Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:27:20 (2347)

2003-12-02 14:27:20# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:27]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er barnasjúkdómur sem hrjáir marga sem hafa sest of ungir og dvalið of lengi í borgarstjórn Reykjavíkur að snúa út úr fyrir fólki og gera því upp orð. Það kom hvergi fram í mínu máli að opinberir starfsmenn stæðu illa og verr en þeir sem eru á almennum markaði. Það kom fram í máli mínu að þeir stæðu verr varðandi viðbótarlífeyrissparnaðinn. Það var einfaldlega upplýst í nefndinni og því var ekki mótmælt af þeim sem sátu í nefndinni að það hefur ekki verið samið um þetta sérstaka mótframlag af hálfu atvinnurekenda þeirra þannig að hvatinn er miklu minni en ella.

Þetta hefði hv. þm. vitað ef hann hefði hlustað á ræðu mína í staðinn fyrir að reyna að finna einhver atriði til þess að snúa út úr.

Hitt er svo rétt hjá hv. þm. að þetta er mikilvægasta sparnaðarformið og eina sparnaðarformið sem hefur gengið upp til þess að ýta á og efla þjóðhagslegan sparnað. Og hverjum er það að þakka, herra forseti? Ég er viss um að hv. þm. kemur hér og ber allar sínar Heimdallarbumbur og segir: Það er auðvitað hæstv. fjmrh. að þakka.

En það er fyrst og fremst Alþýðusambandi Íslands að þakka sem í kjarasamningum samdi um 2% mótframlag. Það er það sem skiptir máli. Þar, eins og í svo ákaflega mörgum öðrum málum, var það verkalýðshreyfingin sem tók þessa ríkisstjórn, hysjaði brækurnar upp um hana og setti á hana bæði belti og axlabönd. Það mun verkalýðshreyfingin ábyggilega þurfa að gera aftur.

Hins vegar finnst mér að hv. þm. ætti að koma hérna í ræðustól og gefa þinginu í eitt skipti fyrir öll skýringu á því hvernig hann ætli að fara að því að standa við loforð sín um skattalækkanir með því að samþykkja hér ein sex frumvörp í einni bunu sem fela í sér skattahækkanir upp á svona 3--4 milljarða.