Evrópska efnahagssvæðið

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 12:56:30 (2304)

2003-11-28 12:56:30# 130. lþ. 38.3 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[12:56]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Örstutt. Ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram og samkomulag er í höfn milli EES-ríkjanna og Evrópusambandsins. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á gerðist það ekki þrautalaust og mörg ljón voru í veginum, sum hver fyrirséð, önnur ófyrirséð. Auðvitað koma þær hugsanir upp hvað framtíðin beri í skauti sér í þessum efnum, hver virkur líftími EES-samningsins getur í raun orðið í síbreytilegri Evrópu og síbreytilegu Evrópusambandi. Þessir þankar hafa auðvitað oft verið ræddir á hinu háa Alþingi og munu verða það áfram. En allt að einu vil ég eindregið fagna því að við höfum getað náð að framlengja líftíma EES-samningsins og gera hann virkan gagnvart nýjum ríkjum Evrópusambandsins og gagnvart nýju Evrópusambandi eins og hér um ræðir, og vil þakka atbeina hæstv. utanrrh. í þeim efnum.

Utanrmn., þar sem ég á sæti, mun síðan auðvitað fara ítarlega yfir einstök atriði þessa samnings og mun ég fara nánar yfir efnisatriði hans við 2. umr. málsins.