Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:17:57 (2326)

2003-11-28 16:17:57# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú eins og ég sagði hér í gær að það sé verið að gera mikið veður út af litlu í sambandi við það sem fram kom í hinu ágæta vefriti fjmrn. sem ég veit að þingmenn eru áskrifendur að. Þar var eingöngu rakið það sem Ríkisendurskoðun hefur sjálf sagt um fjárlagaferlið. Ríkisendurskoðun hefur verið dyggur bandamaður fjmrn. og ríkisstjórnarinnar við það að reyna að auka aðhald og bæta utanumhaldið um öll þessi mál.

Hún er að sjálfsögðu undirstofnun Alþingis. Samkvæmt fjárreiðulögunum ber henni að fara með fjárlagatillögur sínar í gegnum forsn. Alþingis sem sendir þær síðan til forsrn. þannig að um hana gilda þá alveg sömu lögmál og um aðrar stofnanir.

Við höfum í nokkur ár, eins og margoft hefur komið fram, samþykkt í ríkisstjórninni að stofnanir ríkisins skuli ekki leita beint til fjárln. þó að þær muni, og eigi að sjálfsögðu, að hlýða kalli hennar ef það berst. Það er í og með vegna þess að við viljum gæta jafnræðis milli stofnana ríkisins, að sumar hafi ekki meira upp úr krafsinu með því að gefa sig fram beint við fjárln. heldur en aðrar sem gera það ekki. En það er auðvitað líka vegna þess að við viljum gera það sem allir eru að tala hér um í þessum sal sem þó eru að gagnrýna ríkisstjórnina, þ.e. halda fastar utan um þetta. Það ættu nú þeir að vera ángæðir með sem sí og æ tala hér um lausatök í ríkisfjármálunum.

Svo þegar verið er að reyna að draga úr þeim kemur þessi gagnrýni. Þetta er nú ekki merkilegt mál með vefritið en það sem ég sagði hér um utanumhaldið er miklu merkilegra.