Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 28. nóvember 2003, kl. 16:21:56 (2329)

2003-11-28 16:21:56# 130. lþ. 38.7 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 38. fundur, 130. lþ.

[16:21]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin og sérstaklega hversu jákvætt mér fannst hann taka í beiðni sveitarfélaga um auknar fjárveitingar og ég er vongóður um farsæla niðurstöðu úr þeim viðræðum sem fara í hönd í þeim efnum.

Ég vil segja varðandi kaup ríkisfyrirtækisins Rariks á Hitaveitu Dalabyggðar að ég er algjörlega sammála sjónarmiði fjmrh. Auðvitað getur ekkert ríkisfyrirtæki keypt slíkt fyrirtæki, þetta eða eitthvert annað, án þess að hafa heimild til þess frá Alþingi. Ég skil því svör hæstv. fjmrh. þannig að hann hafi ekki enn veitt samþykki sitt fyrir kaupunum vegna þess að hann hefur ekki enn haft heimild Alþingis til að veita það samþykki. Ég er alveg sammála því að svona eigi að standa að hlutunum.

Engu að síður er rétt að vekja athygli á þessu máli. Það er ljóst að það hefur verið brotalöm í framkvæmd þess því að samningurinn var gerður án fyrirvara um samþykki Alþingis og í samningnum er ákvæði um að Rarik eða kaupandinn yfirtaki hið keypta 29. ágúst í sumar. Menn hafa greinilega ekki haft neinar áhyggjur af því að það þyrfti að fá heimild frá Alþingi til þess að fullnusta kaupin. Rarik hefur ekki getað efnt samninginn þar sem þeir hafa ekki getað greitt kaupverðið. Þess vegna hefur afhending frestast en til stóð um síðustu mánaðamót að afhending færi fram eigi að síður.

Ég er dálítið hugsi yfir því í hvaða stöðu ríkið hefði verið ef svo hefði gerst.