Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 13:32:54 (2307)

2003-11-28 13:32:54# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 kemur nú til 3. umr. á Alþingi eftir lokaafgreiðslu málsins í fjárln.

Fyrir lokaafgreiðslu málsins hefur nefndin m.a. leitað skýringa hjá fjmrn. og öðrum ráðuneytum varðandi óskir um auknar fjárheimildir. Meiri hluti fjárlaganefndar gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta. Þá eru lagðar til 14 breytingartillögur sem samtals nema 447,9 millj. kr. til hækkunar. Jafnframt eru gerðar breytingar á 3. og 4. gr. frumvarpsins.

Mun ég nú í grófum dráttum greina frá helstu brtt. en vísa að öðru leyti í þingskjöl þar sem gerð er grein fyrir brtt. og skýringum á þeim í nál.

Lagt er til að tekjur í A-hluta fjárlaga ársins hækki um 6.388,6 millj. kr. Vegur þar mest hækkun á tekjum, arðgreiðslum og leigutekjum að fjárhæð 2,1 milljarður kr.

Varðandi B-hluta er lagt til að fjárheimild forsrn. verði aukin um 8 millj. kr. sem ætlað er að jafna út halla fyrri ára hjá fasteignum ráðuneytisins.

Gerð er tillaga um að fjárheimild menntmrn. verði aukin um 97,9 millj. kr. Þar er m.a. um að ræða framlög til safnamála og þá er tillaga um 56,1 millj. kr. fjárheimild til að fjármagna hlut ríkissjóðs vegna lífeyrisuppbóta til fyrrverandi starfsmanna Sinfóníuhljómsveitarinnar sem taka lífeyri samkvæmt eftirmannsreglu B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Tillaga er um framlög til uppbyggingar íþróttamannvirkja á Ísafirði og Sauðárkróki vegna landsmóta UMFÍ.

Þá er tillaga um lokaframlag til Lagnakerfamiðstöðvar Íslands til að fjármagna verkefni á hennar vegum.

Tillaga er um 14 millj. kr. fjárheimild til sjútvrn. til að fjármagna ýmis verkefni sem unnið hefur verið að.

Lagt er til að fjárheimild félmrn. verði aukin um 415 millj. kr. Annars vegar er um að ræða 400 millj. kr. fjárveitingu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að koma til móts við vanda tekjulægri sveitarfélaga á landsbyggðinni. Þessum fjármunum verður ráðstafað eftir nánari reglum sem félmrh. setur í samráði við ráðgjafarnefnd sjóðsins. Með þessu framlagi er komið til móts við rekstrarvanda sem fjölmörg sveitarfélög hafa greint frá vegna þessa árs. Gert er ráð fyrir að framlagi þessu verði annars vegar ráðstafað til útgjaldajöfnunarframlaga til sveitarfélaga og hins vegar til sveitarfélaga þar sem íbúafækkun hefur orðið á árunum 2001--2003.

Hins vegar er gerð tillaga um 15 millj. kr. framlag til að framlengja starfsmenntunarátak fólks á almennum vinnumarkaði. Átakinu á að ljúka nú á haustdögum en vegna góðrar reynslu og mikillar þátttöku er lagt til að það verði framlengt.

Gerð er tillaga um 100 millj. kr. hækkun á fjárheimild heilbr.- og trmrn. Annars vegar er 50 millj. kr. hækkun á óskiptu framlagi til reksturs sjúkrahúsa en jafnframt eru millifærðar 45 millj. kr. á Reykjalund í Mosfellsbæ. Hins vegar er lagt til 50 millj. kr. framlag vegna flutnings heilsugæslustöðvar í Kópavogi.

Lagt er til að fjárheimild fjmrn. verði lækkuð um 247,5 millj. kr. Í forsendum fjárlagaársins er ekki spáð fyrir um þróun á gengi gjaldmiðla heldur var miðað við gengi þeirra í byrjun september 2002. Talsverð styrking hefur orðið á gengi krónunnar gagnvart dollar og jeni frá forsendum fjárlaga en það leiðir til lækkunar á útgjöldum fjárlagaliða sem tengjast þessum gjaldmiðlum. Í samræmi við endurmat á þessum forsendum er gert ráð fyrir að fjárheimildir viðkomandi fjárlagaliða verði lækkaðar sem nemur alls 247,5 millj. kr. Gerð er tillaga um þessar breytingar í einu lagi undir launa- og verðlagsmálalið fjárlaga í frv. en sundurliðun á einstök viðfangsefni er sýnd í sérstöku yfirliti III með brtt. meiri hlutans.

Gerð er tillaga um að fjárheimild iðnrn. verði aukin um 50 millj. kr. og að þessi heimild renni til frekari rannsókna á sviði orkumála. Annars vegar er um að ræða 30 millj. kr. vegna rammaáætlunar og hins vegar 20 millj. kr. til vetnisrannsókna.

Lagt er til að fjárheimild Hagstofunnar verði aukin um 10,5 millj. kr. til að mæta tekjutapi við flutning fyrirtækjaskrár til ríkisskattstjóra. Í útfærslu málsins við 2. umr. láðist að taka tillit til hluta þeirra tekna sem Hagstofan verður af og er lagt til að úr því verði bætt með framlagi úr ríkissjóði.

Varðandi 3. gr. er lagt til að ríkissjóður taki 24,3 milljarða kr. lán á árinu í stað áætlana um 21,6 milljarða kr. lántöku í frv. Lánsfjárráðstafanir ríkissjóðs hafa verið endurskoðaðar í ljósi þróunarinnar á árinu og þeirra breytinga sem gerðar voru á frv. við 2. umr.

Gerð er tillaga í b-lið um hækkun lánsfjárheimilda vegna aukinnar útgáfu húsbréfa umfram það sem áætlað var í frumvarpinu. Afgreiðsla húsbréfalána hefur aukist mjög á árinu og ekki eru horfur á að dragi verulega úr eftirspurn eftir lánum það sem eftir lifir ársins.

Í c-lið er gerð tillaga um auknar heimildir vegna almennra leiguíbúða. Afgreidd lán til leiguíbúða eru meiri en áætlað var þar sem framkvæmdatími er styttri en gert var ráð fyrir. Því verður lokið við fleiri íbúðir á árinu, en lánin eru veitt út á fullgerðar íbúðir.

Í samræmi við tillögu á þskj. 490, um að Rafmagnsveitum ríkisins verði heimilt að ganga til samninga um kaup á Hitaveitu Dalabyggðar, er lagt til að lánsfjárheimild fyrirtækisins í fjárlögum fyrir árið 2003 hækki um 145 millj. kr. og verði 645 millj. kr.

Með brtt. meiri hlutans fylgja sérstök yfirlit. Á yfirliti I kemur fram skipting á óskiptri fjárheimild, 150 millj. kr. Þeirri fjárhæð er skipt á sjúkrasvið 15 heilbrigðisstofnana.

Á sérstöku yfirliti II er gerð grein fyrir skiptingu á óskiptri fjárhæð, 280,5 millj. kr., vegna mats á úrskurði kjaranefndar um greiðslur fyrir vottorð og gjaldskrárverk heilsugæslulækna. Þessari fjárheimild er skipt á heilsugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir.

Á sérstöku yfirliti III er skipt á viðfangsefni lækkun fjárheimilda sem nemur 247,5 millj. kr. vegna endurmats á forsendum fjárlaga um gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir brtt. meiri hluta fjárln. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003. Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Að áliti meiri hluta fjárln. standa auk mín hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, Drífa Hjartardóttir, Bjarni Benediktsson, Birkir J. Jónsson og Arnbjörg Sveinsdóttir.

Fjárlög fyrir árið 2003 gerðu ráð fyrir að tekjujöfnuður yrði um 11,5 milljarðar kr. Að teknu tilliti til fjáraukalaga sem samþykkt voru sl. vor, breytinga við afgreiðslu brtt. við fyrirliggjandi frv. til fjáraukalaga eftir 2. umr. þann 18. nóv. sl. og þeirra tillagna sem nú liggja fyrir frá meiri hluta fjárln. er tekjujöfnuður áætlaður um 6,2 milljarðar kr. árið 2003.