Fjáraukalög 2003

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 13:37:00 (2334)

2003-12-02 13:37:00# 130. lþ. 39.1 fundur 87. mál: #A fjáraukalög 2003# frv. 123/2003, JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[13:37]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjáraukalög fyrir árið 2003 eru nú að koma til lokaafgreiðslu. Meginhluti þess sem hér er verið að greiða atkvæði um og afgreiða hefur framkvæmdarvaldið þegar skuldbundið sig til þess að framkvæma og láta ganga eftir þannig að að hluta til er hér um staðfestingu þingsins að ræða sem hefði kannski átt að bera að með öðrum hætti. Engu að síður fagna ég nokkrum breytingartillögum af hálfu meiri hlutans. Ég fagna því að ákveðið var að leggja fram 400 millj. kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til þess að styrkja fjárhag þeirra. Ég tel að brýna nauðsyn hafi borið til að gera það. En sú upphæð hefði mátt vera hærri.

Allmargir liðir í útgjöldum ríkisins eru vanáætlaðir, voru vanáætlaðir við fjárlagagerð fyrir ári og eru áfram vanáætlaðir nú og allmargar stofnanir verða að bera halla yfir áramót. Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á stöðu háskólanna. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs fluttum breytingartillögur við 3. umr. sem kveða á um að styrkja fjárhag Háskóla Íslands sem er í verulegri fjárvöntun á þessu ári vegna aukins nemendafjölda. Við leggjum til að úr því verði bætt með 300 millj. kr. Sömuleiðis vantar Háskólann á Akureyri líka verulegt fé vegna aukins nemendafjölda og ekki hefur verið staðið við að reiða fram fjárhæð þess skóla eins og til var ætlast. Það háir starfsemi hans og afar brýnt er að hann beri ekki halla fram yfir áramót. Þess vegna leggjum við til að veittar verði 92 millj. kr. til að styrkja fjárhag skólans á þessu ári og sömuleiðis 55 millj. kr. til þess að styrkja stöðu Kennaraháskólans vegna nemendafjölda þar og samnings sem ekki hefur enn þá verið að fullu efndur af hálfu ríkisins.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti er þetta frv. unnið algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis. Við munum því sitja hjá við heildarafgreiðslu fjáraukalaganna við 3. umr.