Íslenska táknmálið

Þriðjudaginn 02. desember 2003, kl. 16:27:07 (2367)

2003-12-02 16:27:07# 130. lþ. 39.22 fundur 374. mál: #A íslenska táknmálið# frv., 375. mál: #A breyting á ýmsum lögum vegna íslenska táknmálsins# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég vil fyrst lýsa því yfir að ég er afar stolt yfir því að ég skuli fá að vera meðflutningsmaður hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur að þessu mikilvæga máli sem hún hefur talað fyrir.

Það er satt að segja afskaplega mikil vinna sem liggur á bak við frv. af þessu tagi og má segja að hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hafi unnið að því leyti til þrekvirki. Ég held að við hv. þm. sem höfum setið hér frá því í haust og gefið auga því starfi sem hv. þm. hefur lagt á sig við að semja þetta frv. getum öll verið stolt af því að hafa svo dugmikinn og kraftmikinn þingmann hér í hópnum.

Greinargerðin með frv. er afar fróðleg eins og kom fram í máli hv. þm. Hún fer þar vítt og breitt um sviðið og rekur sögu þess í stuttu máli, hvernig barátta heyrnarlausra fyrir viðurkenningu hins íslenska táknmáls hefur gengið síðustu árin. Ég treysti því að sú barátta sé að skila sér núna í flutningi frv. sem hér um ræðir.

Sömuleiðis má í þessum töluðu orðum vekja athygli á frv. hv. þm. sem gengur út á textun á táknmálsefni, sem er frv. á þskj. 516, þar sem gert er ráð fyrir því að heyrnarskertum og heyrnarlausum verði tryggður aðgangur að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni í gegnum textun. Því hafa nú verið lögð fram mál sem spanna þennan málaflokk mjög vel.

Við minnumst þess sem störfum hér í þessum sal að á sl. vori var mótmælastaða fyrir utan Alþingishúsið þar sem heyrnarlausir komu sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég man að á einu af spjöldunum sem mótmælendur báru stóð skrifað: ,,Íslenskt táknmál er lykill okkar að samfélaginu.`` Það eru orð að sönnu, virðulegi forseti, því að heyrnarskertir og heyrnarlausir eiga sárafáa aðra möguleika á virkri þátttöku í samfélaginu en í gegnum táknmálið. Við höfum oft rætt það á hinu háa Alþingi hvernig efla megi táknmál og viðurkenna það. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að á 121. löggjafarþingi hafi fyrst verið flutt hér úr þessum stól þáltill. um viðurkenningu táknmálsins, þ.e. að tryggja ætti stöðu táknmálsins. Svavar Gestsson, hv. fyrrv. þm., flutti þá tillögu í þrígang, ef ég man rétt, og á endanum var hún samþykkt með breytingum, en sáralítið hefur satt að segja komið út úr því starfi sem samkvæmt þeirri þál. átti að fara af stað.

[16:30]

Eins og hv. 1. flm. gat um í máli sínu hafa nefndir verið settar á laggirnar, starfshópar starfað, en niðurstöður af því starfi hafa ekki verið miklar.

Það kemur fram hörð gagnrýni á þetta aðgerðaleysi stjórnvalda í ályktun frá Félagi heyrnarlausra sem mig langar til að rifja upp hér. Sú ályktun kom í kjölfar mótmælanna sem ég gat um áðan. Í þeirri ályktun skorar Félag heyrnarlausra á ríkisstjórn Íslands að viðurkenna íslenska táknmálið formlega í sérlögum og tryggja þannig fullan rétt heyrnarlausra til þátttöku í íslensku samfélagi, þar með talinn réttinn til túlkaþjónustu. Segja má að barátta félagsins sé að skila sér að miklu leyti til núna í því frv. sem liggur fyrir.

Það eru sjálfsögð mannréttindi að eiga opinn aðgang að samfélaginu. Við höfum verið að taka okkur á, að litlu leyti þó, en við verðum að geta þess sem vel er gert líka. Táknmálið hefur verið viðurkennt í aðalnámskrá grunnskóla frá árinu 1999 og þeim áfanga var sérstaklega fagnað af heyrnarlausum og heyrnarskertum þegar námskrárnar voru kynntar. Ekki var bara talað um sigur í þeim efnum heldur hreinlega stórsigur í áralangri baráttu þeirra fyrir viðurkenningu íslenska táknmálsins. Það má í raun halda því fram að námskráin viðurkenni táknmálið sem móðurmál heyrnarlausra, en í inngangi hennar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Kennslan á að stuðla að þroska þeirra sem tvítyngdra einstaklinga með táknmál sem fyrsta mál og íslenskt ritmál sem annað mál.``

Þetta er afar mikilvæg setning í námskránni sem gefur til kynna að táknmál og hið íslenska talaða mál séu ekki eitt og hið sama. Í sjálfu sér má því segja að við höfum ígildi viðurkenningar í námskránni. En betur má ef duga skal.

Mér segir einnig svo hugur að oft reynist skólum erfitt að uppfylla þau áfangamarkmið sem sett eru í námskránni. Það hefur raunar komið fram í opinberri umræðu að ósamræmi sé á milli fjölda kennslustunda sem heyrnarlausir grunnskólanemendur fá og þess fjölda kennslustunda sem samsvarandi aldurshópar fá í almennri móðurmálskennslu, þ.e. í íslensku.

Annað sem valdið hefur erfiðleikum í því að framfylgja ákvæðum þessarar aðalnámskrár er sú staðreynd að heyrnarlaus börn koma oft í skólann án þess að þau hafi náð þeim málþroska sem jafnaldrar þeirra alla jafna hafa náð. Hverju er um að kenna? Oftar en ekki því að foreldrar heyrnarlausra barna hafa engan rétt til að sækja táknmálsnámskeið til dæmis. Ef fólk eignast heyrnarlaust barn þá er ekki hlaupið að því að fá upplýsingar eða fræðslu um það hvernig foreldrarnir eiga að bregðast best við.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, virðulegi forseti, og gagnrýna að ekki er stafkrókur um táknmál í skólanámskrá leikskólastigsins. Á því verður að vinna bót. Börnin koma sem sagt misvel undirbúin í skólann og dæmi eru um að málþroski sumra heyrnarlausra barna, sem eru sex ára að aldri við upphaf á grunnskóla, geti verið á við málþroska þriggja ára barns. Það segir sig sjálft að ekki er auðvelt að uppfylla markmið skólanámskrár við kennslu barns sem þannig er á vegi statt.

En eitt má nefna sem gerir skólunum erfitt fyrir við að uppfylla ákvæði námskrárinnar. Það er að sjálfsögðu skortur á námsefni á táknmáli. Samkvæmt upplýsingum úr Fréttabréfi heyrnarlausra frá því í apríl sl. hefur Námsgagnastofnun einungis 1 millj. kr. árlega til að semja og útfæra námsefni á táknmáli. Þrátt fyrir viðræður Félags heyrnarlausra við fulltrúa menntamálaráðuneytisins síðan árið 2000 hefur ekki verið hægt að bæta þar úr. Er þetta mjög miður og er eitt af því sem frv. það sem hér er talað fyrir ætti að tryggja að bætt verði úr.

Það er ánægjulegt til þess að vita hversu heyrnarlausum stúdentum á háskólastigi er að fjölga. Ég held ég muni það rétt að þrír stúdentar hafi útskrifast úr Kennaraháskólanum í vor. Það er afskaplega ánægjulegt að sjá hversu barátta Félags heyrnarlausra virðist hafa skilað sér í því að heyrnarlausir sækja nú í auknum mæli fram á vettvangi almennrar umræðu og maður verður í auknum mæli var við þátttöku þeirra í samfélaginu.

Að hluta til má þakka það kennslunni sem hefur farið fram uppi í háskóla og hv. 1. flm. frv. gat um í ræðu sinni. Þar hefur verið afar vel að málum staðið. Þótt ekki sé búið að útskrifa nægilega marga táknmálstúlka til þess að anna eftirspurninni þá er fjölgun í þeirri stétt einstaklega ánægjuleg.

Einn þeirra hópa sem nefndur er í frv. og hv. þm. gat sérstaklega um í ræðu sinni eru daufblindir. Málefni þeirra hafa ekki fengið mikla athygli í opinberri umræðu en hér er um einn allra einangraðasta hópinn í samfélagi okkar að ræða. Samskiptaleiðir daufblindra sín á milli og við þá sem ófatlaðir eru eru mjög mismunandi og velta yfirleitt á því hvort viðkomandi hefur misst fyrr, heyrn eða sjón. Helstu samskiptaleiðirnar eru táknmálið og snertitáknmál sem byggir á því að halda í hönd þess sem talar og skynja táknin á þann hátt. Einnig gagnast blindraletur og fingrastafróf daufblindum til samskipta.

Það hefur verið afar bagalegt, virðulegi forseti, fyrir þennan hóp sem telur að öllum líkindum 12 daufblinda einstaklinga og þar af eitt daufblind barn á grunnskólaaldri, að enginn einn aðili í stjórnkerfinu ber ábyrgð á málefni þeirra. Þetta þyrfti að færa til betri vegar. En af því hér er til umfjöllunar frv. sem gerir ráð fyrir því að íslenskt táknmál hljóti viðurkenningu sem opinbert móðurmál þessa hóps þá segir það sig sjálft að slík viðurkenning mundi breyta mjög miklu fyrir daufblinda og möguleika þeirra til þátttöku í almennu samfélagi.

Fyrir nokkrum árum tóku Daufblindrafélag Íslands, Blindrafélagið, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, Félag heyrnarlausra, Heyrnarhjálp og Sjónstöð Íslands höndum saman og hófu rannsókn á fjölda og aðstæðum eldra fólks sem er sjón- og/eða heyrnarskert. Rannsóknin var nokkuð víðtæk og byggðist á því að sendir voru út spurningalistar til allra stofnana þar sem aldraðir búa. Framkvæmdin hefur tafist vegna ýmissa orsaka. En nú skilst mér að farið sé að hilla undir að drög að niðurstöðu séu væntanleg. Þegar þau koma fram og rannsóknin liggur endanlega fyrir mun hún að öllum líkindum varpa ljósi á það hvar skórinn kreppir í þjónustu við daufblinda. Niðurstöðurnar munu vonandi einnig verða til þess að Daufblindrafélagið, sem hefur verið starfandi um nokkurt skeið, geti veitt þessum hópi markvissari og betri þjónustu. Í því sambandi skiptir líka verulegu máli sú réttarbót sem frv. það sem hér um ræðir felur í sér því auðvitað á daufblint fólk sama rétt og aðrir þegnar þjóðfélagsins til þess að stunda atvinnu, sinna áhugamálum sínum, þörfum og væntingum á sama hátt og aðrir landsmenn. Mig langar mikið til að fylgja málefnum þeirra eftir á hinu háa Alþingi í náinni framtíð.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir gat um það í máli sínu að geta þyrfti íslenska táknmálsins í stjórnarskrá og mögulegt væri að það endaði þannig að íslenska táknmálið fengið þar ákveðinn sess. Í nágrannalöndum okkar í Evrópu hafa nokkur lönd, nokkrar þjóðir, viðurkennt táknmál heyrnarlausra sérstaklega með því að geta þess í stjórnarskránni. Það eru Finnland, Tékkland, Slóvakía og Portúgal, og reyndar lönd utan Evrópu líka, Kólumbía, Úganda og Suður-Afríka.

Ég ætla hér við lok máls míns að láta í ljósi þá von mína að íslenska táknmálið geti eignast sess í stjórnarskránni íslensku á sama hátt og hjá öðrum löndum í heiminum sem hafa verið að ryðja slíka braut, þ.e. að gefa táknmáli heyrnarlausra í löndunum slíkan sess. Það er að öllum líkindum nauðsynlegt til þess að lög af því tagi sem hér yrðu sett, ef þetta frv. nær fram að ganga sem ég vona sannarlega að það geri --- þá veitir ekki af að styrkja slíka lagasetningu með því að hafa ákvæði um viðurkenningu táknmálsins í íslensku stjórnarskránni.