Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:13:02 (2323)

2003-11-28 16:13:02# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að hv. þm. viti það sjálfur að það er ekki hægt að setja nein mörk í þessu efni og Íslandsmet í þessum hlutum þekki ég ekki.

Ef dregin eru frá framkvæmda- eða átaksverkefnin í fyrri fjáraukalögum þessa árs og öryrkjadómurinn erum við að tala um 11 milljarða eins og ég sagði, það eru u.þ.b. 4% af upphaflegum fjárlögum ársins. Auðvitað er það of mikið. En á því eru haldbærar skýringar í langflestum tilvikum þannig að um það er ekki að fást.

Hins vegar kom fram í máli þingmannsins þessi misskilningur, sem ég leyfi mér að kalla, þar sem lagðar eru að jöfnu gjaldfærslur vegna lífeyrisskuldbindinga og afskrifta skattkrafna, sem ekki eru útgjöld. Hann leggur það að jöfnu við aðra hluti sem við erum hér að fást við en það er fyrst og fremst uppgjörsmál. Menn geta síðan gert sig breiða hér og talað um 25 milljarða ef þeir vilja en þar er bara verið að tala um annað fyrirbæri, eins og ég hygg að flestum sé ljóst.