svæðis, og utan raunar, og gert það í góðu samstarfi við viðkomandi ríki. Ég nefndi hér til sögunnar ríki Balkanskaga, en sendinefndir frá þingmannasamtökum NATO hafa verið á ferðinni þar eystra oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og rætt við hlutaðeigandi yfirvöld um stöðu lýðréttinda og mannréttinda, reynt að stemma stigu við mansali, við óheftu streymi fólks þar austur frá vestur um, við ýmsu því sem þessi ríki sem eru núna loksins að losna undan oki kommúnismans hafa átt við að stríða. Þetta nýja hlutverk NATO kallar á ýmsar breytingar, bæði á hugarfari og vinnubrögðum, og það er vel. Ég held að okkur miði hægt og bítandi í rétta átt í þeim efnum.

En þetta mál styðjum við, herra forseti. Við jafnaðarmenn viljum virða sjálfsákvörðunarrétt ríkja heimsins, sjálfsákvörðunarrétt þeirra ríkja sem hér eru að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið.