Tryggingagjald

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 15:26:54 (2364)

2003-12-02 15:26:54# 130. lþ. 39.14 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða eitt af frumvörpum ríkisstjórnarinnar sem er ætlað að auka tekjur ríkisins. Með því á að færa til þá uppbót sem greidd hefur verið í gegnum hluta tryggingagjaldsins til launþega í lífeyrissparnað, sem var upprunalega 0,2% en mátti síðar eftir árið 2000 fara í 0,4% á móti því iðgjaldi sem greitt var.

Það er áætlað, virðulegur forseti, að þessi tilfærsla auki tekjur ríkissjóðs um 550--580 millj. kr. á næsta ári. Þær eru færðar frá launþegum og til ríkisins þar sem áður mátti greiða hluta af tryggingagjaldinu sem viðbótarálag á þennan séreignasparnað launþeganna. Til að skýra þetta þarf í raun bara nokkur orð úr nál. meiri hlutans, með leyfi forseta. Mig langar að lesa upp neðstu málsgreinina, en þar segir:

,,Það er mat meiri hlutans, og er þar tekið undir röksemdir sem fram koma í frumvarpinu, að þeim markmiðum sem stefnt var að hafi verið náð og því sé ekki ástæða til að viðhalda þeim sértæku ráðstöfunum sem felast í heimild launagreiðenda til lækkunar iðgjalds.``

Þarna hefði í raun og veru átt að segja ,,lækkunar iðgjalds til ríkisins``. Þá hefðu menn ekki þurft að ræða um það fram og til baka að þetta væri ekki skattlagning, ekki gjaldtaka o.s.frv. Með þessum aðgerðum er auðvitað verið að færa þennan tekjustofn til ríkisins. Hann var tekinn út úr hluta tryggingagjaldsins og þarf varla að deila mikið um það. Þetta mun sem sagt eins og áður segir auka tekjur ríkisins um allt að 580 millj. kr. á næsta ári.

[15:30]

Þetta er auðvitað til viðbótar við aðrar ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur boðað í breytingum, t.d. varðandi vaxtabæturnar sem munu færa ríkinu sennilega um 500 milljónir kr. Síðan var hér samþykkt fyrir örfáum dögum tillaga um hækkun bensíngjaldsins og þungaskattsins sem birtist núna í um 4 kr. hækkun á bensínlítranum til bifreiðaeigenda. Talið var að þær aðgerðir mundu færa á bilinu 1 milljarð til 1.100 milljónir í auknum tekjum til ríkisins og auk þess er ráðgert að fella niður þrjá daga í atvinnuleysisbótum sem nemur þá kostnaði upp á 170 milljónir. Samanlagt erum við að tala um í tilfærslum um rúma 2 milljarða kr. Það er því alveg ljóst hvað hér er um að ræða. Verið er að tala um að breyta lögum sem hafa verið launþegum til hagsbóta í gegnum séreignasparnaðinn og færa þær tekjur að nýju til ríkisins.

Í nál. minni hlutans kemur fram, virðulegi forseti, að Alþýðusambandið leggst gegn þessari tillögu og segir í nál., með leyfi forseta:

,,Það er að auki beinlínis óráðlegt að fella brott hvata til þjóðhagslegs sparnaðar þegar allar spár benda til þess að búast megi við verulegri þenslu í hagkerfinu.

Einnig má benda á að verði umrætt frumvarp að lögum er verið að rýra kjör launafólks um 500--600 milljónir á ári. Slík kjaraskerðing mun ekki auðvelda komandi kjarasamningsgerð.``

Það er kannski eitthvað sem ríkisstjórnin ætti að hafa áhyggjur af ef beinlínis er verið að efna til þess að frekari ófriður verði á vinnumarkaði og erfiðara verði að ná kjarasamningum saman en ella væri.

Landssamtök lífeyrissjóða mæla gegn þessari breytingu og segja í niðurlagi álits síns, með leyfi forseta:

,,Það er því skoðun Landssamtaka lífeyrissjóða að frekar beri að stuðla að auknum langtímasparnaði almennings heldur en að draga úr honum og minnka þannig þá hvatningu sem nú er í lögum um tryggingagjald.``

Síðan er, virðulegur forseti, umsögn Hagfræðistofnunar Háskólans sem mælir beinlínis gegn því fyrirkomulagi sem hér er lagt til.

Þar segir í niðurlagi, með leyfi forseta:

,,Því lýsir Hagfræðistofnun sig mótfallna fyrirhuguðum breytingum á lögum um tryggingagjald.``

Virðulegur forseti. Það liggur auðvitað fyrir að hér er ríkið að ná til sín tekjum með þessu lagi og tilgangur málsins er í raun og veru allur sá að auka tekjur ríkissjóðs. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattalækkunum --- en það var sú stefna sem ríkisstjórnin boðaði í kosningabaráttunni --- er sú að lækka hátekjuskattinn úr 5% í 4%, og verður sú aðgerð að teljast afar sérstök að leggja á það áherslu að þeir sem mest launin hafa, m.a. ofurlaunamenninrir í þjóðfélaginu, þurfi sérstaklega á því að halda að greiða lægri skatta á næsta ári.

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að Frjálsl. og þingmenn hans munu ekki styðja þetta mál og leggjast gegn þessari breytingu og að mestu leyti tökum við undir það sem birtist í minnihlutaáliti nefndarinnar um málið frá efh.- og viðskn. Það liggur í hlutarins eðli að þetta mál er ekki sú forgangsröðun sem við hefðum viljað sjá í skattamálum eða tekjumálum ríkisins. Það liggur ljóst fyrir hvaða áherslur við lögðum upp með í kosningabaráttu okkar, annars vegar að horfa til þess hvað mætti gera fyrir barnafjölskyldur í landinu og hins vegar varðandi það að hækka persónuafsláttinn eða réttara sagt láta hann nálgast það raungildi sem hann hafði. Þessi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er algjörlega í andstöðu við okkar.