Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:32:05 (2350)

2003-12-02 14:32:05# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að þarna væri um skattahækkun að ræða. Þetta er ekki skattahækkun því að fyrirtæki borga eftir sem áður tryggingagjald. Það sem gerist er það að hluti af tryggingagjaldinu rennur til launþeganna sem bætur frá ríkinu til að örva þá til sparnaðar þannig að þetta er ekki skattur. Þetta eru bætur.

Hann fullyrti einnig, sem ég vissi ekki áður, að starfsmenn sveitarfélaga spöruðu minna í séreignarsparnaði. Ég veit ekki til þess að þær upplýsingar liggi nokkurs staðar fyrir og getur verið mjög erfitt að nálgast þær nema með skoðanakönnun þannig að þetta er bara fullyrðing. Síðan segir hv. þm., sem er formaður næststærsta flokks landsins, að það gæti brostið á með meiri þenslu. Er þetta svipað og hv. þm. sagði fyrir kosningarnar 1999, að efnahagsmálin væru tifandi tímasprengja vegna þess að gengi krónunnar á því augnabliki var lágt og verðbólga mikil. Tifandi tímasprengja, sagði hv. þm. Er virkilega ástæða til að hafa svona taugaveiklað fólk í forustu?