Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:29:35 (2348)

2003-12-02 14:29:35# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:29]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var gaman að heyra þessa ræðu hv. þm. en hann settist einmitt mjög ungur í borgarstjórn Reykjavíkur eins og menn þekkja og því var gott að hann kom inn á það.

Það er líka ánægjulegt að hann er farinn að átta sig á efni málsins, þessu stóra máli. Það er bara ekki rétt að opinbera starfsmenn skorti hvata til að nýta sér viðbótarlífeyrissparnaðinn. Svo að ég útskýri það fyrir hv. þm. þá er það val hjá flestum opinberum starfsmönnum í hvaða deild þeir greiða og þar af leiðandi geta þeir sett stóran hluta af framlagi atvinnurekandans í viðbótarlífeyrissparnaðinn. Svo einfalt er það mál. Þetta var meginuppistaðan í málflutningi Samf. og menn geta ekki komist hjá því með því að ræða um ýmislegt annað sem væri virkilega gaman að spjalla um og við skulum gera við flest tækifæri. Hér er viðbótarlífeyrissparnaðurinn til umræðu og það liggur fyrir að opinberir starfsmenn fá mun meira greitt frá atvinnurekendunum en aðrir launþegar og það munar ekki um þetta eins og hv. þm. er að halda fram. Við erum búin að ná fram markmiðinu með þessum góða sparnaði.