Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 13:58:59 (2340)

2003-12-02 13:58:59# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. meiri hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, frá meiri hluta efh.- og viðskn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson, Guðmund Thorlacius, Ólaf Pál Gunnarsson og Elmar Hallgrímsson frá fjármálaráðuneyti, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands og Jens Andrésson og Sjöfn Ingólfsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Félagi löggiltra endurskoðenda, Landssamtökum lífeyrissjóða, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Landsbanka Íslands, Sparisjóðabanka Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands og Verslunarráði Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður heimild launagreiðenda til lækkunar á tryggingagjaldi sem nýta á sem iðgjald á móti iðgjaldi launamanns í tilviki séreignarlífeyrissparnaðar. Heimild þessi var hluti af ráðstöfunum sem gerðar voru með það að markmiði að hvetja landsmenn til aukins lífeyrissparnaðar. Um þrenns konar hvata er að ræða, í fyrsta lagi skattfrestun, í öðru lagi mótframlag vinnuveitenda og í þriðja lagi mótframlag ríkisins sem felst í umræddri heimild til lækkunar tryggingagjalds. Af þessu þrennu vegur mótframlag ríkisins minnst.

Það er mat meiri hlutans, og er þar tekið undir röksemdir sem fram koma í frumvarpinu, að þeim markmiðum sem stefnt var að hafi verið náð og því sé ekki ástæða til að viðhalda þeim sértæku ráðstöfunum sem felast í heimild launagreiðenda til lækkunar iðgjalds.

Þrátt fyrir breytinguna verður til staðar hvati til viðbótarlífeyrissparnaðar í formi skattfrestunar og mótframlags vinnuveitenda sem er talið vega mikið þyngra.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson, Birgir Ármannsson og Dagný Jónsdóttir.