Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:16:16 (2325)

2003-11-28 16:16:16# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Frú forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu þannig að ég ætlaði að nota tækifærið og þakka sérstaklega hæstv. fjmrh. fyrir góðar undirtektir varðandi það að við endurskoðuðum öll vinnubrögð í fjárlagaferlinu. Ég lít svo á að þetta sé yfirlýsing frá hæstv. fjmrh. um að hann muni beita sér fyrir því að það verði taktur í þessari endurskoðun, að það verði ekki bara fjárln. heldur verði það raunverulega hinum megin við líka, þ.e. hjá framkvæmdarvaldinu, og að við reynum að setja þetta í meiri takt en því miður verður að segjast um vinnu bæði við fjáraukalögin núna og fjárlögin. Ég horfi björtum augum til framtíðarinnar hvað það varðar.

Frú forseti. Ég held engu að síður að nauðsynlegt sé að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé mat hans að þau skrif sem áttu sér stað á vefriti fjmrn. í gær hafi verið heppileg inn í þá umræðu að við ætluðum okkur hér, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, að stíga í takt inn í þessa endurskoðun, hvort þarna hafi ekki verið að bæta frekar í eldana heldur en að reyna að slökkva þá. Þar var auðvitað stigið skref sem --- já, ég verð að segja það, frú forseti --- var býsna óvænt úr þessari átt á þessum tímapunkti. Þess vegna held ég að það sé líka nauðsynlegt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki farið örlítið yfir þetta mál með þeim starfsmanni sem hélt þar á penna.