Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 14:36:38 (2353)

2003-12-02 14:36:38# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, Frsm. minni hluta ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal höfum leyft okkur þann munað að láta hugann reika aftur fyrir kosningarnar 1999. Hvað gerðist? Það sem gerðist var auðvitað að það sem við spáðum gekk eftir. Viðskiptahallinn rauk upp úr öllu valdi og gengið fór, svo maður tali bara íslensku af því að hér eru tveir sjómenn inni, rakleitt til fjandans. Hvað var það sem leiddi til þess að menn náðu aftur tökum á efnahagsmálunum? Jú, það var farið að ráðum þeirra sem vildu taka Seðlabankann og breyta honum, gera hann sjálfstæðan og það var það sem bjargaði genginu. Hverjir höfðu predikað það? M.a. Samfylkingin. Og hverjir höfðu verið á móti því? Mig minnir, virðulegi forseti, að hæstv. forsrh. hafi talað gegn því einungis um það bil hálfu ári áður en ráðist var einmitt í þær björgunaraðgerðir sem Samfylkingin hafði lagt til.