Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:11:17 (2322)

2003-11-28 16:11:17# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. skuli hlusta á gagnrýnisraddir og viðurkenna að það þurfi að bæta og styrkja aðhaldið í ríkisfjármálunum. Ég get tekið undir það með ráðherranum að það má út af fyrir sig færa rök fyrir því að þá 4,6 milljarða sem ákveðið var að setja í flýtiframkvæmdir megi draga frá 17,3 milljörðunum til að gæta fullrar sanngirni og við séum því að tala hér um 12,6 milljarða því að 4,7 voru það nú víst sem fóru í flýtiframkvæmdirnar.

En ég vil spyrja ráðherrann hvort það sé ekki alveg öruggt að 12,6 milljarðar á fjáraukalögum sé Íslandsmet, séu hæstu fjáraukalög sem hér hafa verið lögð fram. Ég er einmitt nýr hér og þekki svo sem ekki dæmin nægilega vel. Ég minni á að frá því að fjáraukalögin síðast voru samþykkt upp á um 10 milljarða bættust við 25 milljarðar yfir í ríkisreikninginn þannig að það er þá eitthvað á fjórða tug milljarða frá framlögðu fjárlagafrv. til lokaniðurstöðu. Og ég spyr ráðherra hvort það sé ekki líka Íslandsmet.

Þegar hann segir að þetta sé ekki óhófleg framúrkeyrsla hljótum við að spyrja í ljósi þess þensluástands sem við erum að fara inn í hvort þetta sé sú framúrkeyrsla sem menn megi búast við á næstu árum, eða hvaða skekkjumörk fjmrh. telji viðunandi á þessum þensluárum, 2004--2006. Eru það 2%, svona 5 milljarðar, eða finnast honum 10 milljarðar allt í lagi eða hvert er markmið hans? Hvernig fjáraukalög ætlar hann að koma með næstu þrjú ár?