Viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:35:04 (2297)

2003-11-28 12:35:04# 130. lþ. 38.1 fundur 249. mál: #A viðbótarsamningar við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., SKK
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:35]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar till. til þál. um staðfestingu sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Rúmeníu, Slóvakíu og Slóveníu. Tillagan gengur út á það, eins og þar segir, að lagt er til að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd sjö viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn.

Ég ætla ekkert að fara í grafgötur með það að ég styð þessa þáltill. enda tel ég það skref sem hér er verið að stíga mjög þarft og virðingarvert og til framdráttar fyrir þróun friðar og öryggis í álfunni. Ekki síður tel ég að stækkun NATO og þetta skref sem hér er lagt til sé mikilvægur þáttur í eflingu lýðræðis í þeim löndum sem tillagan snýr að.

Öll þau ríki sem hér um ræðir hafa frá árinu 1999 tekið þátt í svonefndri aðgerðaráætlun bandalagsins til undirbúnings aðildar ásamt Albaníu og Makedóníu og á árinu 2002 bættist Króatía í hóp þessara umsóknarríkja. Aðgerðaráætlunin miðar að því að aðstoða umsóknarríkin við undirbúning aðildar.

Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að þessi sjö ríki hafa öll óskað eindregið eftir aðild að Atlantshafsbandalaginu og hafa lagt áherslu á að það sé mikill þáttur í eflingu lýðræðisferlisins í þessum hluta Evrópu. Það er sómi að því af okkar hálfu að staðfesta viðbótarsamningana við Norður-Atlantshafssamninginn. En það væri aftur á móti enginn sómi að því að sitja þar hjá eða ætla sér ekki að staðfesta þessa samninga vegna þess að það er alveg kýrskýr vilji þeirra þjóða sem hér um ræðir að þau vilja ganga til liðs við þetta bandalag. Það væri enginn sómi að því fyrir okkur, hvorki á alþjóðavettvangi né gagnvart þessum ríkjum að ætla okkur að standa því í vegi að þau gætu orðið hluti af þessu bandalagi.

Ég gerði fyrir fram ráð fyrir að allir hér á hinu háa Alþingi gætu sameinast um að veita ríkisstjórninni heimild til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd þessa samninga. En þá er hér dreift nefndaráliti frá minni hluta utanrmn. sem samanstendur af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og þar kveður nú aldeilis við annan tón. Þingmaðurinn er sömuleiðis búinn að gera grein fyrir áliti sínu í langri ræðu þar sem víða var komið við og reyndar víðar kannski heldur en tilefni var til vegna þess að hv. þm. fléttaði inn í ræðu sína umræðu um hina og þessa hauka og hið nýja ástarsamband Bandaríkjanna við Rúmeníu sem hann kallar svo. Nýfrjálshyggjuna bar á góma einnig í ræðunni. Þar var í sjálfu sér ágætt. Þingmaðurinn telur að henni tengist allt. Svo að ég skjóti því inn í þá hef ég reyndar aldrei fengið útskýringu á því frá hv. þm. hver munurinn á frjálshyggju og nýfrjálshyggju er. Það væri kannski ágætt að fá í eitt skipti fyrir öll útskýringu hjá honum á því hver munurinn á þessu er.

En það þarf í sjálfu sér kannski ekkert að koma á óvart að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Vinstri hreyfingin -- grænt framboð ætli ekki að leggja lóð sitt á vogarskálarnar og heimila ríkisstjórninni að staðfesta þessa samninga. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur alla tíð verið á móti Atlantshafsbandalaginu og viljað leggja það niður. Hann hefur talað gegn því bandalagi allt frá upphafi, hygg ég, síns stjórnmálaferils. Ég er alla vega illa svikinn, herra forseti, ef hv. þm. hefur ekki undirstrikað þær skoðanir sínar með því að þramma prúðbúinn og jafnvel bísperrtur milli Keflavíkur og Reykjavíkur, ekki einu sinni eða tvisvar, heldur margoft. (Gripið fram í.) Tvisvar líklega. Það er ágætt að það er upplýst.

Í þessu ágæta áliti minni hlutans segir, með leyfi forseta:

,,Minni hlutinn getur því ekki fallist á að það sé jákvætt skref í þróun öryggismála í heiminum að framlengja lífdaga hernaðarbandalagsins NATO. Þvert á móti beri að vinna að því að leggja hernaðarbandalög niður ... Stækkun NATO sem slík er ekki jákvætt innlegg í þá þróun sem vænlegast væri að vinna að á sviði öryggisgæslumála í Evrópu sem og í heiminum öllum.``

Það má vel vera að hv. þm. sé þessarar skoðunar. En það er nú samt sem áður þannig að þau ríki sem hér um ræðir eru hins vegar þeirrar skoðunar að aðild þeirra að Atlantshafsbandalaginu sé einmitt mjög mikilvægur þáttur í eflingu lýðræðisfrelsisins í þessum hluta Evrópu. Því hafa þessi ríki óskað eftir því að þessi tiltekni viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn verði staðfestur.

Ég get tekið heils hugar undir orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um að virða beri sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða hvað þetta mál varðar. En það er engin spurning um það að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er því ekki sammála. Hann víkur reyndar að því í nefndaráliti sínu að það beri að hafa í huga það sjónarmið að virða sjálfsákvörðunarrétt þessara þjóða. En ég lýsi furðu minni á því hvers vegna í ósköpunum hann stendur þá ekki við þessi stóru orð sem fram koma í nefndarálitinu og styður þennan eindregna vilja þessara þjóða til að ná fram því markmiði sínu að ganga til samstarfs við Atlantshafsbandalagið og þá að styðja þessa þáltill. Ég skil ekki hvernig hv. þm. getur og telur sig þess umkominn að koma hingað upp, leggja fram þetta nefndarálit sitt og ganga með því gegn vilja stjórnvalda í sjö lýðveldum til þess að stíga skrefið í átt að Atlantshafsbandalaginu.