Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:25:03 (2346)

2003-12-02 14:25:03# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var margt ágætt sem kom fram í ræðu hv. þm. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að þessi aðgerð hefur tekist með eindæmum vel. Hann nefndi réttilega að menn eru hér með skattfrestun sem gerir það að verkum að þessi sparnaður er afsakplega hagstæður. En það er fleira sem kemur til. Það er enginn fjármagnstekjuskattur af sparnaðinum og menn hafa ekki þurft að greiða eignarskatt af honum. Það liggur því fyrir að þetta er lang-, langhagstæðasta sparnaðarformið.

Hv. þm. sagði hins vegar, og það kemur svolítið á óvart þar sem hann talaði fyrir hönd stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þingi, að starfsmenn sveitarfélaga væru illa staddir ef þessi 0,2% færu. Ég vil upplýsa hv. þm. um að almenna reglan er þessi: Starfsmenn sveitarfélaga fá mun hærri greiðslu frá sínum atvinnurekanda en almennt gerist. Á meðan að starfsmenn fá almennt 6% og hugsanlegt aukaframlag upp á 1--2%, fá opinberir starfsmenn 11,5%, hvorki meira né minna. Það er því kannski ástæðan ef þeir nýta þetta í minna mæli en aðrir launþegar.

Ég spyr, af því að það var hreint og klárt að þegar menn fóru út í þessa aðgerð var það til þess að auka sparnað: Ef 50% af launþegum eru farin að nýta þetta, hvenær er komið nóg til þess að menn hætti með þennan hvata? Því að eftir stendur, hv. þm., að þetta er langhagstæðasta sparnaðarformið í dag. Svo er bara einfaldlega ekki rétt að opinberir starfsmenn standi verr en aðrir. Þvert á móti, þeir standa mun betur, þannig ef einhverja munar minna um þessi 0,2% er það opinbera starfsmenn. En þetta var þungamiðjan í ræðu hv. þm. og augljóslega um gríðarlegan misskilning að ræða.